Ég á mér draum...eða má ég það?

Ég á mér draum. En hann er ekki stór draumur fyrir réttlæti manna og frelsi eins og Martin Luther King yngri átti sér. Draumur minn er lítill og persónulegur.

Ég á mér draum. Mig langar að elda góðan mat fyrir einhverja sem ég kann vel við og sjá bros á andliti hennar. Mig langar að sitja til borðs þar sem hlátur og hlýja streymir niður.

Mig langar að fara í ferðalag innanlands með einhverri sem ég kann vel við og ganga með henni um fjöll og dali. Mig langar að við njótum fegurðar náttúru Íslands saman og ég safna efni fyrir ljóð.

Mig langar að við sitjum saman í hlýrri stofu og ég sýni henni uppkast ljóða minna og fá álit hennar. Mig langar að við deilum erfiðleikum, pirringi og kvörtunum með hvort öðru, jafnt sem gleði og skemmtun.

Draumur minn er nefnilega að hafa einhverja sem ég get deilt lífi mínu með. En samt þarf það ekki endilega að búa saman eða giftast.
Ég hef haldið í þann draum síðustu áratugi, en hann hefur aldrei ræst nema um stund.

Ekki misskilja mig. Ég er ekki að auglýsa eftir lífsförunaut fyrir mig hér! Ég vil heldur velta fyrir mér leitinni að hamingju lífsins. 

,,Lúxus"  ,,of mikil þrá" eða ,,græðgi"?

Þegar þið lesið um þennan draum minn, hugsið þið ef til vill að ég kveljist í einangrun og sé ósáttur við lífið mitt án þess að njóta þess. En það er ekki satt. Ég gæti verið duglegri í að njóta lífsins, en ég er hamingjusamur.

Ef það væri til mælingartæki á hamingju manns, myndi ég fá háa einkunn á hamingjuskala. Ég á tvö börn, sem ég get sannarlega verið stoltur af, og ég þakka Guði fyrir að vera svo lánsamur.    

Ég er í starfi sem ég elska og í því get ég notað hæfileika minn vel. Atvinna manns varðar hversdaginn og það skiptir miklu hvort manni líður vel eða illa í vinnunni.

Ég er ekki með neinn ákveðinn sjúkdóm, þó að ég vanræki algjörlega líkamsrækt. Ég er ekki ríkur, en samt á ekki í fjárhagserfiðleikum.
Ég á enga sérstaka óvini, þó að ég viti að ég er ekki vinsæll hjá öllum og sumir sýna mér andúð sína.

Þannig að þegar skoðuð er heildarmynd lífs míns, má segja að ég sé hamingjusamur maður í ríkum mæli.

Hvað um það þó ég haldi í draum um að eignast lífsförunaut? Ætti slíkur draumur að þykja ,,lúxus" ,,of mikil þrá" eða ,,græðgi" ?   

Satt að segja tel ég það sjálfur stundum. Úr fjölmiðlum þekki ég mörg börn sem glíma við erfiða sjúkdóma. Erfiðleikar þeirra varða alla fjölskyldu barnanna. Margt fólk er orðið að fórnarlömbum hagræðingar og enn fleiri standa frammi fyrir þeim ótta að missa lífsviðurværi sitt.

Í starfi mínu hitti ég fólk sem á í erfiðleikum í fjölskyldu sinni og við matarborð þeirra eru borin á borð tár og reiði í staðinn fyrir súpu og brauð.

Og hælisleitendur. Í hvert skipti þegar ég kem heim eftir heimsókn til hælisleitanda, get ég ekki gert annað en að þakka fyrir það sem ég á, heimili, fjölskyldu, tilgang í lífinu, frið, frelsi og réttindi. Hvað meira er nauðsynlegt?

Það er satt. Við skulum reyna að gleyma ekki því sem við eigum núna. Ekkert er sjálfsagt mál fyrir okkur og allt á skilið þakklæti. Mér finnst þetta vera grunnstefna lífsins, a.m.k. hjá mér.

Það sem varðar eðli manns djúpt

Engu að síður, get ég ekki afsalað mér draumum mínum. Af hverju?
Þegar Guð skapaði manneskjuna sagði hann: ,,Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi". Mér finnst þetta vera mjög mikilvæg skilaboð (sérstaklega til að réttlæta drauminn minn!).

Nei, án gríns, hér birtist mjög mikilvægt atriði sem varðar eðli mannsins. Það er að manneskjur eru hannaðar til að starfa saman og hjálast að. Það gildir um samfélag manna og jafnframt gildir það sérhvern einstakling. Að eiga maka varðar í raun grundvallar-eðli manneskju.

Þannig er það ómissandi hluti fyrir mann til að móta sannan sjálfan sig að þiggja hjálp frá maka sínum og að veita maka sínum hjálp, þar sem manneskja á að vera í sambandi ,,veita-þiggja hjálp". En gleymist þetta ekki alltof oft í okkar nútímalífi?

Dag frá degi virðist það vera mikið auðveldara að lifa og búa ein/n. Ég hef reynslu af fjölbreyttri sambúð: að vera ógiftur, giftur, skilinn, í sambandi, og ég get fullyrt að það er mikið auðveldara að búa ein/n en að vera í sambúð. Að búa saman eða að vera í fastasambandi er erfið samvinna. En samt er það þess virði.

Niðurstaða mín.

Draumur minn, sem er að óska eftir lífsförunaut, er því í eðli sínu ekki að bæta ákveðinni hamingju við þann lánsama hluta lífs míns sem ég lifi núna. Draumurinn fylgir mér svo framarlega sem ég spyr um tilvist sjálfs míns og leita leiða til að njóta míns eigins lífs. Því má ég halda í þessum draumi og bíða eftir því að hann rætist.
Maranatha!

  


Gegn einelti

Á morgun, 8. nóvember, verður ,,dagur gegn einelti".

Varðandi einelti er heimaland mitt, Japan, ,,leiðandi þjóð" í neikvæðri merkingu. Einelti er bersýnilega eitt af alvarlegastum málum fyrir Japana.  Fleiri en 70.000 tilfelli eru viðurkennd sem einelti árlega í Japan.

Á árinu 2012 höfðu 200 unglinga á grunn- og framhaldsskólaaldri framið sjálfsvíg í Japan. Meðal þessara 200 voru fjögur tilfelli vegna eineltis. Þetta getur litið út fyrir að vera ekki háar tölur. 12% af þessum unglingum frömdu sjálfsvíg vegna erfiðra samskipta við foreldra sína, og 10% vegna kvíða um framtíð sína. En um 58% af þessum 200 tilfellum, eða 116 unglinga, voru ástæður ,,óþekktar".

Í hvert skipti þegar skólabarn fremur sjálfsvíg, er rætt um hvort einelti hafi verið ástæða þess eða ekki. En yfirleitt er það tilhneiging til staðar í Japan að skólayfirvald neitar tilvist eineltis af því að ef það viðurkennir einelti, verður það að bera ábyrgð á því að sér að hafa látið einelti vera.

Ef við tökum tillit til þess atriðis, gætum við sagt að fleiri tifelli sjálfsvígs hafi stafað af einelti. Persónulega trúi ég því.

Ég er ekki sérfræðingur um einelti almennt enda ég verð að játa það að ég þekki lítið um aðstæður eineltis á Íslandi. En í Japan er það oft sagt að þátttekendur í einelti skiptast í fjóra hópa. 1. Gerendur 2. Virkilegir áhorfendur  3. Hlutlausir áhorfendur 4. Þolendur.

T.d. getur staðan verið eins og: ef það eru 35 börn í skólabekk nokkrum, eru þar þrír gerendur eineltis, einn þolandi, fimm virkir áhorfendur og 26 hlutlausir áhorfendur.

Virkilegir áhorfendur eru stuðningsmenn við einelti og þeir hvetja gerendur að halda áfram einelti. Hlutlausir áhorfendur eru ekki ,,hlutlausir" í raun. Þeir eru líka að styðja einelti með því að horfa fram hjá því sem gerist fyrir augum sínum. 

Og ef ég skil rétt, er mikil áhersla lögð á að ábyrgð þessara ,,áhorfenda" í Japan eins og: ,,Enginn er ábyrgðarlaus í stöðu þar sem einelti á sér stað". 

Gildir þetta á Íslandi líka?

Mér finnst það vera mjög mikilvægt og nauðsynlegt að allir í þjóðfélaginu (þ.á.m. ég sjálfur) fræðast um mál um einelti, þar sem ,,áhugaleysi" eða ,,vanþekking" telst jú til óbeins stuðnings vi
ð einelti.  

 


Hver er nágranni minn?

Októbermánuður var liðinn. Október er alltaf svolítið annasamur hjá mér, meðal annars vegna þess að börnin mín tvö eiga þá bæði afmæli. Þegar börnin voru lítil, var hver afmælisdagur bókstaflega stór atburður og við foreldrar vorum ekki síður spennt en börnin sjálf.

Nú eru þau búin að ná tvítugsaldri og afmælisdagar þeirra að sjálfsögðu ekki jafnspennandi og þegar þau voru lítil. Samt eru þeir enn gleðilegt tilefni. Sonur minn var t.d. af tilviljun staddur á landsmóti Æ.S.K.Þ. (Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar) á afmælisdaginn sinn og fékk blessun margra unglinga þar. Mér finnst sonur minn vera lánsamur. Slíkt er alls ekki sjálfsagt mál. Og ég er líka lánsamur sem faðir hans.

En það eru ekki allir sem geta notið gleði lífsins á sama hátt.

Einn af hælisleitendum sem ég hef samband við þessa dagana er strákur á sama aldri og sonur minn. Hann flúði heimaland sitt með fjölskyldu sinni þegar hann var sex ára en faðir hans hafði verið myrtur í stríði áður en flótti þeirra hófst.

Nágrannaþjóð tók á móti fjölskyldunni en þar mætti hún aftur ofsóknum og mismunun af landsmönnum þjóðarinnar. Eftir tíu ár, þegar strákurinn varð að táningaur, flúði hann aftur, en aleinn í þetta skiptið.

Strákurinn eyddi fimm árum í að leita að landi þar sem yfirvöld tækju upp hælismál hans. En lönd í Evrópu, sem eru þegar full af hælisleitendum, sýndu máli drengsins engan virkilegan áhuga. Hann kom til Íslands fyrir tveimur árum og hérna var málið hans tekið almennilega til skoðunar í fyrsta skipti.

Eftir tvö ár á Íslandi fékk strákurinn synjun um hælisumsókn sína frá Útlendingastofnun. Málinu hefur verið áfrýjað til ráðuneytisins en víst er að lífi hans er ekki ætlað að verða auðveldu.

Við skulum samt ekki sjá drenginn aðeins sem manneskju með slæm örlög eða vesaling. Ég hef ekki rétt til að dæma það hvort hann sé hamingjusamur eða ekki þrátt fyrir lífsreynslu hans. Hann er með eigin persónuleika og á að eiga möguleika í framtíðinni sinni eins og sérhvert ungmenni í samfélagi.

Engu að síður er það staðreynd að lífsaðstæður drengsins hafa verið allt aðrar en þær sem við eigum að venjast í okkar samfélagi. Ég tel að það sé mikilvægt að við séum meðvituð um það að það eru ekki allir sem lifa í sama umhverfi og við.

Þessi smávitund verður að hjálpa okkur að verða ekki skilningarsljó á ýmsa hluti sem við njótum daglega og tökum næstum því sem sjálfsagða. Og jafnframt mun smávitundin vonandi vekja spurningu inni í okkur sjálfum um hvers konar nágrannar við eigum að vera hverjir við aðra í heiminum.

Við getum látið erfiðleika annarra vera þeirra eigin. En stundum finnst okkur við einnig geta reynt að taka á okkur hluta af byrði nágranna okkar. Ef til vill sveiflumst við oft á milli þessara tveggja viðhorfa.

Samt hvílir spurningin yfir höfðum okkar:„Hver er nágranni minn?" ,,Hvers konar nágranni er ég?" Er það ástæðulaus yrðing mín ef ég segi að spurningin skipti okkur miklu máli núna í samfélaginu?

  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband