Kristin þjóð og trú hvers einstaklings


Flestar þjóðir heims virðast eiga ríkjandi trú. Það fer eftir hverri þjóð hve stór hluti þjóðarinnar játar þessa trú og hversu mikil bein áhrif hún hefur á þegna hennar. Íslendingar eru „kristin þjóð". Ef kristið fólk myndi klæðast bláu í einn dag, búddatrúarmenn rauðu, múslímar hvítu, guðleysingjar gulu og svo framvegis þá myndi íslenska þjóðin í fjarlægð líta út að mestu blá en rauði, hvíti og hinir litirnir væru engu að síður jafnmikilvægir fyrir þjóðina.

Gildi kristinnar trúar fyrir íslensku þjóðina, menningu hennar og hefð hefur verið mikið í umræðunni nú í tengslum við samskipti skóla og kirkju og einnig varðandi aðskilnað ríkis og kirkju. Þeir sem meta mikils kristileg gildi í íslenskri menningu, sögu og venjum telja kristna trú vera ómissandi þátt og jafnvel kjarna í öllu þessu. Þeim finnst eins og það þyrfti að afsala sér trúnni á Guð ef samfélagskerfið breyttist í þá átt að þátttaka kirkjunnar yrði takmörkuð í skólum eða ákvæði um þjóðkirkjuna yrði tekið út úr stjórnarskránni. Og þar sem kristin gildi eru kjarni menningar Íslands og hefðar þýddi það í þeirra huga hrun íslenskrar menningar og hefðar.

Ég er innflytjandi og því ég vil ekki vera of afskiptasamur. Ég ber virðingu fyrir menningu Íslands, hefðum og venjum eins og þeim sem varða samskipti kirkju og þjóðar í margvíslegum skilningi. Á sama tíma er ég kristinn maður og því langar mig að leggja nokkur orð í belg í þeirri umræðu sem varðar trú og íslenska menningu.

Þegar við skoðum almennt samband á milli menningar hvaða þjóðar sem er og trúar, þá er trúin oft forsenda eða áhrifamikill þáttur í mótun menningar og hefða. Alþingi Íslendinga ákvað að gera kristni að þjóðartrú árið 1000. Þaðan í frá mótaðist samfélagskerfið og ýmsar venjur smátt og smátt á kristilegum gildum í sögunni.

En sömuleiðis hefur menning eða hefð þjóðar einnig áhrif á mótun trúarbragða yfirleitt. Kristni mótaðist t.d. í menningarheimi Gyðinga og varð fyrir áhrifum frá menningu og hugmyndaheimi Forn-Grikkja. Þannig er menning, hefð og trú oftast samofin.

Menning og hefð er eitt, trú er annað

Það sem ég er að reyna að segja er að þó að kristin trú sé samofin menningu, hefð og venjum í sögu Íslands, þá á trúin ekki að koðna niður í því. Það á sérstaklega við þegar um trú sérhvers einstaklings er að ræða, sú trú er frjáls frá gildum menningar eða hefða viðkomandi einstaklings. Ég tel að gildi trúar eigi að varða fyrst og fremst raunveruleika manneskju í nútíð og framtíð en ekki fortíð. Trú er mikilvæg af því að hún breytir stöðu manns í nútíð og framtíð. Trú getur breytt gildismati manneskju, menningu eða samfélagsstöðu, en viðhald þjóðarmenningar eða hefðar er að mínu mati ekki aðalhlutverk trúarinnar. Af hverju þjáðist Jesús svo mikið í boðun fagnaðarerindis síns í menningu Gyðinga? Af því að hann var að breyta menningu og hefðum á þeim tíma. Þróun og breyting er óhjákvæmilega á móti viðhaldi menningar og hefðar að nokkru leyti.

Ástæða þess að ég skrifa þessa grein er ekki sú að ég vilji gera lítið úr menningarlegri og sögulegri tengingu milli kristinnar trúar og íslensku þjóðarinnar. Ég vil ítreka að ég ber mikla virðingu fyrir menningu Íslands og hefðum. Samt langar mig að segja að þrátt fyrir sérstaka tengingu milli kristinnar trúar og menningar á Íslandi, skulum við ekki blanda þessa tvennu of mikið saman. Við þurfum að reyna að draga línu á milli þessara tveggja atriða. Menning og hefðir eru eitt, trú er annað.

Það er auðvelt að leita skjóls í menningu og hefðum af hálfu kristinnar trúar, en ég tel að slík tilraun svipti trúna sínum styrkleika. Dag eftir dag stöndum við kristið fólk frammi fyrir kröfum um að líta á trú okkar í samræmi við svo margt annað eins og tilvist annarra trúarbragða, mannréttindi eða vísindalega þróun. Þetta er alls ekki alltaf auðvelt fyrir okkur í kirkjunni. Það er margt sem storkar trú okkar. Og í því ferli er lausnina ekki að finna á bak við menningarlegt skjól eða hefð. Við eigum að sýna fram á gildi trúar okkar með því að standa með henni og sýna styrkleika hennar, en ekki með því að benda á menningu þjóðar eða hefðir.

Mig langar til að íslenskir kristnir menn viti af því að óteljandi margir kristnir menn víða í heiminum, í Japan, í Kína, í Mið-Austurlöndum og víðar lifa trúarlífi sínu án þess að leita skjóls í menningarlegum hefðum eða venjum. Á slíkum stöðum hafa söfnuðir engin veraldleg efni til þess. Trúin er einungis kraftur til breytingar og leið til að frelsast.

Ég held að trú sem gerir ákveðna menningu og hefðir að forsendu tilvistar sinnar lendi í blindgötu fyrr en seinna. Það sem okkur kristna menn á Íslandi vantar er ekki trú vegna menningar og hefðar, heldur trú vegna raunveruleika nútíðar okkar og framtíðar.


- Fyrst birt í Mbl. 27. nóvember - 

 


Virðing fyrir íslenskri tungu


Þriðjudaginn 16. nóvember var dagur íslenskrar tungu. Ég er innflytjandi og því er íslenskan ekki mitt móðurmál. Ég hef þó verið að læra íslensku undanfarin átján ár og glími enn við tungumálið á hverjum degi. Ég veit að þó að íslenskan mín sé ófullkomin ber ég virðingu fyrir íslenskri tungu. Ég veit að margir innflytjendur eru að læra íslensku og vona að sem flestir geri það.

Á þessum hátíðardegi heyrði ég af mjög sorglega sögu. Í þætti á Útvarpi Sögu hringdi útlensk stelpa inn í þáttinn og spurði, áður en hún lagði orð í belg, hvort útvarpskonan talaði ensku. Útvarpskonan svaraði henni harkalega og sagði:

„Við tölum íslensku hérna. Það er nefnilega dagur íslenskrar tungu". Hún sagði allt þetta á íslensku. Stelpan sagði:„Ok" og ef útvarpskonan hafði lokið símtalinu væri málið ef til vill í lagi. En áður símtalinu lauk sagði útvarpskonan við stelpuna:„Ef þú ert á Íslandi þá skaltu tala íslensku. Er það ekki? Hefur ekkert gengið að læra það?" sagði útvarpskonan. „Það er dagur íslenskrar tungu í dag og það er nú alveg lágmark að sýna okkur þá virðingu að tala íslensku á þessum degi og fyrir utan það hafa íslenskir fjölmiðlar þá skyldu að vera með efni á íslensku. Ef þú ætlar að vera á Íslandi, talar þú íslensku. Það er nú bara þannig."

Að loknu símtalinu hélt útvarpskonan æst áfram og sagði að það væri nauðsynlegt að setja ákvæði í stjórnarskrá um að íslenskan væri þjóðarmál landsins og að kvartaði yfir því margir útlendingar neituðu að læra íslensku og tala hana.

Ég get skilið, að í þætti sem er útvarpað á Íslandi sé erfitt að vilja spjalla á öðru málu en íslensku, nema sérstakar ástæður liggi fyrir. En það er hægt að segja á kurteisari hátt. Framkoma útvarpkonunar gagnvart útlensku stúlkunni var ekki falleg. Hún var virkilega móðgandi. Hún hefði geta sagt: „Fyrirgefðu, en við þurfum að tala íslensku í þættinum, þar sem margir skilja ekki ensku. Takk samt fyrir að hringja í okkur." Það hefði verið fagmennska að mínu mati.

Útvarpskonan misnotaði líka uppákomuna á ýmsa vegu. Í fyrsta lagi skammaði hún stelpuna eins og stelpan væri að vanrækja að læra íslensku. Hvað vissi hún um það? Stelpan gæti verið að læra en ekki treyst sér til að tala. Þetta eru hreinir fordómar hjá útvarpskonunni.

Í öðru lagi er það óvirðing við íslenskuna þó fólk tali ensku eða annað mál á degi íslenskrar tungu? Á það fólk sem kann ekki íslenskuna bara að þegja á degi íslenskrar tungu? Er það hluti af hátíðarhöldunum? Ég skil ekki þessi rök.

Í þriðja lagi tengdi útvarpskonan uppákomuna við innflytjendur sem vilja ekki læra íslensku. Það er engin raunveruleg tenging milli stúlkunnar sem hringdi í þáttinn og innflytjenda sem„neita" að læra íslensku. Útvarpskonan notaði uppákomuna til að halda uppi neikvæðri ímynd af um innflytjendum. Ef Íslendingar vilja að innflytjendur tali meiri íslensku þá mun hvatning og þolinmæði nýtast betur en skammir. Íslendingar almennt þurfa líka að læra að venjast öðrum hljómi og hreimi í íslensku tali, það myndi hvetja innflytjendur til að tjá sig meira munnlega á íslensku.

Ég get haldið áfram en læt þetta duga að sinni. Ég ber virðingu fyrir íslenskri tungu, en ég ber ekki neina virðingu fyrir viðhorfi eins því sem útvarpskonan sýndi útlensku stúlkunni. Það er óvirðing við manneskju að útvarpskonan þykist vera meira virði en stúlkan þar sem hún talar fullkomlega innlent tungumál.

Að lokum langar mig að segja atriði sem ég var búinn að segja mörgum sinnum hingað til:

Það er gott að bera virðingu fyrir íslenskri tungu. En það má ekki vera viðmið að meta mannkosti manneskju hvort viðkomandi tali góðu íslensku eða ekki.

 

- Fyrst birt á Vísir.is 18. nóvember 2010 - 

  


Hefð þjóðar, þróun og framtíð


Mikil umræða hefur átt sér stað varðandi tillögu mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar um samskipti á milli skóla og kirkju. Mér líður eins og ég eigi tvo báta sem eru samsíða í höfn og ég hafisett sitt hvorn fótinn í þá. Smám saman fara bátarnir að líða hvor frá öðrum og fæturnir mínir gliðna í sundur um leið. Líður ef til vill mörgum eins og mér? Samstarf milli skóla og kirkju er mikilvægt en samtímis viljum við virða mannréttindi í samfélaginu.

Mér virðist sem  ástæða hinnar miklu umræðu um samskipti skóla og kirkju sé sú að Mannréttindaráð borgarinnar flýtti sér um of að komast að niðurstöðu. Kirkjan er meðvituð um að samskipti við grunnskóla eru viðkvæm og því hún hefur unnið með fagfólki skólanna og búið til samkomulag um hvernig samstarf á milli þessara tveggja aðila ætti að vera. Þetta er gott samkomulagað mínu mati.

Ef einhver brýtur samkomulagið eða að kvörtun berst frá skólabarni, foreldri þess eða forsjámanni til Mannréttindaskrifstofu(eða Mannréttindaráðs) borgarinnar, á hún þá ekki fyrst og fremst að kanna málið og gefa síðan kirkjunni eða skólanum viðvörun og krefjast úrbóta?  Hlutverk Mannréttindaráðs er ekki að banna, heldur að benda á áþreifanleg vandamál og láta viðkomandi aðila vinna að úrlausnum. Mér virðist sem Mannréttindaráð misskilji hlutverk sitt. Ég tel því að það ætti að draga tillöguna til baka og setja málið aftur í umræðufarveg. Þetta er fyrsta tillagan sem ég hef. 

Þá er ég með aðra tillögu sem varðar kirkjuna sjálfa, þ.á.m. mig sjálfan. Í fyrsta lagi heyrist stundum í umræðunni orðasamband eins og: ,,þetta eru örfáar kvartarnir á móti miklum meirihluta sem ekki kvartar." Við í kirkjunni skulum passa okkur vel á hugsunarhætti sem þessum. Hver einasti þegn samfélagsins á rétt á mannréttindum. Mannréttindi eru ekki hugtak um meirihluta eða minnihluta. Ef jafnvel einu skólabarni finnst það vera brot á mannréttindum sínum, á þá það skilið að verið tekið alvarlega.,,Fáir í meirihluta þýðir lítið" er algjör villuhugsun.   

Í öðru lagi þarf kirkjan að huga að áframhaldi samkomulagssins, sem er síðan árið 2007. Samkomulagið er fínt. En hvort það sévirt og framkvæmt eða ekki fer eftir sérhverjum presti eða starfsfólki kirkjunnar. Var kirkjan búin að gera prestum og öðrum starfsmönnum hvað fælist í þessu samkomulagi og hvað bæri að virða? Þega kemur að hegðun sérhvers starfsmanns kirkjunnar, er næstum ómögulegt að vita hvað gerist í raun og veru,þar sem engin okkar veit nákvæmlega um allt sem er að gerast í hverjum einasta skóla. Það vantar bæði endurmenntun fyrir starfsfólk kirkjunnar og einnig eftirlit um að samkomulagið sé haldið.

Í siðasta lagi held ég að það sé nauðsynlegt að horfa á málið í stærra samhengi, sem er hvert er okkar samfélag að þróast? Aðskilnaður á milli opinbers vald og trúarlegs er óhjákvæmilegt í háþróaðri þjóð. Það er ekki hægt að halda í gömlum starfsháttum eða venjum að eilífu. Við þurfum alltaf að sýna málum tillitssemi með tilliti til þróunar samfélagsins.Það þýðir alls ekki að kirkjan skuli fylgja þróun samfélagsins skilyrðislaust. Hún á að neita slæmri þróun og villigötum en úrbætur fyrir mannréttindum geta ekki talist til slæmra mála. Það eru mál sem kirkjan á að taka virkan þátt í. Í því ferli gæti orðið árekstur á milli venja og siða kirkjunnar og einhvers annars eins og nú sést í umræðu í kringum samskipti kirkju og skóla.  

Það er mín persónulega skoðun að kirkjunni hefur mistekist síðastliðin ár að meta þróun samfélagsins. Dæmi umþað var t.d. umfjöllum um kynferðisbrot innan kirkjunnar eða mál sem vörðuðu ein hjúskaparlög. Nú skulum við í kirkjunni læra af reynslu okkar og sýna frumkvæði að framtíðarsýn kirkjunnar okkar og samfélagsins.


- Fyrst birt í Fréttablaðinu 1. nóv. sl. - 

* Það er hægt að skila komment í www.tru .is 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband