19.10.2007 | 00:18
Það sem Jesús segir okkur í dag
Undanfarna daga hafa birst í blöðum greinargerðir eftir nokkra kraftmikla kirkjuleiðtoga sem hafa andmælt hjónavígslu samkynhneigðra para og hafa áhyggjur af afleiðingum þeirrar gjörðar.
Á meðal presta og guðfræðinga Þjóðkirkjunnar eru einnig miklar og heitar umræður um þetta málefni, miklu meiri en birtast á opinberum vettvangi.
Meginágreiningurinn, á milli þeirra sem er annars vegar jákvæðir í garð hjónavígslu samkynhneigðra para og hinna sem eru neikvæðir, felst í því hvernig við túlkum Biblíuna sem Guðs orð. Þeir sem eru jákvæðir, og meðal þeirra er undirritaður, vilja hlusta á þau skilaboð Guðs sem eru óbreytanleg í tíma og rúmi, eru hafin yfir tíma og menningu, eru nokkurn veginn algild.
Þeir sem eru neikvæðari í afstöðu sinni byrja rökum sínum á forsenda eins og: ,, samkvæmt skýrum orðum Jesú Krists og postula hans er hjónaband á milli karls og konu en ekki tveggja einstaklinga af sama kyni(Friðrik Schram, Mbl. 23. nóv. 2005).
Mér finnst að þeir sem andmæla kirkjulegri hjónavígslu samkynhneigðra þurfi að staldra við um stund og íhuga stöðu sína.
Kennisetningar kirkjunnar og guðfræði byggist nú þegar öll á túlkun Biblíunnar, a.m.k. í lúterskri kirkju. Ólíkt því sem margir trúa, þá kveður Biblían ekki skýrt úr um að hjónaband verði að vera milli karls og konu. Sú hugmynd tilheyrir kennisetningu sem túlkuð er út frá Biblíunni, ekki biblíutextanum sjálfum.
Ef við leitum þá finnum við orð sem Páll postuli segir: ,,Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég. En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd. (1. Kor.6.). Við fyrsta lestur virðist sem Páll postuli sé að segja okkur að það sé best fyrir okkur að giftast alls ekki, en þegar við lærum um og skiljum sögu og menningu þeirra tíma sem Páll var uppi á og þeirra sem Biblían er skrifuð á fá orð hans dýpri merkingu og rétta þýðingu.
En að sjálfssögðu vita andmælendur af atriðum eins og þessum. Þeir eru ekki bókstaflegir trúmenn. Þeir kjósa hins vegar að túlka Biblíuna í samræmi við eigin hugmyndaheim, sem er skiljanlegt en ekki endilega réttlætanlegt.
Kjarni málsins snýst nefnilega ekki um orðalag Biblíunnar heldur er það ímynd andmælendanna um ,,hið góða kristilega siðgæði, sem þeim var kennt og þeir vilja halda á lofti. Og samkynhneigð hjón virðast hjá þeim falla utan við ramma ,,hinna góðu kristilega gilda.
Ég veit að það er erfitt fyrir okkur öll að hreyfa við viðteknum venjum, hefðum og gildum. Það er samt hægt ef við (ég segi það um kristið fólk) trúum á Jesú og setjum æðstu gildi lífsins í hendur Jesú og íhugum hvað hann vill segja við okkur í dag. Við megum ekki láta hefðbundna menningu eða aðrar hefðir villa okkur sýn.
Kraftur Jesús og náð virkar til að frelsa okkur frá sjálfdýrkun, sjálfsgirni, áhugaleysi gagnvart náunganum og kúgun, en aldrei veitir okkur rétt til þess að kúga eða mismuna. Íhugum því hvað frelsarinn segir við okkur í dag.
(Fyrst birtist í Fréttablaðinu 3. desember 2005)
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Góð og falleg grein, eins og vænta mátti frá þér, vitri maður. Holl lesning.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.10.2007 kl. 04:06
Ég vil meina að við túlkum öll biblíuna samkvæmt okkar skilningi á henni.Og vissulega guðdómin líka í mínum huga er hjónaband milli karls og konu,ekki að ég hafi neitt á móti samkynhneigð mikið af þeim er ég þekki sem eru samkynhneigðir eru vænasta fólk.
Ég tel samt að það sé ekki hlutverk þjóðkirkjunnar að gifta samkynhneigða,því minn skilningur á orðinu er ekki á þá lund.Og ég tek bara fram það er og mín skoðun og ég hef fullann rétt á mínum skoðunum.Guð veri með ykkur kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 19.10.2007 kl. 06:59
Forsenda Friðriks Schram: "samkvæmt skýrum orðum Jesú Krists og postula hans er hjónaband á milli karls og konu en ekki tveggja einstaklinga af sama kyni," er 100% rétt
, ekki háð einhverri súbjektífri túlkun þinni á Biblíunni. Kristur endurtekur (en með sínum hætti) orð I. Mósebókar um hjónabandið í Mt. 19.4-6 og Mark.10.6 o.áfr., og postular hans (sedm tala einungis um hjónaband karls og konu), ekki þú, Toshiki, hafa hinn rétta skilning á orðum hans og vilja. Engin dæmi finnast fyrir hómósexúellu hjónabandi í Gamla testamentinu, en Kristi var í lófa lagið að stofna til þess, hefði hann haft til þess viljann. Að þú og þínir félagar séuð reiðubúnir til þess, vottar ekki um trúfesti ykkar við Krist. Klisjan um 'túlkun' gengur ekki, þið eruð einfaldlega að búa til ný trúarbrögð, kjósið að halda ykkur ekki við þann grundvöll, sem lagður var með kenningu Krists og samfélagi frumkirkjunnar.Jón Valur Jensson, 19.10.2007 kl. 09:38
Mér sýnist á öllu ofansögðu, að það sé bara spurning um hvernig fólk kýs að túlka textann.
Jónína Dúadóttir, 19.10.2007 kl. 09:55
Ég spyr nú bara Úlfar hér að ofan hvort það sé verkefni kirkjunnar að gifta karl og konu sem síðar brjóta allar "reglur" hjónabandsins.
Góð grein og ég er henni innilega sammála. Hver og einn ætti að líta sér næst og túlka trúna með tjáningu og gjörðum . . frekar en orðum.
Fiðrildi, 19.10.2007 kl. 09:59
Kristur lagði kærleikann alltaf til grundvallar þegar hann var spurður álits og mildin skein alltaf í gegn. Hann hefði boðið samkynhneigða velkomna til að gifta sig í kirkju væri hann spurður í dag það er ég viss um því hann rak aldrei neinn í burtu frá sér.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 19.10.2007 kl. 10:31
Kristur hefði, hefði. Þetta er ekkert svar við innleggi mínu. Orð Krists eru ljós, sem og orð postula hans, þeirra sem hann hafði tilskipað til að kenna allt það, sem hann hafði kennt þeim, og annast kirkju hans.
Til hvers var Kristur að kenna, ef menn geta "túlkað" hann þvert á hans meiningu? Til hvers er Toshiki sjálfur að skrifa, ef mér er frjálst að túlka hann eins og mér sýnist?
Bæði Gamla testamentið (á ýmsum stöðum) og Nýja testamentið (á þremur stöðum) leggja blátt bann við kynmökum fólks af sama kyni og fara um þau mjög alvarlegum orðum, m.a. að þeir, sem þau stundi, muni ekki Guðsríki erfa, en þó þannig, að þeir, sem þiggja fyrirgefningu, geti látið helgast og réttlætzt af þeim röngu verkum sínum (I. Kor.6.9-11), rétt eins og aðrir sem syndgað hafa (sem hendir okkur öll). Kristur í mildi sinni getur fyrirgefið synd, en hann segir líka: "Far þú, og syndga ekki framar" (rétt eins og hann sagði við hórkonuna, sem stóð til að grýta, í Jóh. 8.3-11). Að kristnir prestar löghelgi samræði karls og karls eða konu og konu, væri til marks um hina algeru firringu viðkomandi manna frá kristinni kenningu og siðferði.
Jón Valur Jensson, 19.10.2007 kl. 10:53
Kæru bloggvinir, þakka ykkur að deila skoðun ykkar með öðrum.
Við verðum að túlka Biblíuna að sjálfsgðu sífellt, því Guðs orð heldur áfram með því. Í stittu máli sagt, er kirkjan til þess að túlka Guðs orð (þó að þetta sé frekar gróf tjáning).
Heimsmynd fólks breytist, viðhorf við konur breytist, viðhorf við geðsjúkling breytist. Samt hugsum við ekki að kjarni krinstinnar trúar breytist. Af hverju? Því að við túlkum Biblíuna og varðveitum "innihaldið" hennar.
Mér finnst erfitt að skilja kristinfræðilega að maður nokkur, sem nýtur "túlkunar" að öðru leyti eins og aðrir (t.d að fara í sunnudagsmessu, sem er algjör ný "túlkun" hvílardags) afneitar
allt í einu túlkun á Biblíuna þegar kynhneigð er að ræða.
En ég skil mjög auðveldlega hið sama sem sálfræðileg viðbrögð manna almennt.
Toshiki Toma, 19.10.2007 kl. 11:32
Jón, þó bókin segi slæma hluti um samkynhneigð þá má gera ráð fyrir því að skoðanabróðir þinn hafi sett það í bókina.
DoctorE (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 11:49
Toshiki, það er merkileg "túlkun", sem snýr við merkingu manna. Samkvæmt slíkri "túlkunaraðferð" gæti ég líklega haldið því fram, að í rauninni viljirðu banna samkynhneigð.
Jón Valur Jensson, 19.10.2007 kl. 11:54
Túlkandi Guðs orðs á að vera í þjónustu þess, rétt eins og sérhver þýðandi á að þjóna þeim höfundi, sem hann þýðir.
Jón Valur Jensson, 19.10.2007 kl. 12:03
Virkilega gott að lesa greinina þína, þú ferð mildum höndum um málefnið.
Sólveig Hannedóttir (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 12:40
Arna þessu vil ég svara á þá leið.Ef karl eða kona í hjónabandi virða ekki maka og eru maka sínum ekki trú nú þá auðvitað er það ónýtt hjónaband.Fólk sem stundar framhjáhald og treður á maka sínum er ekki hæft í hjónabandi.Málið er auðvitað að koma fram við aðra eins og maður vill láta koma fram við sig.Kirkjan getur síðan aldrei vitað þegar kemur að athöfn að því hjónabandi muni ljúka vegna vanvirðingar við maka.Ég vil taka fram að prestum ber að virða orðið og þá á ég við ritninguna og innlegg mitt vísar á minn skilning á orðinu kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 19.10.2007 kl. 13:53
Toshiki. Breyting á helgihaldi frá Hvíldardegi Drottins yfir á sunnudag hafði ekkert með túlkun að gera. Það var meira valdboð og gyðingaofsóknir og annað slíkt. Þetta hafa kardinalar Vatikansins velt okkur mótmælendum upp úr, að þeir hafi vald til að breyta Boðorðum Guðs. Þeir hafa tekið sér það vald og það sannar þetta vald þeirra segja þeir einmitt sú staðreynd að við mótmælendur hlýðum Vatikaninu í þessu efni hvað sem líður sola scriptura Luthers.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 19.10.2007 kl. 14:39
Góð grein hjá þér Toshiki, eins og við er að búast.
Ragnhildur Jónsdóttir, 19.10.2007 kl. 14:57
Mér finns mjög mikilvægt að vernda kristið hjónaband. Alls ekki breyta skilgreiningu þess og útvatna þessa merku stofnun, sama hvað menn tala um kærleika sín í millum og mannréttindaákvæði. Ég vil vernda fjölskylduna og finnst nóg komið af samfélagslegu broti og bramli. Það hefur þegar haft ískyggilegar afleiðingar. Hvorki vil ég frænda- eða frænkuhjónabönd, systra-, systkyna- eða bræðrabönd. Heldur ekki þriggja fjögurra eða fimm manna hjónabönd. Sama hversu menn segjast elska mikið hvorn annan og eru góðmennskulegir. Á hinn bógin geta menn gert með sér tilfinningabandalög, skrifleg og óskrifleg, óheft eins og menn vilja en það er óþarfi að kenna þau við kristið hjónaband finnst mér.
Guðmundur Pálsson, 19.10.2007 kl. 15:22
Mér þykir Jón Valur vera orðinn svolítið kaldur og dómharður á "efri árum". Hvernig sem fólk túlkar innviði Biblíunnar, þá er boðskapur Drottins ást og mannkærleikur.
-Af hverju að einblína á biturð og refsigleði? -Er ást milli tveggja kvenna eitthvað minni eða ómerkilegri en ást karls og konu? -Er heimili þeirra og fjölskylda eitthvað óverðugri að vera blessað en heimili mitt eða Jóns?
Jesús kenndi okkur að elska náunga okkar eins og sjálf okkur, og ef við berum einlæga umhyggju fyrir einhverjum þá viljum við honum allt hið besta. Hjálpum honum ef hann er hjálparþurfi og gefum honum hlutdeild í því sem við eigum ef hann skortir.
Mér finnst þetta "ég á þetta skilið en ekki þú"-viðhorf fremur hrokafull afstaða hjá fólki sem telur sig sannkristið, og ekki í þeim anda sem kærleiksríkur frelsarinn boðaði. En þetta er nú bara mitt viðhorf og engum þröngvað til að vera sammála.
Vona svo að þið eigið öll yndislega helgi, með ást og friði.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.10.2007 kl. 16:35
Gaman að heyra mismunandi skoðun, takk.
Takk kærlega fyrir ábendinguna þína, Mr. predikarinn. Éh hélt að það hefði þróaðist þannig að lærisveinarnir Jesú mætu Jesú á sunnudögum eins og guðspjöllin segja og byrjuðu að halda sérstakar stundir við hliðina hvíladaga Gyðinga. Síðan kom kirkjan í öðruvísi
menningarheim þar sem lög Gyðinga stjórnuðu ekki. Og með tímanum tóku sunndagar yfir laugardaga... ég vissi ekki Vatican væri hlutaðeigandi þess. Og því
mótmæla nokkrar kirkjudeildar enn í dag þannig að kirkjan eigi að halda hvíladag á
laugardögum.
En ég er ekki sérfræðingur á þessu. Gaman að heyra í þér aðeins meira um þetta við tækifærið.
Toshiki Toma, 19.10.2007 kl. 17:33
Já, mannkynið er komið allt of stutt. Ég var sannfærður um þá sorglegu staðreynd, Jón, þegar ég las athugasemdina þína...
Toshiki Toma, 19.10.2007 kl. 19:55
Takk fyrir góða grein, Toshiki. Sem betur fer eru ekki margir eins og Jón og geta lifað lífinu með opinn hug og hjarta.
Hugarfluga, 19.10.2007 kl. 20:16
Flugubitin hef ég þolað mörg -- og öll verið nafnlaus eins og þetta.
En Toshiki, skemmtilega tvíræður varstu í þessari athugasemd þinni kl. 19:55.
Helga Guðrún, eins og ég hafði nú álit á þér, finnst þér ástæða til að vera með persónulegar blammeringar, og á það að hjálpa umræðunni? Eða hvar sástu mig "einblína á biturð og refsigleði"? Og svo að ég spyrji þig sjálfa um það sem mestu skiptir: Játarðu Jesúm sem Guðssoninn eilífa, endurlausnara þinn og kennara frá Guði? Ef svo er, viltu þá ekki fylgja leiðsögn hans ALLRI?
Jón Valur Jensson, 19.10.2007 kl. 20:37
Hjónabandið er göfug stofnun, hornsteinn hvers þjóðfélags. Kirkjan mun fylgja löggjafanum hvað snertir hjónavígslu samkynhneigðra, það hlýtur að liggja fyrir. Þá er það eðlilegt eins og kirkjuþing mun fjalla um á þessu stigi málsins að samvisku presta verði ekki stjórnað af æðri mannavöldum og að hver prestur fái þannig að eiga það við sig hvað hann geri í þessu samhengi, ætli það sé ekki farsælasta lausnin eins og komið er fyrir þessu máli, sem er orðið á margan hátt of teygt og togað? Hins vegar hef ég meiri áhyggjur af upplausn heimila í tengslum við hjónaskilnaði og því tel ég það mikilvægt að ígrunda betur þær reglur og jafnvel herða er snertir að ganga í hjónaband aftur heldur en að gefa saman samkynhneigð pör í fyrsta sinni, svo fólk átti sig frekar út á hvað hjónabandið gengur. Jón Valur, ekki hef ég orðið var við það á þeim opinbera vettvangi sem bloggið er að það þyki einhver upphefð í því að njóta álits hjá þér, með fullri virðingu. Kveðja. Bolli Pétur Bollason
Bolli Pétur Bollason (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 22:42
Kæri Toshiki : smá texti til fróðleiks. Á stærri samantekt fyrir þig síðar.
Eftirfarandi yfirlýsingu er að finna á 50. blaðsíðu í Lærdómskveri kaþólskra kenninga eftir Peter Geiermann, Þar í nokkrum spurningum og svörum segir orðrétt:
“Spurning: Hvaða dagur er Hvíldardagur?
Svar: Það er laugardagurinn.
Spurning: Hvers vegna höldum við sunnudaginn þá helgan?
Svar: Vegna þess að Kaþólska kirkjan færði helgi Hvíldardagsins yfir á sunnudaginn.”
Um þessa breytingu á Hvíldardegi Drottins hafði hinn frægi kardínáli, James Gibbon í Baltimore í Bandaríkjunum, þetta að segja: “Kaþólska kirkjan staðhæfir, að hún hafi gert breytinguna. Og þessi breyting er merki þess, að kirkjan hefur vald og myndugleik í andlegum málum.”
Sömuleiðis er hér tilvitnun í kaþólskar heimildir í blaðinu The Catholic Record, 1. september, 1923. Þar segir orðrétt:
“Sunnudagurinn er merki um vald okkar. . . . . Kirkjan er ofar Biblíunni, og breyting Hvíldardagsins er sönnun þessarar staðreyndar.”
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 19.10.2007 kl. 22:58
Mér sýnist á umræðunum sem full þörf sé á því að ræða það sem yfirskriftin býður upp á, og þá án tengingar við helstu ágreiningsmál meðal kristinnar manna. Sem sagt :
"Hvað segir Jesús okkur í dag"
Það væri mjög hollt fyrir kirkjur og kirkjudeildir að komast að einhverja niðurstöðu í svoleiðis samkirkjuleg / ecumenical mál. Hvert er innbyrðis vægi kærleikar, fyrirgefningar, þolinmæðis , umburðarlyndis, huggunar, öryggis, síða, mannréttindasáttmála SÞ, hefða, nýja og gamla testamentis, bæna, kraftaverka, upprisu og dómsdags ?
( Eða eitthvað í þá veru. )
Biðst forláts ef málarsvillur mínar gera þetta óskiljanlegt eða sársaukafullt að lesa..
Morten Lange, 19.10.2007 kl. 23:48
Umm, ég gleymdi að taka fram: Tek undir með þeim sem hrósa þér fyrir greinina, Toshiki.
Morten Lange, 19.10.2007 kl. 23:51
Síra Bolli gat ekki látið það ógert að enda í lága drifinu og persónugírnum -- einmitt það, sem við Snorri í Betel vorum að að ræða HÉR (kl. 22:06 o.áfr.), að EKKI bæri að gera, heldur skiptast á rökstuddum viðhorfum og ræða um trúarafstöðu.
En fróðlegt var líka að kynnast valdbeitingarviðhorfi Bolla, þar sem hann (presturinn) leggst flatur fyrir keisaranum (ríkisvaldinu), þegar hann á þvert á móti að lúta Guði. "Kirkjan mun fylgja löggjafanum hvað snertir hjónavígslu samkynhneigðra, það hlýtur að liggja fyrir," segir hann og kann ekki að blygðast sín. Merkilegt ástand á þessum hluta prestastéttarinnar nú í aðdraganda Kirkjuþings ...
Jón Valur Jensson, 20.10.2007 kl. 00:01
Birti þetta hjá Jóni Val: Nú vill ég hvorki hætta mér út í trúvillupælingar rétttrúarmanna né veltingar um sögufalsanir biblíunnar. En það virðast vera 5-10% mannkyns sem hneigjast til sama kyns. Grikkir til forna og tyrkir litu það opnum augum að karlmenn leggðust með karlmönnum. Er ekki eitthvað í þessari sögu og því að fólk FÆÐIST SAMKYNHNEIGT atriði sem trúarfasistar ættu að velta fyrir sér? Sérstaklega í ljósi þess að þetta er ekki eitthvað sem er nýkomið til. Enda hefði opinbert stjórnvald og þjófar vörumerkisins Jesús Kristur ekki haft svona mikið fyrir því að gera þetta að máli nema hafa skort kosningarmál gagnvart falsguðum annarra trúa. Og samkynhneigðir eru auðveld bráð.
Viðbót: Að mínu mati velur engin að vera samkynhneigður. Ef við sem erum það ekki höfnum kenndum, löngunum og tilfinningum þeirra sem sjúkdómi, villu eða einhverju sem er læknanlegt gerum við ekki bara lítið úr samkynhneigðu fólki. Við gerum lítið úr okkur og upplýsum fordóma byggða á fáfræði. Manneskja sem er samkynhneigð er það ekki að eigin vali. Hún er það bara og það er ekki annarra að dæma hana.
Ævar Rafn Kjartansson, 20.10.2007 kl. 01:14
Þetta innlegg Ævars Rafns, með fullri virðingu, talar ekki út af borðinu boð Heilagrar Ritningar og talar heldur ekki til Biblíutrúrra, kristinna manna, sama hversu vel það nær til þeirra, sem telja sig frjálslynda. Þar að auki ber að nefna, að til eru ótal dæmi um samkynhneigt fólk, sem fæddist ekki þannig, og engar sannanir eru fyrir því, að hneigðin sé arfbundin eða meðfædd eða fæðingargalli.
5-10%-matstala Ævars er sömuleiðis röng, sjá þessa vel rökstuddu grein mína: Hversu algeng er samkynhneigð á Íslandi? (Fréttabl. 28. apríl 2005; grundvallandi grein um tölfræðina í þessum málum, leidd skýr rök að því, að samkynhneigðir séu um 2,6-2,8%, en lesbíur um 1,65%) og einnig þessa: Tekur Framsókn mið af kristnu siðferði eða ímynduðum fjölda samkynhneigðra? (Mbl. 23. des. 2005; þar kemur fram, að virkir samkynhneigðir eru jafnvel mun færri en um 2,3%).
Samkynhneigðir eru mér engin "auðveld bráð", ég er ekki í baráttu gegn þeim, heldur fyrir málstað kristindóms og kirkju, sem og ókominna kynslóða.
Jón Valur Jensson, 20.10.2007 kl. 01:29
Hér átti að standa: "leidd skýr rök að því, að samkynhneigðir karlar séu um 2,6-2,8%".
Jón Valur Jensson, 20.10.2007 kl. 01:31
Mig langar til að spyrja þig Toshiki Toma að einu. Ég er alfarið á móti "hjónabandi" milli samkynhneygðra en finnst að þeir eigi að hafa öll þau réttindi sem hjón hafa. Í mínum augum er hjónabandið heilagt samband milli karls og konu en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það sama gildi milli tveggja manna eða kvenna. En hjónaband sem slíkt er heilagt og það þarf aðra mynd /nafn fyrir samkynhneigða. Nú hafna ég kristinni kirkju þrátt fyrir trúnna á Jesú en fyrir mér er þetta líka spurningin um afneitun á voðaverkum í nafni trúnnar. Og þessi voðaverk virðast lifa góðu lífi í talibönum kristninnar.
Ævar Rafn Kjartansson, 20.10.2007 kl. 02:58
Góð grein, Toshiki, takk fyrir hana.
Eitt sem ég verð hissa á, - það er hvað margir sem ég er viss um að velta ekki þessum málum mikið fyrir sér dags daglega fá mikinn áhuga á trú og trúmálum við það að þessi umræða kemur upp - sjálfsagt er það af hinu góða. Stundum finnst mér að það sé eins með þessar hefðbundnu kirkjulegu athafnir - skírn, fermingu og giftingu - og messur um jól og páska, að það sé eitthvað sem fólk sækir/sækist eftir af því að því finnst það tilheyra, en ekki vegna þess að það velti dýpri merkingu þessara viðburða sérstaklega fyrir sér (?).
Greta Björg Úlfsdóttir, 20.10.2007 kl. 11:39
Kæru bloggvinir, sæl.
Þakka þér fyrir, Mr. predikarinn, innleggið þitt. Ég er ekki viss ennþá hvort ég sé sammæala því: “Sunnudagurinn er merki um vald okkar. . . . . Kirkjan er ofar Biblíunni, og breyting Hvíldardagsins er sönnun þessarar staðreyndar.” þar sem átt þessi yfirfærsla sér stað löngu fyrir í sögunni.
En núna geymi ég þetta mál aðeins (mín vegna).
Ævar, ég held að hjónaband er bara ein tegnd fyrir alla. Ég sé ekki merki þess að
samband milli sama kynja verður að vera aðskilið frá samband milli kalrs og konu.
Af hverju finnst þér nauðsynlegt að aðgreina það? Eða, ef má spyrja, er það nokkur
nægileg ástæða til staðar til þess að við megum gera mun á milli þessara tveggja?
Toshiki Toma, 20.10.2007 kl. 12:42
Sæll, Ragnar Örn.
Ég vorkenna þér fyrir að þú kannt ekki að tjá þig á eins almennilegan hátt og aðrir gera. kannski lærðirðu það aldrei...
Toshiki Toma, 20.10.2007 kl. 13:25
Mjög góð grein, og Ritningargreinin úr Korintubréfi Páls, virðist færa rök fyrir því að við verðum að endurskoða þessa hluti. Páll er að benda á útleið.. Ekki nokkur vafi, og við verðum að geta flutt guðfræði Biblíunnar til samtímans, annars er lítið gagn í henni, einhverja reglu verðum við að styðja okkur við......... Annars finnst mér alltaf gaman að lesa Korinthubréfin. Pál er svo mikið í mun að koma skikki á Korhintumenn og Konur ekki síður.....
Sólveig Hannesdóttir, 20.10.2007 kl. 14:33
Kærleiksóðurinn er í 13. kafla Fyrra Korinthubréfs, munið það. Oft er lesið úr honum við hjónavígslur, en aldrei var það vilji höfundarins, Páls postula, að það yrði gert til að pússa saman tvær lesbíur eða tvo homma.
Jón Valur Jensson, 20.10.2007 kl. 14:48
Takk fyrir að leiðrétta málfæðilega villu hjá mér, Ragnar. Það er líklegat eina atriði sem þu getur notið yfirburðarkenndar gagnvart mig. Ég vorkenni þér..
Toshiki Toma, 20.10.2007 kl. 18:10
Kæri nýi Bloggvinur.
Ég hef fylgst með skrifum þínum og er ákaflega glaður að þú hefur valið mig sem bloggvin.
Ég trúi á að kærleikurinn sé æðri öllu. Afstæða þín í þessu máli finnst mér endurspegla þá túlkun sem byggir ekki á hugsunarlausri trú á ákveðna þýðingu á skrifum mennskra manna fyrir nærri 2000 árum heldur því að okkur hafi verið veittur gleðiboðskapur kærleikans.
Jón Sigurgeirsson , 20.10.2007 kl. 20:41
En Jón minn, á ekki að þýða rétt? Eða á að þýða eftir hentugleikum?
Á að segja eitthvað annað en postulinn sagði?
Segðu mér nú ærlega meiningu þína í þessu efni.
En þú semur lögfræðilegt álitsskjal, viltu að það sé þýtt í fullu samræmi við mnerkingu frumtextans eða bara frjálst eftir höfði einhvers "frjálslynds túlkanda" úti í löndum?
Og viltu að dómstólarnir "túlki" lögin "frjálst", eftir því hvernig liggur á dómurunum?
Gaman væri að sjá álit þitt á því.
Jón Valur Jensson, 21.10.2007 kl. 01:16
Mér finnst slæmt að Jón Valur Jensson skuli yfirtaka umræðuna með sínum skoðunum. Hann hefur sitt blog til að koma sínum skoðunum á framfæri og hefur tækifæri á því að gera athugasemdir við blogg annarra. En þegar hann er byrjaður að tala yfirlætislega til þeirra sem í sakleysi sínu leyfa sér að rita athugasemdir við bloggfærslur honum óviðkomandi finnst mér hann misnota þessa heimild.
Hann gerir þá athugasemd við mína athugasemd að það verði að túlka textann eftir þeim skilningi sem HANN sjálfur hefur á orðanna hljóðan og annað komi ekki til greina. Hann er líka að reyna að halda því fram að svoleiðis eigi að túlka lög. Þetta er einfaldlega rangt hjá honum a.m.k. hvað lögin varðar. Hvert orð sem við segjum þarfnast túlkunar. Ég tala nú ekki um þegar texti er ritaður og lesinn tvöþúsund árum síðar. Lagatexti er túlkaður - þess vegna eru lögfræðingar. Eitt af þeim sjónarmiðum sem stuðst er við er vilji löggjafans og meginreglur laga. Það tel ég Toshiki geri og hef ég þar fyrir mér kórintubréfið sem leggur áherslu á að Kærleikurinn sé öllu æðri. Er eins konar stjórnarskrá. Að níðast á fólki vegna þess hvernig það er skapað er því stjórnarskrárbrot að mínu mati. Eða eins og skrifað stendur "Af ávöxtunum skuðið þér þekkja þá"
Jón Sigurgeirsson , 21.10.2007 kl. 11:16
Amen
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 21.10.2007 kl. 11:37
Jón Valur, þú talar um að við getum ekki valið út ritningarvers eftir hentugleika. Væri þá ekki réttast að grýta homma og lesbíur í stað þess að gifta þetta fólk? Má ég svo benda þér á að kristnir hafa ekki einkarétt á hjónabandinu og giftingu, enda er fólk hér á landi gift í fleirum siðum en kristnum.
baddi (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 14:12
Takk Toshiki, kærleikurinn skín úr orðum þínum. Það er sorglegt að sjá hvað sumir sem kommenta, eins og þessi Ragnar Örn er mikill dóni. Hvaða gagn ætli hann sé að gera náunganum í samfélaginu ? ... Jón Frímann og aðrir ,,biblíueyðingarsinnar" ; þó þið segist ekki trúa einu orði í Biblíunni ættuð þið samt að kynna ykkur hana ef þið hafið minnsta hug á að vera menningarlega læsir.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 21.10.2007 kl. 21:53
Ég þakka bloggvinum fyrir skoðunarskipti.
Takk kærlega hlýju orðin þín, Jóhanna. Mér finnst bæði jákvæð viðbrögð og neikvæð vera jöfn mikilvægt fyrir mann, en ef ég má velja, þykir mér vænt um að fá góð orð fremur en sælm!!
Toshiki Toma, 21.10.2007 kl. 22:24
'Baddi' er eitthvað að misskilja hér hlutina. Hvergi í Biblíunni er talað um, að grýta eigi homma og lesbíur. Kristur gefur líka fordæmi með alkunnri afstöðu sinni til hórseku konunnar, þar sem hann afnam dauðarefsingu hennar, enda hafði hann fullt vald til þess. Hins vegar gleyma sumir lokaorðum hans þar: "Far þú, syndga ekki upp frá þessu" (Jóh.8:11). Líklegt má telja, að hann hefði sagt það sama við homma eða lesbíu, enda nemur hann hvergi úr gildi bann Gamla testamentisins við því, að karlmaður leggist með karlmanni sem kona væri, og hann varaði menn einmitt við fordæmi Sódómu. Af þessu, sem og af skýrum orðum hans um hjónabandið sem sáttmálaband karls og konu (Mt.19, Mk.10), á líka að vera ljóst, að hann hefði aldrei tekið það í mál að heimila tveimur hommum eða tveimur lesbíum að 'giftast'.
Baddi segir kristna ekki hafa "einkarétt á hjónabandinu og giftingu, enda er fólk hér á landi gift í fleiri siðum en kristnum," bætir hann við. Samt er það svo, að kristinn siður er hér svo ríkjandi, að fjölkvæni er bannað, og er það hið ágætasta mál, sem ég efast um að t.d. kvenréttindakonur vilji breyta (um frjálshyggjustrákana þori ég hins vegar ekki að fullyrða). Hjónabandið ber einnig að vernda fyrir árásum róttækra samkynhneigðarsinna. Ég er innilega sammála Steinunni Jóhannesdóttur rithöfundi, sem kom fram í Silfri Egils og Rúv í gær og ræddi þau mál, að hjónaband karls og konu er grunneining þjóðfélagsins, sem svo mikið er undir komið, að alls ekki má raska við þeim lögum sem tryggja viðeigandi réttindi þar um. Svo þakka ég Badda umræðuna.
Jón Valur Jensson, 22.10.2007 kl. 03:16
"Hvað þykist Jón Valur vita umfram aðra um "vilja höfundarins"?" spyr Bárður Heiðar, en ég les vilja Páls postula úr orðum hans. Það er algerlega ljóst af þremur textum hans um samkynja kynlíf (Róm.1, I.Kor.6, I.Tím.1, sbr. nýjustu vefgrein mína, neðst), að hann forbýður með öllu slíkar athafnir og kveður þær útiloka menn frá Guðsríki, ásamt ýmsu öðru, sem hann nefnir um þetta og alls ekki í meðmælaskyni. Hvergi örlar á því, að neinn Guðsmaður í Nýja testamentinu leyfi samkynja sambönd, hvað þá vilji leyfa hjónabönd af því taginu.
Bárður Heiðar spyr hér líka: "Er Jón Valur sjálfur hinn vammlausi nokkuð farinn að gera sig sekan um að túlka ritninguna, sem honum finnst svo mikil lágkúra í hjá öðrum?" Og hér er einmitt komið að þeirri meinloku, sem Jón Sigurgeirsson lögfræðingur rataði líka á og ég skal nú lagfæra hjá þeim báðum.
Hvergi hef ég sagt, að það megi ekki túlka Heilaga Ritningu. Það er einmitt nauðsynlegt að túlka hana. En það er ekki öllum lagið. Fyrst og fremst er kirkjunni, söfnuði trúaðra, ætlað það, því að hún getur sagt með Páli postula: "En eg þykist og hafa anda Guðs" (I. Kor. 7.40; fleiri textar ganga út á svipaða hluti hjá honum: að einungis hinn andlegi geti fullskilið og dæmt um andlega hluti).
Þegar ég talaði með lítilli virðingu um "túlkun" og "frjálslynda túlkendur" innan gæsalappa, sem t.d. ""túlka" lögin "frjálst", eftir því hvernig liggur á [þeim]," þá átti ég alls ekki við eiginlega túlkun, heldur mistúlkun eða þá túlkun sem bindur sig alls ekki við frumtextann, og er þetta stundum kallað "skapandi túlkun" í dómstólakerfinu, en ég tek undir með Ólafi Berki Þorvaldssyni hæstaréttardómara á nýafstaðinni ráðstefnu, að slík frammúrstefnuleg "túlkun" fyrirliggjandi laga eigi í raun alls ekki við í dómsorðum í réttarsölum okkar.
Svo veit ég ekki betur en Jón Sigurgeirsson hafi sjálfur "sitt blogg til að koma sínum skoðunum á framfæri" og þurfi því ekkert frekar að agnúast út í mig að skrifa hér heldur en ég út í hann; velkomið er honum að tala hvar sem er, en ekki að ætlast til þess af mér að ég þegi hér. Það hefur hingað til ekki verið skorturinn á því, að veraldarsinnarnir, trúleysingjanir, blöndutrúarfólk og frjálshyggju-kristindómsfólk hafi úttalað sig mikið á netinu um þessi samkynhneigðramál, það er þar venjulega í meirihluta, og ekki kvartar nafni minn yfir því. Orð hans skil ég sem viðleitni til skoðanabælingar, en slíkt hefur alltaf verkað öfugt á mig. Kveð hann svo með góðum óskum.
Jón Valur Jensson, 22.10.2007 kl. 03:50