15.3.2009 | 14:24
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétt hefst
21. mars er alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi þessa dagsetningu í minningu 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars 1960 er þeir tóku þátt í mótmælum gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku.
Í tengslum við 21.mars er haldin Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti og hún miðar að því að uppræta þröngsýni, fordóma og þjóðernishyggju í Evrópu. Markmiðið er að byggja Evrópusamfélag víðsýni og samkenndar þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna. Frá 14-22. mars munu hundruð samtaka og stofnana í Evrópu standa að viðburðum þar sem unnið er gegn kynþáttamisrétti.
Atburðir haldnir 19. mars
Á Íslandi mun fjöldi samtaka og stofnana standa að ýmsum viðburðum í tengslum við Evrópuvikuna s.s. Mannréttindaskrifstofa Íslands, Þjóðkirkjan, Rauði krossinn, Fjölmenningarsetur í vestfjörðum, SGI búddistafélag ásamt KFUM, KFUK og Hjálpræðihernum á norðurlandi.
Þann 19. mars munu ofangreindar stofnanir og samtök halda sameiginlega atburði á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, á Ísafirði og í Reykjanesbæ.
Höfuðborgarsvæði:
Atburðurinn verður haldinn í Smáralind (1. h.)og þá safnast unglingar frá ýmsum samtökum safnast saman kl. 16:00 og dreifa gangandi gestum fræðsluefni um kynþáttamisrétti. Síðan verða mörg skemmtunaratriði í boði eins og t.d. danskennsla eða fjölmenningar-twister leikur milli kl.17:00 -18:00.
Akureyri:
Unglingar mætast k.16.30 í Glerártorgi og kynna fræðsluefni gegn mismunun fyrir vegfarendum á Glerártorgi ásamt því að sýna dans- og tónlistaratriði.
Ísafirði:
Unglingar munu safnast saman í verslunarmiðstöðinni Neista kl. 16:30 -18:00 og spjalla við vegfarendur um fordóma og mismunun.
Reykanesbæ:
Nánara verður tilkynt síðar.
Kynþáttahatur og fordómar á Íslandi?
Birtingarmyndir kynþáttahaturs eru ólíkar eftir löndum og menningarsvæðum en kynþáttahatur nær yfir vítt svið - allt frá fordómum til ofbeldisverka. Hingað til hefur kynþáttahatur á Íslandi birst helst í útlendingafælni og duldum fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna. Fordómarnir birtast einkum í hversdagslífinu - þegar talað er niður til þeirra sem ekki eru skilgreindir sem ,,hreinir Íslendingar.
En eftir bankahrunið sl. október eru þeir því miður margir sem bera því vitni að beinir fordómar gegn fólki af erlendum uppruna hafa aukist, þ.e.a.s. að kastað er að fólki ljótum orðum og það gert af skotmarki, e.t.v. vegna þeirrar reiði sem býr í fólki vegna ástandsins í landinu. Slíkt má ekki eiga sér stað í þjóðfélagi okkar og að sjálfsögðu verður því harkalega mótmælt.
En við megum ekki gleyma því að berjast einnig við dulda fordóma sem gætu jafnvel falist í okkur sjálfum.
Ungmennin eru í aðalhlutverki í viðburðunum þann 19. mars en tilgangur dagsins, ásamt boðskapi Evrópuvikunnar, á erindi við alla í þjóðfélaginu.