Rasismi er þversögn

1.
,,Rasismi" er mjög óskýrt hugtak og fullyrðing rasista er því einnig órökstudd og ótraust. Rasismi merkir fyrst og fremst neikvætt álit og/eða andúð gagnvart öðrum kynþætti en sínum eigin. Ef manneskja vill trúa því að hvítir menn (caucasoid) séu meira virði sem manneskjur en fólk með litaða húð (t.d. negroid eða mongoloid), er hún með kynþáttafordóma. Að því leyti byggist rasismi á hugsjón um að einn kynstofn sé æðri en aðrir kynstofnar mannkynsins.

Í öðru lagi vísar orðið„rasismi" til þess þegar manneskjur mismunar fólki sem tilheyra öðru þjóðarbroti en fellur að þess eigin menningarheimi.„Gyðingahatur" er t.d. ekki mismunun vegna kynþáttar heldur vegna þjóðarbrots (ethnicity) og menningar þess, þar sem„gyðingur" er ekki hugtak um kynstofn.
,,Rasismi" felur þannig í sér tvo kjarna, annað er hugsjónin um kynstofn og hitt er um þjóðarbrot og menningarheim þess. Fólk talar oft um„rasisma" án þess að vera meðvitað um þetta.

Við mannkynið erum aðeins ein tegund þ.e.a.s.„homo sapiens" eins og við vitum vel. Kynstofn er eins konar undirtegund homo sapiens. Slík undirtegund getur verið mikilvægt hugtak og áhugavert á sérstökum sviðum eins og í félagsvísindum eða mannfræði. En þegar„Kort yfir genamengi mannsins" var kynnt fyrir tíu árum, sagði Eric Lander sem hafði umsjón með verkefninu hjá Whitehead Institute :„Genamengi allra manna á jörðinni er 99,9 prósent alveg eins. Munur meðal kynstofna eða þjóðarbrota eru ekki annað en yfirborðslegir". Margir aðrir í sama verkefninu fullyrtu þetta:„Kynstofn er ekki náttúruvísindalegt hugtak"(þó að það séu til vísindamenn sem krefjast að fjalla um kynstofn í vísindum, til dæmis til þess að skoða nánar hinn 0.1% mun í genamengi mannsins). Þetta sýnir að það er ekkert sem rasistar hafa í hendi til þess að rökstyðja að ákveðinn kynstofn sé meira virði en aðrir.

2.
Umfjöllun um rasisma eða ummæli rasista sem sjást og heyrast af og til í samfélagi okkar. Sem betur fer eru ofsalegir rasistar örfáir hérlendis og við skulum notfæra okkur þá staðreynd og tækifæri til þess að byggja upp kynþáttafordómalaust samfélag. Þegar ég skoðaði það sem var sagt af fólki sem hafði rasistahugmyndir nýlega, tók ég eftir því að það átti eitt sameiginlegt: Það var á móti fjölmenningu. Í stuttu máli halda þeir að það gangi ekki að í einu samfélagi rúmist margs konar menning. Að því leyti beina rasistar sjónum sínum að þjóðarbrotum og framandi menningarheimum en ekki ákveðnum kynstofnum. Það er síðarnefndi kjarninn sem getið er í upphafi þessa pistils.

En hver er ástæðan fyrir því að þeir hugsa neikvætt um fjölmenningu? Eftir því sem ég best fæ skilið er engin áþreifanleg ástæða til. Það sem þeir eiga sameiginlegt eru hugmyndir eins og „fjölmenning hefur slæm áhrif á okkar ekta menningu",„öll önnur lönd í Evrópu eru í vandræðum vegna innflytjenda",„innflytjendur ræna af innfæddum vinnu" eða„innflytjendur misnota velferðarkerfi okkar". Rasistar saka sem sagt innflytjendur og fjölmenninguna sem þeim fylgja um vandræði í samfélaginu, hvar sem þeir eru. Ég ætla ekki að andmæla ítarlega hér en stærstu vandræðin hérlendis, sem er bankahrunið og afleiðingar þess, eiga ekki rætur sínar að rekja til innflytjenda eða fjölmenningar. Það er fyrst og fremst Íslendingar sem bera ábyrgðina og voru í ábyrgðarstöðum (þó að innflytjendur hérlendis deili sömu ábyrgð og beri sömu byrðar vegna þess og almenningur almennt).

3.
Rasistar virðast að minnsta kosti hafa aðra sameiginlega hugsjón sem er afleiðinga andúðar gagnvart fjölmenningu. Hún er„Við skulum vera stolt af því að vera hvítir menn!". Mér finnst þetta mjög áhugaverð viðbrögð hjá rasistum. Eins og ég sagði í upphafi, eru skiptast hugmyndir rasista í tvo kjarna. Annað er misskilningur á því hvað felst í kynstofni og hitt er andúð til þjóðarbrota og menningarheims sem þeir hafa ekki skilning á. Andúð þeirra á fjölmenningu er komin frá síðarnefnda kjarnanum en viðbrögðin sem þau vekja leiða til fyrri kjarnans. Að sjálfsögðu eru mörg mismunandi þjóðarbrot til á meðal hvítra manna og ekki síst menningarheimar. Barátta, jafnvel með ofbeldi, á meðal hvítra manna hefur í gegnum tíðina verið stöðug, t.d. í Evrópu. Að mótmæla fjölmenningu annars vegar og boða jafnframt samstöðu hvítra manna er hins vegar ekkert annað en þversögn í sjálfu sér.

Ástæða þess að ég skrifa þennan pistil er sú að mig langar að fólk á Íslandi, sérstaklega ungt fólk, haldi áfram á réttri braut og haldi áfram að berjast gegn rasisma. Eins og fyrr segir þá er enn ekki mikill kraftur í rasistum hér á landi. Við þurfum ekki að óttast rasisma, en við verðum að vera vakandi fyrir því að slíkar órökstuddar og óhugnanlegar hugmyndir læðist ekki inn í okkar samfélag. Hvert eitt og einasta samfélag glímir við einhver vandræði. En það leysir ekki vandann að saka saklaust fólk um þau. Við leysum þau með því að axla ábyrgð á okkur sjálfum og þeim verkefnum sem við tökumst á við og að því vinnum við saman innflytjendur og innfæddir.

 

- Fyrst birt í Mbl. 10. febrúar 2011 - 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband