Rasisti! Ekki ég! Er það?


Ungt fólk úr æskulýðsfélögum kirkjunnar hitti jafnaldra sína úr öðrum áttum í Salaskóla síðastliðna helgi til þess að undirbúa Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti, sem er árviss viðburður.

„Þarna mættust unglingar sem komu úr ýmsum áttum, tóku þátt í trúðasmiðju, mannréttindasmiðju, leiklistarsmiðju og undirbjuggu kynningu á vikunni. Þetta heppnaðist mjög vel, opnaði huga þeirra fyrir hvað er hægt að gera og hvað við ætlum að gera," sagði Guðjón Andri Reynisson, æskulýðsleiðtogi í Neskirkju. „Á fimmtudaginn verðum við í Smáralind og vekjum athygli á þessu. Við viljum koma því á framfæri að fordómar eiga ekki að vera til staðar. Við viljum afhjúpa hvaðan þeir koma, innflytjendur verða fyrir fordómum og börn þeirra fyrir einelti í skólum."

Næstkomandi fimmtudag verða einnig atburðir á Glerártorgi á Akureyri og á Akranesi. Sunna Dóra Möller segur að unglingar úr æskulýðsfélögum kirkjunnar verði með uppákomu á Glerártorgi, sem og Adrenalín hópur og Breytendur á Akureyri til að vekja athygli á þessu mikilvæga máli.

Þema Evrópuvikunnar í ár er „Rasisti! Ekki ég! Er það?" og miðar að því að taka á duldum fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna. Slíkir fordómar birtast einkum í hversdagslífinu og oft í setningum eins og þeirri sem birtist hér að ofan, setningum sem byrja sakleysislega en enda á orðum sem koma upp um fordóma. Í ár er lögð sérstök áhersla á að hvetja fólk til að líta í eigin barm og spyrja sjálft sig, á þetta við mig og ef svo er - hversvegna, og hvernig get ég gert betur?

Evrópuvika gegn kynþáttafordómum er árlegt samstarfsverkefni sem Mannréttindaskrifstofa Íslands heldur utan um, og samstarfsaðilar í ár eru Þjóðkirkjan, Rauði kross Íslands, ÍTR og Alþjóðatorg ungmenna.


- Eftir Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur; á kirkjan.is -

 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband