Að lifa á íslensku


- Persónuleg upplifun –

Ég fór til baka til heimaborgar minnar, Tókyó, í frí með dóttur minni. Við vorum þarna í tæpar þrjár vikur. Í hvert skipti sem ég er kominn til Japans, tek ég eftir því að hvernig auðvelt að “vera” í umhverfi þar sem ég þarf ekki að hugsa um tungumál. Ég hugsa ekki um málfræði á Japönsku og ég þarf ekki að pæla setningu eins og : “hvernig á ég að segja þetta...??”. Ég þarf ekki að einbeita mér til að skilja hvað segir maður í sjónvarpsþætti. Allt kemur í heilann minn að sjálfkrafa. Ég þarf ekki að hika við út af tungumálinu þegar ég panta mat, kaupa vörur eða spyrja spurningar. Stelpan mín talar góða japönsku, svo þurfti ég ekki raunar að nota íslenskuna á meðan ég var í Japan.

Um daginn var málþing haldið í Alþjóðahúsi. Mál sem vörðuðu íslenskunám fyrir innflytjendur á Íslandi voru fjölluð um þar. Það var mjög vel sótt í málþinginu og margir tjáðu sig í umræðum. Eins og í flestum tilfellum var tíminn liðinn allt á meðan ég var að hugsa “hvernig get ég sagt þetta á íslensku..??” og ég gat talað bara lítið.
Crying
Umræða í málþinginu var góð, en eðlilegt var þar talað yfirleitt um “hvernig á íslenskunám að vera” frá sjónarmið Íslendinga. Það er mikilvægt mál að sjálfsögðu, en mér finnst jafnframt þýðingarmikið og hjálpsamlegt að eyða smá tíma til að dýpka skilning sinn á því hvernig lifir innflytjandi á íslenskt tungumál hérlendis.

Ég er búinn að vera á Íslandi nú þegar lengri en 15 ár. Þar sem ég ætti tvö smá börn í heimili í upphafsár á Íslandi, fannst mér erfitt að fara í námskeið um íslensku. Svo lærði ég aðallega sjálfur heima. Ég hafði lært þýsku áður og það hjálpaði mér að skilja íslenska málfræði á nokkurn veginn. Ég átti sterka ósk um að komast í prestsvinnu sem fyrst, svo ákvað ég að læra íslesnku sem var tengd við kirkjumál fyrst og fremst. (Ég bjó til “Toshiki’s - Icelandic learning method” sjálfur, sem mér finnst flott! En ég hef ekki fengið neitt tækifæri til að kynna það ennþá
Angry )

Enginn mæti trúa því, en ég las íslenskuna mjög mikið í fyrstu ár. “Toshiki´s learning method” var gott. En satt að segja var það með galla líka. T.d. get ég lesið núna lagafrumvarp nokkurt án rosalegs erfiðaleika. Aftur á móti þekki ég ekki heiti fiska, grænmeti eða fugla. Ég get samið predikun en ég þori ekki að panta pizzu í síma (sem sýnist mér mjög flókið mál!!).

Einnig get ég skrifað á íslensku frekar vel. Mig langar til að koma fram samt að í hvert skipti þegar ég skrifa í blað, þá veita vinir mínir mér aðstoð í yfirlestri og leiðréttingu á íslesnku. Ég er mjög þakklátur fyrir aðstoð þeirra og hlýja vináttu, sem er alls ekki sjálfsagt mál. En hér í blogginu mínu, skrifa ég sjálfur og enginn les yfir texta. Þetta er alltaf dálítið ævintýri fyrir mig. En sem sé, íslenskan sem þú ert að lesa núna er það sem ég get gert á íslesnku án aðstoðar annars manns. (Hvað finnst ykkur??)

Í samanburði við ritmál, er ég algjört lélegur í að tala á íslensku og skilja með eyrum. Mér finnst ekki mjög erfitt að skilja fyrirlestur um mannréttindi (því að ég veit um hvað er ræðan ), en afar erfitt að fylgjast með kaffispjall (því að ég get ekki giskað á hvað fólk byrjar að tala næst !!).
Sem sagt, geta (ability) mín á íslensku er ekki jöfn í öllum greinum heldur mjög misjöfn, og einnig skiptir það máli hvort ritað mál er að ræða eða talað mál.

Með öðrum orðum bý ég á Íslandi eins og svona: ég skil EKKI ALLT sem gerist kringum í mig á hverjum degi. Jafnvel þegar ég er að tala við einhvern á götunni, skil ég kannski 80 % af því sem er talað. Með tímanum var ég búinn að tileinka mér tækni til að aðgreina eitthvað mikilvægt í tali frá því sem er ekki. (Hve frábær hæfileiki maður er með!!
Grin ) Því spyr ég ekki alltaf “ha??” þó að ég skilji ekki alveg, ef ég skynja það atriði er ómerkilegt.
Þegar ég vil segja eitthvað flókið, þá þarf ég að undirbúa íslenskan texta í huga mínum og það tekur nokkrar sekúndur. Stundum tapa ég tækifæri til að koma fram skoðun mína á meðan ég er að búa til setningu
Sick . Sérstaklega í umræðum eru Íslendingar yfirleitt svo duglegir í að grípa í og ég verð eðlilega eins og áhorfandi hnefaleiks.
Þó að ég vilji segja eitthvað fyndið stundum, oftast gefst ég upp á leiðinni af því að ég get séð fyrirfram að fólk mun skilja ekki hvað ég á við. Þannig, held ég að ég hljóti að líta út fyrir að vera eins konar þegjandi, óskiljanlegur maður 
Alien fyrir augum fólks kringum í mig, æ, æ.

Til þess að breyta þessum kringumstæðum, verð ég að læra íslensku meira og betur. Það er engin spurning. En samtímis veit ég það að íslenskan mín verður ekki svo góð og ég geti losað við alla vandræði úti af tungumálinu. Ég verð 50 ára eftir eitt og hálft ár (o! Guð!!) og ég get ekki geymt of stóra von á framtíð íslesnkunnar minnar. Ég held að ég þurfi að halda áfram eins og núna meira eða minna í framtíðinni líka.
Ég vil ekki móðga fólk með líkamilega fötlun (ég er með þvagsýrugigt og verð stundum lamaður), en líf mitt á Íslandi er líkt því að vera með fötlun á nokkurn veginn, í því merkingu að geta ekki gert eitthvað eins og “venjulegt” fólk (meirihlutahópur). Ég verð að viðurkenna þessa staðreynd og búa með hana.

Ekki misskilið mig. Ég er ekki að búast við því að fólk vorkenni mér eða öðrum útlendingum. Við lifum á íslensku ef við viljum gera líf okkar þægilegt og skapandi á Íslandi. Það er eðlilegt og nauðsynlegt. Í því er það ég eða aðrir útlendingar sem þarf að leggja fyrirhöfn sína og aðlagast.
En hins vegar finnst mér það vera engin truflun eða vesen fyrir Íslendinga að hlusta á okkur útlendinga sem lifum á íslesnku, eða a.m.k. reynum að lifa á íslesnku, um að í hvers konar umhverfi erum við að lifa lífi okkar. Mér sýnist það auðveldast leið til að ná til gagnkvæms og djúps skilnings meðal manna.
Eða er þetta bara bull hjá mér?? 
Halo  



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Þetta skil ég allt vel. Er alltaf tvöfalt þreyttari ef ég hlusta á fyrirlestur á ensku eða dönsku. Þessi pistill þinn er frábær og ýtir við manni að muna eftir umburðalyndi. Ég þekkti mann sem var danskur (hann er dáinn) hann talaði lýtalausa íslensku, en ég var búin að þekkja hann í mörg ár þegar ég uppgötvaði að hann var auðvitað ekki alin upp í okkar menningu og skildi oft ekki brandara eða mál sem talað var undir rós. En það hefði engin getað fundið út úr því að hann hefði verið útlendingur. Svona er þetta flókið - bakgrunnurinn alveg niður í barnæskuna hefur svo mikið vægi og þess vegna er svo gaman fyrir þig að koma heim. Ég hef þá hugmynd að líklega eru börn betur sett ´með tungumálaframtíð sem alast up við fleiri en eitt tungumál og menningu. Eða hvað?

Takk fyrir þetta innlegg.

Edda Agnarsdóttir, 13.8.2007 kl. 13:37

2 identicon

Mér þykir þessi pistill þinn merkilega vel skrifaður og hef ég meira meira að segja minnst á hann við fólk á förnum vegi.  Ég hef aðeins einu sinni hitt útlending sem talaði óaðfinnanlega Íslensku en hann var Þýskur og hafdi búið í Reykjavík í 12 ár, það þótti mér töluvert afrek.  Nú er ég stödd hinum megin við línuna ólæs á Kanji og talandi vægast sagt á ókurteisu barnamáli, jú það er ekki alltaf auðvelt.   En þegar einhver nennir að útskýra matseðil eða staldrar við til að lesa á skilti og sýnir manni skilning og þolimæði getur það gjörsamlega bjargað deginum

Hrund (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 14:12

3 identicon

Algjörlega sammála þessu öll, og vel skrifaður pistill.

 En maður þarf að vera duglegri við að tala við íslensku við útlendinga, en ég sjálfur er alltof fljótur að skipta yfir á ensku.

Partur af því reyndar er að ég vil ekki vera dónalegur og tala hægt einsog ég sé að tala niður til útlendinga, svo ég fer bara í ensku til þess að jafna grundvöllinn.

 En ég veitiggi, ég held hvorteðer að útlendingar nenni ekki að tala við mig á hvoru tungumálinu sem er...

 kv.

ísland

Sveinn (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 15:17

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Góður og athyglisverður pistill á fínni íslensku.Takk!

Amma mín sem var dönsk og bjó á Íslandi í 50 ár talaði aldrei góða íslensku, þó hún hafi skilið allt sem sagt var, held ég. En það er örugglega mikið auðveldara fyrir Norðulandabúa að skilja íslensku en aðra, þar sem málin eru svo skyld. Ekki kann ég eitt einasta orð í japönsku eða öðru Asíumáli og hugsa að ég ætti í basli með að læra það. Það var sniðug upplifun að vera á afmælishátíð fyrir taílenska kónginn s.l. laugardag og finnast maður vera í útlöndum, hlusta á mál sem maður skildi alls ekki talað allt í kring!

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.8.2007 kl. 15:34

5 identicon

Leiðrétt útgáfa af byrjuninni á pistlinum þínum:Bara svona í gamni:Ég fór til heimaborgar minnar, Tókyó, í frí með dóttur minni. Við vorum þarna í tæpar þrjár vikur. Í hvert skipti sem ég kem til Japans, tek ég eftir því hve auðvelt er að “vera” í umhverfi þar sem ég þarf ekki að hugsa um tungumál. Ég hugsa ekki um málfræði á Japönsku og ég þarf ekki að pæla í setningu eins og : “hvernig á ég að segja þetta...??”. Ég þarf ekki að einbeita mér til að skilja hvað maður segir í sjónvarpsþætti. Allt kemur sjálfkrafa í höfuð manns. Ég þarf ekki að hika við út af tungumálinu þegar ég panta mat, kaupi vörur eða spyr spurninga. Stelpan mín talar góða japönsku, svo ég þurfti ekki að nota íslensku á meðan ég var í Japan.

Um daginn var haldið málþing í Alþjóðahúsi. Fjallað var um mál sem vörðuðu íslenskunám fyrir innflytjendur á Íslandi. Málþingið var mjög vel sótt og margir tjáðu sig í umræðum. Eins og í flestum tilfellum var tíminn fljótur að líða á meðan ég var að hugsa “hvernig get ég sagt þetta á íslensku..??” og ég gat því aðeins talað lítið.
Umræðan á málþinginu var góð, en eðlilegt var að þar var yfirleitt rætt um “hvernig á íslenskunám að vera” frá sjónarmiði Íslendinga. Það er mikilvægt að sjálfsögðu, en mér finnst jafnframt þýðingarmikið og hjálpsamlegt að eyða smá tíma í að dýpka skilning sinn á því hvernig innflytjandi upplifir íslenskt tungumál hérlendis.

hjálpsamur (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 17:19

6 identicon

Bestu þakkir fyrir góðan pistil!

Ég skil mjög vel hvað þú ert að tala um. Faðir minn er danskur en settist hér að fyrir 50 árum með móður minni sem er íslensk. Faðir minn lagði mikla áherslu á að ná málinu rétt. Það tókst og hann talar aðdáunarlega góða íslensku, en maður þarf að vera nátengdur til þess að átta sig á því hvað þetta tekur mikið á. Verst þykir mér að upplifa þegar fólk gefur sér ekki tíma til að staldra við og hægja á sér í samskiptum við fólk sem er að leggja á sig að læra tungumálið okkar á fullorðinsaldri. 

 Ég ætla að benda pabba á greinina þína.

Kær kveðja!

Hanna Katrín Friðriksson (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 17:20

7 Smámynd: Toshiki Toma

Kærar þakkir fyrir allar athugasemdir!!
Takk fyrir leiðréttinguna á íslenskuna mína, "Hjálpsamur".
En bara til þess að sýna fram raunveruleika íslesnkunnar minnar, ætla ég ekki að breyta því sem er núna. 
Takk samt !

Toshiki Toma, 13.8.2007 kl. 17:33

8 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Takk fyrir góðan pistil,thetta er allt laukrétt hjá thér,thad tharf að sýna innflytjendum meiri umburðalindi thegar their tala íslensku.Ég thekki thetta sjálf,hef verið gift útlendingi í meira en 30 ár,og hann talar svo ad segja lýtalausa íslensku,og á theim tíma thegar hann kom til landsins 1973, thá var engin hjálp fyrir útlendinga til að laera málið,hann gerði thad sjálfur og thad mjoeg vel,ég er mjoeg stolt af honum,ég tala líka hans mál reiðbrennandi sem og sonur okkar.Halt thú áfram á soemu braut thú ert að gera vel fyrir thig og aðra útlendinga hér á landi. Kvedja María

María Anna P Kristjánsdóttir, 13.8.2007 kl. 17:55

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ehe...ehemm...María vinkona mín og samlandi...reiðbrennandi? Er þetta nú ekki í ætt við orms-tunguna, heilka-skóna og djúpra-fallið mitt sem ég sagði þér einu sinni frá (að mig minnir)? Langlestir segja nefnilega og haltu þér nú fast: reiprennandi. Svo lengist lærið sem lífið, eins og kellíngin saggði, eða átti það kannski að vera "svo lengi lærir sem lifir"?  

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.8.2007 kl. 18:20

10 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ha, ha, enn að rugla, því orms-tungan kom rétt hjá mér núna, þó ég hafi staðið í þeirri meiningu fram yfir fertugt að maðurinn hafi heitið Guðlaugur orm-stunga.

(Afsakið 2 athugasemdir í röð!) 

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.8.2007 kl. 18:23

11 identicon

Þetta er bara helv. fínt hjá þér, afsakaðu blótið.

 Annars last ég bók sem heitir Lost In Translation eftir rithöfund sem heitir Eva Hoffman.  Mæli með þeirri bók fyrir alla sem hafa áhuga á þessum málefnum.

Hún fluttist frá Pólandi til USA þar sem hún sagði að tungmálið "bragðaðist" eins og plast.  Vonandi er íslenskan betri á bragðið.

Heimir Hermannsson (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 18:32

12 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Virkilega góður pistill og þörf hugvekja. Sjálf hef ég bæði reynt það að búa í landi þar sem ég talaði málið mjög vel (Bandaríkin/Bretland), þar sem ég skildi talsvert og talaði þokkalega (Svíþjóð) og þar sem ég skildi mjög lítið í tungumálinu og talaði enn minna (Ísrael/Palestína). Á öllum stöðunum kynntist ég frábæru fólki sem nennti að tala við mig, hlusta á mig og leiðrétta. Við Íslendingar megum alveg vera þolinmóðari við fólk sem á ekki íslensku að móðurmáli.

Svala Jónsdóttir, 13.8.2007 kl. 20:27

13 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

frábært að fá þetta sjónarhorn á íslenskunámið. :) fallegur pistill hjá þér

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 13.8.2007 kl. 21:14

14 Smámynd: Ár & síð

Edda veltir því fyrir sér hvort þau börn séu betur sett með tungumálaframtíð sem alast upp við fleiri en eitt mál og/eða menningarheima.
Ég er sannfærður um að eitt það besta sem maður getur gefið börnum sínum séu tvö tungumál, það er fullt tvítyngi. Það vinnur gegn fordómum, eykur skilning á svo mörgu og auðveldar nám síðar meir. En þá er ég að tala um tvö tungumál sem barnið hefur fullt vald á miðað við aldur sinn, ekki þann yfirborðskennda skilning á tveimur tungumálum sem því miður lætur stundum á sér kræla í samfélögum innflytjanda um heim allan og getur reynst fólki mikill fjötur um fót.
Fátt auðgar eina þjóð meira en aðflutt fólk sem bæði tileinkar sér mál hennar og menningu og bætir líka við í þann pott.
Matthías

Ár & síð, 13.8.2007 kl. 21:46

15 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Ég verð að hrósa þér fyrir íslenskuna - ég ber alveg ómælda virðingu fyrir fólki af erlendum uppruna sem nær tökum á íslensku því það er auðvelt að ímynda sér hversu skelfilega erfitt málið fyrir alla þá sem ekki alast upp við það.

En haltu þínu striki fyrst þú ert búinn að setja saman námskerfi, og ekki gefast upp; það á eflaust eftir að hjálpa mörgum "nýjum" íslendingum, fyrst þú hefur náð svona góðum tökum á málinu.

Kveðja, 

Jón Agnar Ólason, 14.8.2007 kl. 00:10

16 Smámynd: Svala Erlendsdóttir

Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegur pistill hjá þér. Þú nærð að redda þér út úr ýmsum málfræði flækjum og kemst vel frá þessu. Ég veit bara að þegar ég er í útlöndum og þarf að hugsa upp meira og minna allar setningar þá verð ég voða þreytt. Samt er ég nú nokkuð góð í að tileinka mér tungumál en þau sem ég hef lært eru líka með ,,mínu" stafrófi/letri.

Kveðja, 

Svala Erlendsdóttir, 14.8.2007 kl. 01:43

17 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Gréta mín.ég tek kannski stórt til orða en ég tel mig tala hvort sem er reiprennandi eða reiðbrennandi,tungumál mannsins míns  ég er samt alltaf að laera nýtt á hverjum degi.Ég hef ekki búið í moerg ár í hans landi,allt sem tharf er vilji,og ef vilji er til staðar thá er allt unnið.Ég er enn að laera íslensku,thví maður er aldrei fullkominn í neinu.Kvedja María

María Anna P Kristjánsdóttir, 14.8.2007 kl. 09:15

18 Smámynd: Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar.

Flottur pistill, ég hlakka til að hitta þig.  Miðað við það sem ég hef lesið frá þér þá hlýtur að vera skemmtilegt í kringum þig.  Ég stefni að því að hitta þig í framtíðinni.  Haltu þessu áfram, þú kemur með nýjan vinkill á þörf umræðuefni í hvert sinn.

Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar., 14.8.2007 kl. 09:32

19 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Mjög áhugaverður pistill, þú ert mjög skapandi og gefandi, sannkallaður gullmoli fyrir þjóðina.  Ég þekki marga sem tala mjög góða íslensku og hef aldrei velt því fyrir mér að þau gætu verið að leggja svona mikið á sig.  En auðvitað mjög skiljanlegt þegar maður hugsar um sjálfan sig búsetta erlendis og þurfa að bjarga sér í einu og öllu á öðru tungumáli en móðurmálinu.  Það er til máltæki hér sem segir að lengi býr að fyrstu gerð, við lærum svo mikið í mannlegum samskiptum fyrstu árin okkar sem verður okkur tamt alla ævi, og það er munur á þjóðfélögum eftir t.d. trúarbrögðum og þeim aðstæðum sem veðurfar og samgöngur bjóða.

Takk fyrir góðan pistil 

Ester Sveinbjarnardóttir, 14.8.2007 kl. 09:56

20 identicon

ég er næstum hreinræktarur íslendingur og ég verð að segja að þú skrifar betur en ég. Fínn pistil

Elín (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 13:04

21 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

mjög góður teksti hjá þér ! ég get alveg sett mig í þín spor, ég hef búið í danmörku í 14 ár og þegar ég kom hingað skildi ég ekki orð í dönsku. ég tala mjög góða dönsku í dag, en ég er með hreim, og ég finn og veit að ég verð alltaf útlendingur. það leiðinlega er að ég tala heldur ekki góða íslensku lengur, það er allavega gert mikið grín af mér oft þegar ég tala við "suma" af mínum gömlu vinum.

íslenskan hjá þér er frábær ! japanska og íslenska er tvö gjörólík mál, svo þu er bara rosa duglegur.  

AlheimsLjós til þín

steina í Lejre

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 14.8.2007 kl. 13:59

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð hugvekja hjá þér, og ég segi eins og þau hin hér að framan, vel skrifað hjá þér, og svei mér ef ekki betur en sumir sem tjá sig á rituðu máli, þótt þeir séu bornir og barnfæddir íslendingar.  Þetta er líka eins og komið hefur hér fram þörf ábending til okkar allra að sýna þolimæði og umburðarlyndi gagnvart því fólki sem hér tjáir sig á öðru máli en sínu eigin.  Hafðu þökk fyrir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.8.2007 kl. 10:11

23 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir góðan pistil.  Arigato.

Billi bilaði, 15.8.2007 kl. 11:41

24 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Mér finnst þetta fallegur pistill, Toshiki, og gefur mér innsýn í þína lífsreynslu hér á landi. Þakka þér fyrir það. Ég dvaldi í nokkur ár í Bandaríkjunum og komst strax að því að það þýddi ekkert annað en að skella sér út í að tala til að ná árangri (og hætta að hafa áhyggjur af því þótt ekki væri allt rétt), en það er miklu styttra á milli ensku og íslensku en milli íslensku og japönsku þannig mitt verkefni var örugglega auðveldara en þitt. En margar frekar hlægilegar vitleysurnar gerði maður á leiðinni en sjaldan var hlegið að manni nema þá góðlátlega.

Við Íslendingar, sem höfum íslensku að móðurmáli, vorum ekki vön því að hér byggju margir aðrir, en við þurfum að venja okkur við það því að satt að segja er umburðarlyndi hér á landi gagnvart "röngu" máli ekki mikið, en ég held að það sé að breytast. Á sama hátt er útlendingum sem ná góðu valdi á íslensku oftast hrósað. Þú nefnir að vinir þínir aðstoði þig við blaðagreinaskrif - og það ættu að mínum dómi fleiri að gera þótt þeir hafi íslensku að upprunalegu máli. Ég held að ég hafi fengið einhvern til að lesa 50-100 fyrstu greinarnar sem ég skrifaði í dagblöð, og reyndar langflestar eftir það, einfaldlega vegna þess að ég held að málflutningur minn verði betri fyrir vikið, fyrir utan að laga textann. En aftur á móti er ég algerlega sammála þér og fleirum hér að ofan um að bloggið á ekki að vera dauðhreinsaður vettvangur.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.8.2007 kl. 22:30

25 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég vil byrja á að hrósa þér fyrir þessa grein.Eitt það alvarlegasta sem er að gerast núna með auknum innflutningi fólks erlendis frá er vaxandi andúð, fordómar og fáfræði. Til að vinna gegn þessu er nauðsynlegt að raddir innflytjenda heyrist hér sem í samfélaginu öllu. Ég er td. mjög hissa á að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki hvatt innflytjendur til samstarfs við sig um þau málefni sem eru brýnust hjá þeim. Ef Íslendingar fara ekki að hysja upp um sig og gera sér grein fyrir því hvað þeir ætla sér sem framtíðarsýn fyrir landið og innflytjendur þess verðum við í vondum málum innan skamms. Þú hefur fullan rétt á að lifa á íslensku OG JAPÖNSKU í þessu landi. Það er bara þegar fólk fer að draga sig inn í sérsamfélög innflytjenda og lifa í einangrun sem hætta skapast. Svo er ég með eina pælingu sem mér finnst jafnvel jafnmikilvæg og íslenskukennsla innflytjenda. Hvað vita Íslendingar um Pólverja, Portúgala, Víetnama eða Japani yfirhöfuð? Ættum við ekki líka að fá kennslu?

Ævar Rafn Kjartansson, 16.8.2007 kl. 00:28

26 Smámynd: Sigrún Einars

Sæll Toshiki, gaman að lesa greinina þína á skemmtilega skringilegri íslensku!!  Verð að segja eitt sem ég gat ekki séð að nokkur annar hafði minnst á:  Stafsetningin hjá þér er 100%!!  (eftir því sem ég get best séð)  fyrir utan eitt atriði, en mér sýnist þú oft stafsetja orðið íslenska vitlaust oft.  Er það misskilningur hjá mér?

Villurnar hjá þér felast í því að þú raðar orðunum rangt saman og þannig verða setningarnar hjá þér skemmtilega skringilegar.  Ég ímynda mér samt að það sé svona sem þú myndir setja saman setningar á japönsku og að það smiti svolítið út frá sér í íslenskuna. 

Sigrún Einars, 21.8.2007 kl. 15:11

27 Smámynd: Sigrún Einars

Vil líka endilega koma einu öðru á framfæri.  Það er skömm að því hversu margir íslendingar tala/rita lélega íslensku.  Það er nóg að skoða bloggsíðurnar og maður sér stórt hlutfall ÍSLENSKRA bloggara senda frá sér bloggæfærslur, stútfullar af rit- og stafsetningarvillum TIL VIÐBÓTAR við allar málfarsvillurnar.  HRÆÐILEGT!!  Þú mátt sko alveg vera stoltur af þinni íslensku, Toshiki.

Sigrún Einars, 21.8.2007 kl. 15:14

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband