9.6.2007 | 15:34
Myndir af útlendingum - prósakvæði -
Sjáðu myndir af þessu fólki, verkafólki.
Þetta eru allt útlendingar
komnir úr fjarlægð mikilli,
ég meina fjarlægðina á vegalengd, tungumálum og menningu,
til að starfa hérlendis.
Þeir fara í vinnu í myrkri á morgunanna
klára verk dagsins í kvölddimmu,
eða í endalausri birtu á sumrin.
Þótt í roki og kraparigningu, halda þeir enn áfram
og sjaldnast fá að borða heitan mat á milli, æ æ.
Sjáðu, þeir klæðast allir vinnugalla
og með hjálma á hverju höfði.
Þeir líta út fyrir að vera eins,
andlitin þeirra sjást ekki,
raddirnar heyrast ekki.
Taktu aðra mynd af þessu fólki, skemmtilegu fólki.
Þetta eru líka útlendingar
sem eru að fagna þjóðahátíð,
ég meina þjóðahátíð, ekki þjóðarhátíð,
þjóða í fleirtölu, eignafalli.
Þeim finnst gaman að tala á hikandi íslensku,
bjóða gestum að smakka framandi mat.
Þeir eru hrifnir af að syngja þjóðarlög sín og dansa.
Gott að vera stoltur af uppruna sínum,
gleðilegt að vera gefandi og sýna gestrisni.
Sjáðu, þeir klæðast allir þjóðarbúningum sínum
í marglitum og fjölbreyttum.
Enginn er eins en allir fallegir,
andlitin glitrandi,
raddirnar gleðjast hátt.
Þar eru nokkrar myndir eftir, svipmyndir af fólki,
hér klæðist það.... fötum.
Mynd á spitala, og maður lítur út fyrir að vera þungur,
hann hlýtur að glíma við sjúkdóm sinn.
Kona í bænarhúsi virðist vera einmana,
hún er nýskilin eða missti maka sinn.
En barn er ekki hamingjusamt? jú, þetta er í afmælisboði.
Ungt par, himinlifandi..... ástin!
Gamall maður í góðu skapi, eldri kona er feimin.
Reiður unglingur og grátandi stelpa.
Alvarlegt andlit og hugsandi, dapur á svipum og vonsvikinn.
Hlýr í augum og einlægur, ósvífinn á munnum og egnandi.
Andlit, andlit og andlit...
Stundum er maður brosandi,
kona er brosandi,
og barn er brosandi
...brosandi
eins og hann hafi himinn höndum tekið,
eins og hún hafi þekkt leyndarmál lífsins,
eins og það horfir upp á draumalandið,
brosa þau, og brosa.
Myndirnar eru brosandi!
Bíddu aðeins, afsakaðu.
Eru þetta líka myndir af útlendingum í alvöru?
Veit það ekki, satt að segja.
Þetta er bara fólk.
- Samið og flutt í tilefni af þjóðahátíð 2007 í Hafnarfirði -
8.6.2007 | 22:05
Pokaprestur
Einu sinni kallaði þekktur heimspekingur mig ,,japanskan pokaprest" á opinberum vettvangi. Ef til vill langaði hann til að njóta yfirburða sinna með því að gera lítið úr mér. Honum tókst það hins vegar ekki alveg þar sem ég þekkti einfaldlega ekki orðið ,,pokaprestur".
Daginn eftir hitti ég prest sem var góður íslenskumaður og hann sagði mér að ,,pokaprestur" væri niðurlægjandi orð fyrir presta.
Ég var forvitinn og langaði að komast að þv hvers vegna merking orðsins væri niðurlægjandi. Í ,,Mergi málsins"(Jón G. Friðjónsson prófessor, Örn og Örlygur 1993) finnst orðið ,,pokaprestur"ekki, en þar eru þó tvær vísbendingar sem eru hugsanlega tengjast uppruna orðsins. Fyrri vísbendingin er orðasambandið ,,að setja prest í poka" en það þýðir að "fella dóm fyrir einhverjum". Í gamla daga ,,var mönnum stungið í poka og pokanum síðan fleygt í hyl. Þannig var Jóni biskup Gerrekssyni drekkt í Brúará (1443)" (Mergur málsins bls. 485).
Önnur vísbending er orðasambandið ,,að taka pokann sinn" og það þýðir að ,, (neyðast til) að hætta störfum". Um það segir nánar: ,,Sjómaður hættir störfum á skipi, þ.e. tekur sjópokann sinn og fer í land." (MM. bls 486).
Ég spurði einnig nokkra samstarfsfélaga mína um uppruna orðsins ,,pokaprestur". Flest svörin sem ég fékk voru þau að pokaprestur er prestur sem ferðast alltaf með pokann sinn þar sem hann á ekki fastan predikunarstól.
Eftir þessa litlu rannsókn mína mótaðist ákveðin mynd af pokapresti í huga mínum. Hún er þó alls ekki neikvæð, heldur frekar jákvæð og jafnvel rómantísk. Pokaprestur er prestur sem ferðast sífellt með pokann sinn án þess að eiga fasta stöðu í stórri kirkju eða samfélagsvald. Hann helgar sig alfarið köllun sinni frá Guði og þjónar fólki sem er líklegast í samsvarandi stöðu og hann sjálfur í samfélaginu. Þessi mynd sem dregin er upp af pokapresti er e.t.v. lítils virði samkvæmt gildismati nútímans en hvað um í trúarlegt gildismat? Er ekki einhver sem við þekkjum sem rímar einmitt við þssas mynd af pokapresti? Jú, það er einmitt Jesús í Guðspjöllunum.
Í flestum löndum í Evrópu þróaðist kirkja Jesú Krists með margvíslegum hætti. Sumar kirkjur eru nú stórar stofnanir í evrópsku samfélagi og leiðtogar þeirra geta jafnvel haft áhrif á pólitísk mál eins og stjórnmálaflokkar. Miðstjórn hverrar kirkju er eins og ráðuneyti og hún
þarf að fjalla um lagafrumvörp og margvísleg stjórnsýsluleg mál. Mér
skilst að það að bera ábyrgð á öllum þessum málum sé erfitt og alvarlegt starf. Mér sýnist oft lítið rými vera fyrir pokaprestinn í nútímakirkjukerfi.
Ég virði þá starfsemi sem öndvegis prestar og miðstjórn kirkjunnar sinna.
Ég játa að ég sjálfur hef hvorki áhuga né hæfni til að vinna að svona málum. Hins vegar lít ég heldur ekki svo á að trúarlegur virðuleiki felist einungis í stjórnsýslulegri starfsemi kirkjunnar. Andi pokaprestsins er jú nauðsynlegur einmitt þegar um nútímaleg kirkjuvaldakerfi er að ræða. Í Guðspjöllunum er skrifað vel um stór samfélagskerfi og samfélagsvöld sem týndu trúarlegum anda pokaprestsins. Þegar fólk ber mikla ábyrgð á stjórnsýslulegum málum á það skilið hrós og umhyggju. En ef fólk heldur að starf á þessum sviðum hafi dýpra trúarlegt gildi en annað þá hefur það fallið í freistni og dramb.
Virðuleiki prestsembættis felst ekki í framgangi í starfi innan ákveðins valdapýramída, hvort sem það er kirkjunnar eða samfélagsins. Hann felst ekki heldur persónuleika sérhvers prests né er geymdum í veraldlegum eigum hans. Virðuleiki kemur frá trúarlegum ,,anda" prestins. Andinn er frjáls frá öllum veraldlegum skuldbindingum og því getur hann móttekið hinn heilaga.
Fyrir mig er ,,pokaprestur" ekki lengur niðrandi orð. Það er miklu fremur heiðursheiti. Prestur á að vera pokaprestur í anda sínum. Mér mun hér eftir þykja vænt um það ef einhver kallar mig pokaprest í þessari merkingu, þó að ég viti ég eigi það ekki skilið.