Tilgangur ,,sér"þjónustu

Þekkið þið ,,sérþjónustuprest"? Sérþjónustuprestur er t.d. fangaprestur,   prestur fatlaðra eða sjúkrahússprestur, sem sé, prestur sem starfar fyrir tiltekið málefni eða hjá stofnun eins og spítala eða elliheimili. Þeir eru ekki bundnir við sókn, sem er hefðbundin grunneining í skipulagi kirkjunnar. Að því leyti eru þeir ,,sér". Nú starfa um 18 prestar fyrir fanga, fatlað fólk, innflytjendur, sjúklinga á spítölum o.fl.

En af hverju sérþjónustuprestar? Tvær spurningar munu koma upp. Í fyrsta lagi geta prestar í sóknum ekki sinnt málum sem tilheyra sérþjónustu? Í öðru lagi hvetur ,,sérþjónustan" ekki aðskilnað tiltekins hóps frá öðrum, eins og fatlaðs fólks frá örum, eða innflytjenda frá Íslendingum?

Fyrstu spurningunni er auðsvarað. Oftast krefst ákveðið málefni meiri sérþekkingar en í venjulegu prestsstarfi. T.d. þarf prestur heyrnarlausra að ná tökum á táknamáli og prestur innflytjenda verður að hafa þekkingu á löggjöf o.fl. sem varðar útlendinga. Þjónusta sjúkrahússpresta krefst hærri menntunar í  sálgæslu en venjulegur sóknaprestur þarf að hafa.

Og einnig tekur það mikinn tíma að sinna fólki almennilega. Ef maður sér hve mikið sjúkrahúsprestur er upptekinn í sinni þjónustu, mun þessi fyrsta spurning hverfa. 

Síðari spurningunni mun ég svara þannig. Tilgangur sérþjónustunnar er ekki að aðskilja ákveðið fólk frá öðru fólki. En það er satt að við þurfum að veita öðruvísi þjónustu við fólk t.d. með fötlun eða fólk í sérstökum aðstæðum eins og fangelsi. En það sem við sérþjónustuprestar sjáum í þjónustu okkar er ekki fötlun, sjúkdómur eða framandi tungumál, heldur mætum við manneskjum. Og manneskjur eru jú í mismunandi lífskjörum. 

Ég vil meina að aðgreining milli hefðbundinnar prestsþjónustu og sérþjónustu sé einungis tæknileg. Sérþjónustuprestar nota öðruvísi nálgun en sóknarprestar til að kafa í málin í mismunandi og oft erfiðum aðstæðum, í þeirri viðleitni að mæta fólki í þeim aðstæðum sem það er statt og styðja það. Við þjónum undir kjörorðunum: ,,Öll erum við Guðs börn".

-Fyrst birt á MBL. 25. október 2012- 

  

 


Sanngjörn meðhöndlun óskast

Fréttir herma að Útlendingastofnun hafi breytt reglugerðum svo að hælisleitandi megi ekki sækja um tímabundið atvinnuleyfi ef hann hefur áður sótt um hæli í landi þar sem Dyflinnarsáttmálinn ríkir. Hælisleitandi skal vera sendur sem fyrst til baka til þess lands sem hann kom frá ef ekki er hægt að sýna fram á að málið þarfnist sérstakrar skoðunar. 

Ef til vill skiptir þessi breyting ekki miklu þegar brottvísunin á sér samstundis eða fljótt stað. En þegar hælisleitandi bíður hér á landi á milli vonar og ótta, þegar ástæða þykir að kanna sérstakar aðstæður, getur það valdið honum tilfinningum eins og pirringi og vonleysi um framtíðina, því það getur tekið yfirvöld marga mánuði að komast að niðurstöðu. 

Mér skilst á þeim hælisleitendum sem ég þekki að sérstakar ástæður séu fjölmargar. Það getur verið ofbeldisárás (rasismi) í því landi sem hælisleitandi sótti fyrst um, ósanngjörn afgreiðsla máls, órökstuddur þrýstingur brottvísunar o.fl. Að mínu mati krefjast slík dæmi endurskoðunar á grundvelli Dyflinnarsáttmálans. 

Í fréttum RÚV í maí sl. kom fram að það kostaði 7.000 kr. á hverjum degi að framfæra hvern hælisleitanda. Ef hælisleitandi finnur atvinnu, þarfnast hann ekki þessarar opinberu framfærslu. Margir hælisleitendur vilja vinna. Með því geta þeir a.m.k. staðfest að tilvist þeirra er ekki til einskis. Jafnframt sparast opinbert fé. Hvers vegna er þá svona erfitt fyrir þá að fá tímabundið atvinnuleyfi? 

Ég óska þess að meðhöndlun hælisleitenda sé sanngjörn og afgreiðsla mála þeirra sé gagnsæ með öllu.


-Fyrst birt í FrB. 25. okt.-

  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband