Tvö ár liðin - Bæn og blóm

1.
Viðhorf okkar Japana til hversdagslífsins breyttist talsvert frá og með 11. mars á árinu 2011 þegar jarðskjálftar skóku Japan og flóðbylgjur fylgdu í kjölfarið.  Hvoru tveggja olli gríðarlegu tjóni. Þetta átti sér stað á ósköp venjulegum föstudagseftirmiðdegi og enginn átti von á þessu.

Um 20.000 manns létust eða er enn saknað. Bæir og þorp víða við strandlengjuna eyðilögðust. Hætta frá kjarnorkuverum gerði aðstæðurnar enn verri og hálf milljón manna neyddust til að flýja heimili sín rétt eftir hamfarirnar.

Að kvöldi sama dags og jarðskjálftarnir áttu sér stað hóf tvítugur strákur og háskólanemi í nágrenni hamfarasvæðisins lítið verkefni sem hann hafði fengið hugmynd að og átti eftir að vaxa. Svæðið þar sem hann bjó var algjörlega rafmagnlaust en með því að nota rafhlöður gat hann notað tölvuna sína og skoðað fréttir á netinu.

Þetta var eina leiðin fyrir svæðið til þess að hafa samband við umheiminn. Ungmennið fann að margir, jafnt innan Japans sem utan væru að deila tilfinningum sínum, hugsjónum og hvatningu með öðrum í gegnum samfélagsmiðla eins og Facebook og Twitter eða aðra netmiðla.

Þessi ,,komment" fólks á netinu voru ekki endilega hvatningarorð eða skilaboð til fólks á hamfarasvæðinu en hinum tvítuga dreng fannst að hann þyrfti að dreifa þeim af því að hann fann sjálfur fyrir umhyggju í gegnum þau og hvatningu. Hann byrjaði að safna saman ,,kommentum" og setti á eigin heimasíðu og innan fárra daga hafði margt fólk tekið óumbeðið þátt í verkefninu. Heimasíðan varð mjög þekkt undir heitinu ,,Bænir fyrir Japan" og var þýdd á 12 önnur tungumál fljótlega.

Þau orð sem fólk safnaði á heimasíðuna voru ekki fyrirlestrar, predikanir eða heimspeki, heldur muldur venjulegs fólks, pæling eða lítlar uppgötvanir sem það hafði gert í hversdagslífi sínu. Mig langar að segja ykkur frá nokkrum dæmum. Þessi orð voru sögð dagana eftir hamfarirnar, en ekki endilega á hamfarasvæðinu.

•Barn nokkurt var í biðröð fyrir framan kassa í búð, með nammi í hönd. En þegar barnið nálgaðist kassann, sá það samskotabauk, setti peningana í hann, skilaði namminu í hilluna og fór út. Kona í kassanum kallaði hlýtt að baki barnsins : ,,Takk kærlega fyrir þetta".

• Pabbi minn ætlar að fara í kjarnorkuverið í fyrramálið til að taka þátt í viðgerðum. Hann á að fara á ellilífeyri eftir hálft ár en hann bauð sig fram til þess hættulega verkefnis. Mér fannst alltaf pabbi vera ekki nógur traustur heima fyrir, en núna er ég stolt af honum og vona að hann komi aftur heim heill á húfi.

• Umferðin á vegum var mjög þung. Þegar kom að gatnamótum gátu aðeins einn eða tveir bílar farið yfir í einu á grænu ljósi. Ég var samtals í tíu klukkutíma í bílnum mínum á leiðinni heim, samt heyrði ég ekki bílhorn flauta vegna pirrings, jafnvel ekki einu sinni. Ég var hræddur við annan jarðskjálfta alla tímann í bílnum, en ég hreifst meira af þjóð minni en ég hafði gert lengi.

• Mamma mín, sem er látin núna, sagði mér eitt sinn: ,,Skortur verður á mat og dóti þegar fólk rænir hvert af öðru, en það verður nóg þegar fólk deilir hvert með öðru." Ég er stolt af ykkur á hamfarasvæðinu, sem hagið ykkur núna einmitt eins og mamma mín kenndi mér.

• Ég var þreyttur á brautarpalli þar sem ég beið eftir lestinni minni. Það var kalt, en biðin eftir lestinni var orðin að mörgum klukkutímum þar sem lestarkerfið hafði lamast eftir jarðskjálftann. Þá gaf heimilislaus maður mér, sem var daglega hangandi kringum járnbrautarstöðina, bylgjupappír sem hann var með og sagði: ,,Sestu á þetta. Þér hlýnar". Ég skammaðist mín, þar sem ég leit alltaf niður á hann. 

2.
Svona eru dæmi af síðunni ,,Bænir fyrir Japan". Mér finnst merkilegt að strákurinn sem opnaði þessa síðu hafi nefnt hana ,,Bænir fyrir Japan". Eins og við getum heyrt, er inntak þess ekki bæn til þess að biðja Guð um gera eitthvað handa okkur. Ég veit ekki hvort ungmennið var kristið eða ekki, líklegast ekki. 
Engu að síður hitti það alveg í mark í kristilegri merkingu að hann notaði heitið ,,Bænir fyrir Japan" að mínu mati. 

Af hverju? Af því að inntak þess er ekkert annað en vitnisburðar fólks um hlýju manna, iðrun, samstöðu og virðingu sem manneskjur sýndu af sér í ímynd guðsbarna. Hér birtist einmitt kjarni bænar okkar kristinna manna, sem er að leita Guðs ríkis og að fá svar við leitinni. 

Ég tel að við séum öll sammála um að það er erfitt verkefni að leita að Guðs ríki, þar sem við vitum ekki nákvæmilega hverju við eigum að leita að. En að leita Guðs ríkis er að fá að sjá hvernig Guð vinnur í hversdagslífi okkar og skilja hvernig Guð er að veita okkur náð sína nú þegar í ríkara mæli. Náð Guðs er þegar komin, ekki aðeins í kringum okkur, heldur líka inni í okkur sjálfum.

En í daglegum og hörðum raunveruleika lífsins, tökum við annað hvort ekki á móti náðinni eða vanrækjum að njóta hennar og nota hana fyrir náunga okkar, samt krefjumst meiri náðar af Guði. Það er nefnilega þess vegna að bæn okkar verður  sí og æ, jafnvel ómeðvitað, eins og að lýsingu að óskalista.

Sem betur fer, þó að við förum fram hjá þeirri náð sem Guð gaf okkur, höfum við ekki tapað þeirri náð enn. Og þegar við horfum upp á hrikalegar hamfarir eða upplifum að við séum að tapa öllu í lífi okkar, vöknum við allt í einu við náð Guðs sem er ennþá hjá okkur.

Ég segi aldrei að hamfarir eins og jarðskjálftarnir í Japan séu vilji Guðs. Þær eru sorglegar. En margar fallegar gjörðir fólksins - í Japan, á Íslandi og í heiminum - í kjölfar hamfara sem ýta undir samstöðu, umhyggju, hvatningu og endurskoðun fólks á sjálfu sér, eru eftir vilja Guðs.

Slík eru blóm sem fá næringu sína frá náð Guðs, og ekkert, jafnvel flóðbylgja eða sprenging eldfjalls, getur tekið þau í burtu. Þegar við sjáum slík blóm af fegurð manna, hættum við að hugsa um eigin óskalista.

Það er vegna þess að við sjáum þar svip Guðs ríkis og fáum staðfestingu á tilvist Guðs ríkis. Með því fáum við lækningu við sársauka, fyllingu fyrir tómleika í hjarta og frið innra okkur sjálfum.  Að passa blóm af fegurð manna vel og jafnframt að láta ný blóm opnast, er það ekki besta leiðin til að minnast fórnarlömbanna í Japan.  

Að lokum langar mig, sem japanskur einstaklingur á Íslandi, að þakka ykkur Íslendingum fyrir að sýna samstöðu með Japönum, umhyggju og fyrir framlög ykkar til hjálparstarfsins í Japan.
Guð sé með Japan, Íslandi og heiminum öllum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband