29.3.2008 | 11:25
Gegn glæpum... eða útlendingum?
Þegar fólk af erlendum uppruna fremur afbrot á Íslandi virðist sem það sé nær undantekningarlaust greint frá uppruna afbrotamannanna í fréttum. Nýlegt dæmi er frá páskahelginni þegar nokkrir Pólverjar réðust á samlanda sína í Breiðholtinu.
Þegar slík tilfelli eiga sér stað þar sem útlendingur er hlutaðeigandi í sakamáli heyrast sterkar raddir í þjóðfélaginu eins og ,,nú er nóg, við skulum loka Íslandi fyrir útlendingum eða ,, sjáið hvað er að gerast hérlendis, að vera á móti útlendingum er sjálfsagt viðhorf en alls ekki fordómafullt. Mér sýnist að umræðan sem skapast um glæpi sem framdir eru af útlendingum leiði til enn frekari neikvæðs viðhorfs í garð útlendinga eða innflytjanda almennt. Enn á slíkt rétt á sér?
Fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi á árinu 2007 var um 21.500 og hafði sú tala næstum tvöfaldast frá árinu 2006. Fjöldi Pólverja (sem eru ekki búnir að öðlast íslenskan ríkisborgararétt) er núna rúmlega 8.000 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. 72% af þessum útlendingum eru frá EES löndum sem geta ferðast frjálsir innan EES landanna.Ég held að það sé kannski tölfræðilega eðlilegt að glæpum fjölgi eftir því sem fólksfjöldi í landinu eykst.
Við viljum og eigum ekki að sætta okkur við aukna glæpatíðni en hins vegar verður umræðan að snúast um kjarna málsins. Það skiptir engu máli hvort það er Íslendingur eða útlendingur sem fremur glæp, heldur snýst málið um afbrotið fyrst og fremst. Við heyrum nær daglega í fréttum af slagsmálum, eiturlyfjaneyslu eða kynferðislegu ofbeldi, glæpum sem framdir eru af Íslendingum.
En hugsum við þá að allir Íslendingar séu að selja eiturlyf eða að allir Íslendingar séu ofbeldismenn? Auðvitað ekki, af því að lang flestir Íslendingar eru ekki slíkir. Af hverju byrja þá margir að saka ,,alla innflytjendur um afbrot þegar fréttir berast af útlendingum sem staðnir eru að refsiverðu athæfi. Er slíkt viðhorf rökstutt?
Ef maður aðhyllist þá skoðun án þess að hugsa sig vel um, þá er hugsunin farin villu vega. Ef maður heldur meðvitað fram slíku viðhorfi þrátt fyrir skort á rökstuðningi, þá er maður fordómafullur gagnvart útlendingum. Og ef maður heldur áfram í þeirri villu eða fordómafullu leið, getur maður ekki lagt neitt til átaks gegn glæpum og glæpamönnum, þar sem skotmarkið er rangt frá upphafi.
Átak gegn glæpum og glæpamönnum er bæði nauðsynlegt og mikilvægt. En það er alls ekki sama og átak gegn útlendingum og innflytjendum. Við verðum að halda í þá staðreynd og megum ekki missa sjónar af því sem málið snýst um.
- birtist í 24 stundum 29.mars -
20.3.2008 | 10:31
Nágranni
Flest þekkjum við dæmisöguna um miskunnsama Samverjann nokkuð vel. Þetta er dæmisaga sem Jesús notaði til þess að kenna okkur hver sé náungi okkar, en stundum sýnist mér að sagan sé misskilin þannig að við höldum að Jesús sé að segja að við skulum veita fólki í erfiðleikum hjálparhönd. Sönn áminning dæmisögunnar er hins vegar þessi: ,,Þegar við skilgreinum nágranna okkar á einhvern hátt t.d. eftir stéttaskiptingu í samfélaginu, þjóðerni eða siðvenju, þá föllum við í fordóma og mismunun, þar sem skilgreining um nágranna okkar er sjálfkrafa skilgreining um það hverjir séu ekki nágrannar okkar. Því við eigum að vera nágrannar sjálf fremur en að velja okkur nágranna.
Fordómar og mismunun, hvort sem um er að ræða kynþáttamisrétti eða annars konar mismunun, fylgir röksemd sem stendur á rangri forsendu eða illum huga. Gallupkönnun á Íslandi fyrir nokkrum árum sýndi að töluverður hópur í þjóðfélaginu vill ekki hafa múslima og geðsjúklinga í nágrenni sínum og einnig sjást fjölmörg dæmi um neikvæða umfjöllun um múslima eða útlendinga í fjölmiðlum og í netheimi. Hver sem ástæðan er sem liggur að baki þess viðhorfs, má segja að slíkt er einmitt tilraun til þess að skilgreina það ,,hverjir eru nágrannar okkar og hverjir ekki eða hitt að menn vilja ,,velja nágranna sína.
Ég ætla ekki að neita því að það gerist stundum í lífi okkar að við mætum einstaklingi með sérstök vandamál, eins og neyslu eiturlyfja eða ofbeldisfulla framkomu, og við viljum því ekki eiga í miklum samskiptum við hann. En það er stór munur milli þessa tveggja, annars vegar að bregðast við áþreifanlegum vandamálum sem eru til staðar í raun og hins vegar að alhæfa svo um hóp manna í þjóðfélaginu að við afþökkum öll samskipti við einstaklinga úr þeim hópi. Síðar nefnda eru bókstaflegir fordómar sem ekki er hægt að fela undir forsendum forvarna. Forvarnarstarf leiðir okkur í meira öryggi og uppbyggingu betra samfélags, en fordómar skapa aðeins hatur meðal manna og aukið misrétti.
Fordómar og mismunun eru oftast hugsuð frá sjónarhorni þolenda þeirra. En í þessari smágrein langar mig líka að benda á hina hlið málsins, sem er það að ef haldið er fast í fordóma og mismunun þá skaðar það mannkosti þess sem ber slíkt með sér. Ef maður lætur fordóma sína vera, munu þeir stjórna manni algjörlega með tímanum og búa til sjálfsréttlæti og sjálfsánægju, eins og fræðimennirnir eða farísearnir sem Jesús gagnrýnir oft í Biblíunni. Að lifa í sjálfsréttlæti og sjálfsánægju er langt frá hinu eftirsóknarverða lífi kristinna manna og þeirra sem virða dýrmæti mannlífsins.
Nú stendur yfir átak sem er Evrópuvika gegn kynþáttafordómum og misrétti og lýkur henni þann 23. mars, á páskadegi. Ég óska að sérhvert okkar hugsi um eigin fordóma og meti mikilvægi þess að verða nágranni þeirra sem búa í sama samfélagi.
-Birtist í Fréttablaði 20. mars-
18.3.2008 | 10:07
Unglingar mótmæla kynþáttafordómum og fræða okkur!
Í dag, þriðjudaginn 18.mars, Kl. 16 munu Hara-systur og Smáralind taka höndum saman við eftirfarandi samtök og standa að viðburði í Smáralind gegn kynþáttamisrétti. Hara-systur troða upp og ungt fólk býður upp á fjölmenningarsspjall, sælgæti, boli með lógó og barmmerki.
Unglingar mála sig á skemmtilegan hátt og dreifa gestum fræðsluefni!!
Tilefnið er Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti sem hófst 15. mars sl. og hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti, 21. mars.
Til að vinna gegn misrétti og fordómum í garð fólks af erlendum uppruna á Íslandi taka eftirfarandi samtök þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti með ýmsum hætti.
Mannréttindaskrifstofa Íslands, Þjóðkirkjan (m.a. ÆSKÞ, ÆSKR, miðborgarprestur og prestur innflytjenda), Rauði krossinn (m.a. URKÍ og URKÍR), Ísland Panorama, Soka Gakkai, Alþjóðahús, Amnesty International Íslandi og Samtök Rætur í Ísafirði.
Allir hjartanlega velkomnir!!
16.3.2008 | 13:46
Eyðum kynþáttafordómum áður en þeim vex fiskur um hrygg!
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti stendur frá og með 15. mars til 23. páskadagsins. Hér á Íslandi verður sérstök uppákoma gegn rasisma haldin þann 18. mars í Reykjavík, Ísafirði og á Akureyri. Þarna munu margir unglingar frá ýmsum samtökum koma saman til þess að mótmæla kynþáttafordómum. Í tilefni þess langar mig aðeins að hugleiða hvernig við berjumst við fordóma í daglegu lífi okkar.
Finna má margs konar fordóma í samfélaginu. Kynþáttafordómar eru aðeins ein tegund fordóma en það er erfitt að draga upp skýra mynd af því hverjir eru helst haldnir fordómum og hverjir verða aðallega fyrir þeim. Stundum er manneskja sem er afar víðsýn á einu sviði fordómafull á öðru og þolandi ákveðinna fordóma ber sjálfur fordóma í brjósti gagnvart öðrum hópi en hann tilheyrir sjálfur. Þetta hef ég sjálfur séð nokkrum sinnum, t.d. er eitt dæmið um mann af afrískum uppruna sem hafði flúið kynþáttafordóma í heimalandi sínu en reyndist afar fordómafullur gagnvart samkynhneigðu fólki annað er fyrirmyndarprestur sem síðan er að mörgu leiti mjög fordómafullur gagnvart konum og kvenfrelsi.
Í raun má segja að ekkert okkar sé algerlega fordómalaust; við höfum öll fordóma sem við verðum að reyna að uppræta. Fordómar eru því alls ekki mál ákveðins hóps í samfélaginu, heldur eru þeir mál okkar allra, hvers og eins. Við verðum að líta í eigin barm, greina fordómana og losa okkur við þá og stuðla að því að fólkið í kringum okkur geri það líka.
Ég hef oft tækifæri til að tala og skrifa um kynþáttafordóma eða fordóma gagnvart útlendingum á Íslandi. Og ég hef fengið sérkennileg viðbrögð frá nokkrum Íslendingum. Þeir eru í afneitun og vilja ekki viðurkenna fordóma gagnvart útlendingum á Íslandi og segja til dæmis: ,,Það sem hann bendir á er ekki fordómar heldur bara hefðbundin sterk hegðun Íslendinga, ,,Ísland er fordómaminnsta þjóð í heimi eða ,, Það eru meiri fordómar í Japan .
Þegar við bæði útlendingar og Íslendingar sem eru á móti kynþáttafordómum - tölum um fordóma á Íslandi, tölum við um raunverleika sem við mætum í daglegu lífi okkar í þeirri von að flestir Íslendingar vilja kynnast málinu og breyta því. Við erum ekki að skapa samkeppni um fordómaleysi meðal þjóðanna. Engu að síður hefur mér stundum fundist það vera talin ófyrirleitni gagnvart íslensku þjóðinni, í augum sumra Íslendinga, að benda á fordóma og mismunun á Íslandi. Slík afneitun kann ekki góðri lukku að stýra.
Ég held að fordómar séu eins og tölvuvírusar. Fordómavírus er nærri okkur í daglegu lífi og reynir í sífellu að hafa áhrif á hugsanir okkar. Því við þurfum að virkja vírusvörnina reglulega. Þetta er dagleg barátta gegn fordómum. Því miður brjótast kynþáttafordómar stundum út í ofbeldi, eins og árás á innflytjanda í miðbæ Reykjavíkur um daginn ber sorglegt vitni. Sem betur fer eru hatursglæpir sjaldgæfir á Íslandi en við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að atburðir af þessu tagi endurtaki sig.
Til þess er nauðsynlegt að losna við fordómavírusinn áður en honum tekst að taka yfir kerfið og skemma harða diskinn. Hatursglæpir eru aðeins framdir þar sem fordómavírusinn fær að leika lausum hala; þar sem samfélagið er lætur fordómafull viðhorf sér í léttu rúmi liggja skapast grundvöllur fyrir fordóma sem brjótast út í ofbeldi.
Mig langar til að benda á fordómavírusinn hefur náð einhverri fótfestu hjá fjölmiðlum. Umfjöllun sem gengur út á æsifréttir með fyrirsögnum eins og ,,Fæestir útlendingar gifta sig til að fá dvalarleyfi eða ,,útlendingar flytja inn glæpi veitir samfélaginu ranga sýn og lætur í veðri vaka að ekki sé um fordóma að ræða heldur staðreyndir. En fréttirnar af þessum toga snúast um grófar alhæfingar í stað ígrundaðra frétta sem vinna á af fagmennsku. Nokkrir stjórnmálamenn virðast einnig vilja notfæra sér umfjöllun af þessu tagi í atkvæðaveiðum og til að skapa yfirborðssamstöðu meðal Íslendinga. Þeim væri hollara að velta því fyrir sér hvort það séu raunverulegir hagsmunir Íslendinga - hagsmunir komandi kynslóða - að byggja upp samfélagssýn sem grundvallast á fordómum og misrétti.
Að lokum langar mig til að endurtaka aðalatriðið: við erum öll með fordóma!. Það er brýnt að við horfumst öll í augu við þá staðreynd og gerum allt sem við getum til að eyða fordómavírusnum hjá okkur sjálfum svo hann fái ekki tækifæri til að dreifa sér og vinni samfélaginu óbætanlegan skaða.
(Birtist í Mbl. 15. mars 2008)
15.3.2008 | 10:54
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti 15. - 23. mars 2008
Í dag, 15. mars, hefst Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti sem hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti, 21. mars. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi daginn í minningu 69 mótmælenda myrtir voru 21. mars 1960 er þeir mótmæltu aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku. Evrópuvikan miðar að því að uppræta mismunun, fordóma og þjóðernishyggju í álfunni og stuðla þannig að umburðarlyndu Evrópusamfélagi þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna.
Birtingarmyndir kynþáttamisréttis eru ólíkar eftir löndum og menningarsvæðum en kynþáttamisrétti nær yfir vítt svið - allt frá fordómum til ofbeldisverka. Kynþáttamisrétti á Íslandi birtist helst í útlendingafælni og duldum fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna en hefur því miður nýlega einnig brotist út í ofbeldi. Fordómarnir birtast einkum í hversdagslífinu - þegar talað er niður til þeirra sem ekki eru skilgreindir sem ,,hreinir Íslendingar og þeir fá lakari þjónustu og atvinnu.
Á síðustu mánuðum hafa málefni innflytjenda verið ofarlega á baugi og það er áhyggjuefni hversu mjög hefur borið á fordómum og útlendingafælni í umræðunni. Í árslok 2007 voru erlendir ríkisborgarar 6,8% af heildarmannfjölda á Íslandi; það er staðreynd að íslenskt samfélag er fjölmenningarlegt og því verður ekki breytt.
Til að vinna gegn misrétti og fordómum í garð fólks af erlendum uppruna á Íslandi taka Mannréttindaskrifstofa Íslands, Þjóðkirkjan, Alþjóðahús, Amnesty International, Rauði krossinn, Ísland Panorama og Soka Gakkai Íslandi þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti með ýmsum hætti.
Þriðjudaginn 18.mars, Kl. 16 munu Hara-systur og Smáralind taka höndum saman við ofangreind samtök og standa að viðburði í Smáralind gegn kynþáttamisrétti. Hara-systur troða upp og ungt fólk býður upp á fjölmenningarsspjall, sælgæti og barmmerki.
Allir hjartanlega velkomnir.
- Fréttatilkynning frá stýrahóp verkefnisins -