Hiroshima, Nagasaki....og ábyrgð okkar


1.  Fyrir 62 árum, hinn 6. ágúst 1945, var kjarnasprengju varpað á Hiroshimaborg. Þremur dögum síðar, þ.e. 9. ágúst, sprakk önnur kjarnasprengja í Nagasakiborg. Þetta var í fyrsta og eina skipti í sögu mannkyns að kjarnavopn voru notuð.

Víða í heiminum eru haldnar minningarathafnir vegna Hiroshima og Nagasaki. Af hverju? Ef við berum bara saman fjölda fórnarlamba dóu samtals tæplega 200.000 manns í Hiroshima og Nagasaki, en 85.000 íbúar voru drepnir í sprengjuárás á Tókyó aðfaranótt 9. mars sama ár. Ég held að sagan um Hiroshima og Nagasaki segi eitthvað sérstakt og umhugsunarvert, og snýst um eitthvað annað og meira en bara fjölda fórnarlamba, rétt eins og í Auschwits. Hvað er þá sérstakt við þessa atburði?

Í fyrsta lagi er þetta dæmi um hvernig menn notuðu nýjustu vísindakunnáttu og tækni til að eyðileggja líf annarra í hundraðþúsunda tali. Afleiðing þessarar kjarnorku kvelur enn börn og barnabörn fólksins sem lifði af.

Í öðru lagi er það ólíkt “venjulegum” styrjöldum að sigurvegarinn, í þessu tilfelli Bandaríkin, hafi í raun tapað siðferðilegum yfirburðum sínum með því að nota kjarnavopn. Hiroshima og Nagasaki kenna okkur meðal annars að sérhver menning heims, hvort sem hún telst sigurvegari eða ekki, getur ekki talið sig hafa siðferðilega yfirburði yfir öðrum menningarheimum. Sú þjóð sem varpaði kjarnasprengjum var ekki hin svokallaða “guðlausa þjóð” Sovétríkin, heldur hin “guðhræddu” Bandaríkin, þjóð sem sendi fjölda trúboða um allan heim. Það er vel þekkt að lúterskir prestar blessuðu B29 flugvél sem var að leggja af stað til Hiroshima.

Rétt eins og Auschwits sýndi Hiroshima mannkyninu að engin tiltekin menning, þ.á.m. trúarleg menning, væri yfir aðra hafin. Sú goðsögn á nýlendutímum sem taldi kristinn menningarheim gnæfa yfir alla aðra lagðist niður eftir árið 1945. Þá kom betur í ljós en nokkurn tímann áður að sjónarrönd menningarheimsins er siðferðilega jöfn og flöt fyrir alla.

Árið 1946, rétt eftir að Japan tapaði stríðinu, lýsti bandarísk kirkja yfir eftirfarandi; “Við skulum að byrja að iðrast ..... við játum það að notkun kjarnasprengna á Hiroshima og Nagasaki mun aldrei verða réttlæti í siðfræði mannkyns”.
Þessi yfirlýsing var ekki samþykkt af meirihluta bandarískra kirkna. Þrátt fyrir það minnir hún okkur enn þann dag í dag á mikilvægi sjálfsgagnrýni og gefur von um möguleika þróunar mannkyns. Í kjölfarið byrjaði reyndar bandarísk kirkja að senda trúboða til Japans sem friðarflytjendur. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þessum trúboðum leið að koma í hringiðu andúðar og haturs sjálfum sér. Árangur þeirra sem trúboðar var skiljanlega ekki mjög mikill. Hins vegar hafa þeir eflaust hjálpað Japönum að skilja að bandarískir menn væru ekki skrímsli, eins og þeim hafði verið kennt þar til þá.

2.  Í framhaldinu langar mig að skoða málið frá öðruvísi sjónarhorni en oft er gert. Tæplega 30 árum eftir ofangreinda yfirlýsingu bandarískrar kirkju sagði Japanskeisari Hirohito í viðtali við blaðamenn; “ Mér þykir miður hvernig fór í Hiroshima og Nagasaki. En þessir atburðir áttu sér í stað í hörðu stríði og þeir voru óhjákvæmilegir”. Þessi orð segja ekkert meira en að styrjöld stríði yfirleitt gegn almennri mannasiðfræði. A.m.k. sé ég ekki neitt sem varðar sjálfsgagnrýni Japans eða viðurkenningu á sekt Japana sem þátttakanda í stríðinu.

Mér sýnist að Hiroshima og Nagasaki séu orðnar eins konar “syndaaflausn” fyrir Japani. Yfirleitt er hugmynd Japana um Kyrrahafsstríð sú það var stríð gegn Bandaríkjunum sem endaði með kjarnasprengjum. Því meiri athygli og samúð sem fólk í heiminum hefur sýnt Japönum vegna Hiroshima og Nagasaki, þeim mun sterkar hafa Japanir upplifað sig sem fórnarlömb stríðsins. Er það rétt hjá Japönum að skilja söguna þannig?

Árið 1910 gerði Japan Kóreu að hluta lands síns. Kína varð einnig í raun nýlenda Japans árið 1932. Rétt eftir að Kyrrahafsstríð hófst byrjuðu japanskir hermenn að fara suður til Filippseyja og ríktu loks víða frá Índónesíu í austri til Burma (Myanmar) í vestri. Japan geymdi annars vegar ríkar náttúruauðlindir þessara landa, en krafðist þess um leið að Japönsk menning væri yfir menningu heimamanna hafin. Japanir neyddu m.a. íbúana til að læra japönsku.

Í stríðinu, þróun þess og ferli, jukust smám saman stríðsglæpir eða
glæpsamlegar gerðir af hálfu japanska hersins.Fjöldamorð og nauðganir í Nanking á árinu 1937 er kannski versta dæmið en fleiri en hundrað þúsund Kínverjar þ.á.m. venjulegir borgarar voru fórnarlömb.Annað dæmi er svo kallað “military sexual slavery”. Japanski herinn kallaði til konur í Kína eða í Koréu fyrir vændisþjónustu fyrir hermenn sína. Margar konur voru kóreskar og giskað er á að fjöldi þeirra hafi verið um tvö hundruð þúsund. Einnig voru gerðar líffræðilegar tilraunir á stríðsföngum í fangabúðum í Kína, t.d. á verkun vírusvopna.Málið er enn í rannsókn og ekki eru öll kurl komin til grafar en fjöldi fórnarlamba virðist að hafa verið fleiri en 3000.

Í samanburði við Hiroshima og Nagasaki tölum við Japanir of lítið um þessa hlið sögu okkar. Japönsk stjórnvöld reyna meira að segja að fela slíkt og vilja hætta að kenna skólabörnum þessi sögulegu atriði. Fyrir nokkrum árum leitt þessi villandi söguskoðun Japana til mikilla mótmæla í Suður- Kóreu. Slík mótmæli eru sjálfsögðu.

Þetta ber vitni um hvernig fólk og þjóðir “velja” sér sögu og staðreyndir til að segja næstu kynslóðum. Slík saga sem er “valin” að geðþótta og eftir því sem hentar sjálfsmynd þjóðar er ekki endilega í samræmi við sannleikann, a.m.k. ekki allan sannleikann. Ofangreint atriði endurspeglar fyrirlitningu og fordóma Japana gagnvart öðrum Asíubúum. Kennsla á sögu eigin þjóðar hefur mikil áhrif á ungu kynslóðina og mótar sjálfsmynd hennar. Japönsk yfirvöld hafa þegar framið stríðsglæpi gagnvart nágrannalöndum sínum.

Ef þau “velja” villandi sögukennslu og endurframleiða fordóma meðal ungrar kynslóðar, er það ekki annar ítrekaður glæpur? Eru svona viðhorf ekki einnig svik til allra í heiminum sem vilja íhuga Hiroshima og Nagasaki? Við Japanir verðum að velta málinu fyrir okkur. Japanir geta ekki verið stoltir af sjálfum sér með því aðeins að framleiða tölvur og selja bíla. Það er nauðsynleg að sýna hugrekki til að viðurkenna sögu okkar í heild sinni.

Mér þýkir vænt um að Íslendingar halda minningarathöfn vegna Hiroshima og Nagasaki. Við verðum að íhuga hvað hægt er að gera til að hindra að “önnur Hiroshima” eigi sér í stað í sögu mannkyns. Til þess, verðum við öll í heiminum að horfa á eigin sögu í hreinskilni og kenna næstkomandi kynslóð um hana. Þetta á eins við um Íslendinga sem aðrar þjóðir heims.
Guð hjálpi okkur í þessu mikilvæga verkefni.


* Ég skrifaði ofangreinda grein fyrst á árinu 2001 og birti hana á ýmsum vefsiðum síðan.  Þetta er eitt af nokkrum efni sem mig langar til að taka upp í hverju tækifæri.

   Ég vil minna ykkur líka á kertafleytingu þann 9. ágústa (á fimmtudaginn) kl.22:30.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju gafst japanski herinn ekki hreinlega upp og bjargaði þannig lífi margra saklausra borgara? Hvað hefði það kostað mörg mannslíf hermanna vesturveldanna ef ráðist hefði verið inn í Japan? Viltu ekki hugleiða þessar staðreyndir?

GEIR (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 10:52

2 Smámynd: Toshiki Toma

Sæll, Geir. Þakka þér fyrir athugasemdina þína.
Ég túlka athugasemd þína þannig að þér finnst notkun kjarnavopn á Hiroshima og Nagasaki réttlætast þegar við vegum málið miðað við (ágiskaðar) aðstæður þegar það hefði ekki verið notað.
Það er ekki aðalatriði í hugleiðingu minni. Það sem ég segi í henni er: 1. Notkun kjarnavopn þýddi meira en bara “military action”, heldur hún hefur opnað mjög hættulegar dyrar fyrir okkur mannkyn, 2. Sérhver þjóð vill búa til sögu sem hentar sér, en við þurfum að bera ábyrgð á því að varðveita sögulega “kenningu” þó að hún gæti stungið hjarta okkar.
Af hverju gafst Japan ekki fyrr en Hiroshima og Nagasaki? Ég hugsa oft frekar um af hverju skríðið hófst upphafslega.


Toshiki Toma, 6.8.2007 kl. 14:17

3 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Takk fyrir afskaplega góðan pistil og það er mikilvægt að fá fólk til að hugsa um þessi mál, öllum þjóðum, stórum sem smáum er hollt að að horfa á eigin gjörðir með gagnrýnum huga og reyna ekki að fela það fyrir næstu kynslóðum sem miður hefur farið.

Mín skoðun er að það hafi verið alger óþarfi að nota kjarnorkusprengjurnar, og í raun einn versti glæpur gegn mannkyni sem framin hefur verið í sögunni. En það eru margir mér ósammála um það, sérstaklega eldri kynslóðir. Það er margt sem bendir til þess og styður það að Japanir voru við það að gefast upp, þrátt fyrir þrjósku eintakra hershöfðingja og ráðamanna. Seinni sprengjuna, sem var víst aðeins öðruvísi hönnuð, verður ALLDREI hægt að réttlæta með nokkru móti, þar var fyrst og fremt um hræðilega tilraun að ræða, til að sjá mismuninn á skaðanum sem hvor gerð sprengjanna fyrir sig ylli á fólki og byggingum.

Georg P Sveinbjörnsson, 6.8.2007 kl. 14:21

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er heiðarlegt af þér að skoða hlut Japana í kúgun á öðrum þjóðum og tregðu þeirra við að taka á sig ábyrgð á þeim hörmungum sem ÞEIR ollu sjálfir. Ég held reyndar að engin þjóð sé öðrum betri eða verri. En stríð er alltaf af hinu illa. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.8.2007 kl. 16:05

5 identicon

Vil þakka þér fyrir þessa áhugaverðu grein - hafði ekki lesið hana á sínum tíma - og hugleiðingar þínar um það hvernig menn reyna að vinna úr svona ægilegum atburði.

Jón Helgi Þórarinsson (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 16:56

6 Smámynd: Linda

Þegar ég var yngri og bjó í Bna og maður var fullur af sjálfsumgleði og hroka, því heimurinn snérist um mann sjálfan, "Young, beautiful, strong and immortal"  maður hugsaði aldrei um dauðan sem eitthvað sem mundi banka upp á hjá manni sjálfum heldur var dauðinn alltaf að heimsækja aðra.

Ég man ekki hvað var í gangi í BNA enn ég man að maður varð rosalega reiður yfir atburðinum sem átti sér stað erlendis, ég sagði í reiði og sjálfsréttlætingu "nuke the bastards, then they won´t be a problem" eitthvað í þá átt.  Yfirmaðurinn heyrði í mér og hristi höfuðið og labbaði í burtu.  Næsta dag var bók á borðinu um atburðina í Hroshima og Nagasaki. Ég hef aldrei á ævinni skammast mín eins mikið, ég grét yfir myndunum af þjáningu þeirra sem höfðu upplifað þetta atburð, ég baðst afsökunar á orðum mínum. Sjáðu til ég vissi um Helförin vegna þess að ég er alin upp við það, amma heitin sagði mér frá hvað Þjóðverjarnir höfðu gert þetta var þegar ég var táningur og enn á Íslandi.  Í Bna lærði ég um Pearl Harbor og áherslan var á þann atburð. Yfirmaðurinn var ekki Japanskur.

Ég lærði world history í Menntó, það var varla snert á þessari sögu, hún fékk ekki meiri eða minni áherslu enn Helförin.  Þetta segir svo mikið, ef við tökum ekki hörmungarnar í mannkynsögunni og leggjum áherslu á mannvonskuna, hvernig getum við þá komið í veg fyrir að slíkt komi fyrir aftur, sérstaklega ef fólk áttar sig ekki á því hversu miklar hörmungar áttu sér stað?  Ég held að við getum það ekki, þess vegna er svo mikilvægt að gleyma ekki Hiroshíma eða Nagasaki, eða Helförinni, þetta minnir okkur á hvað við getum gert hvort öðru.

Þakka þér fyrir að minna okkur á þennan atburð.

Linda, 6.8.2007 kl. 16:59

7 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það er fátt sem veldur þjóðum meiri og langvarandi sorg en fjöldamorð annarra þjóða á eigin þegnum, þannig sýður reiðin og sorgin í Kínverjum út í Japani. Reiðin felst í því að það eru innlend stjórnvöld sem hafa einkarétt á að drepa eigin þegna. Sami maður verður því miður ekki nema einusinni myrtur hvað þá að hann fjölgi sér eftir það, þannig gengu hundruð þúsunda Kínverja úr greipum eigin stjórnar. Þetta er svona svipað og að eiginmenn hafa einkarétt á að berja konu sína.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.8.2007 kl. 19:36

8 Smámynd: halkatla

þetta er líka góð og þörf grein, takk fyrir hana. 

halkatla, 6.8.2007 kl. 21:05

9 Smámynd: Alvy Singer

"Japanir neyddu m.a. íbúana til að læra japönsku." - neyddu m.a. íbúana til að læra japönsku? - og bíddu gerðu þeir ekki eitthvað meira og verra í Kína? Eða valdir þú að segja ekki frá því.

Þrátt fyrir að þú hafir sleppt því að minnast á suma hluti þá er þetta fín grein hjá þér.  

Alvy Singer, 6.8.2007 kl. 23:07

10 Smámynd: Ár & síð

Margir fínir punktar koma hér fram og þótt "Alvy" finnist eitthvað vanta er óhjákvæmilegt að svo sé.
Hér eru hins vegar nokkrar vangaveltur manns sem heimsótt hefur sprengjusöfnin í báðum borgum.
* Hefði sprengjunni sem varpað var á Hírósíma í raun verið ætlað að binda enda á stríðið, hvers vegna var henni þá ekki varpað á risastóra flotastöð í útjaðri borgarinnar heldur á almenna borgara í miðbænum? Það hefði þó skaðað japanska herinn miklu meira?
*  Ætli það sé hrein tilviljun að úransprengju var varpað á Hírósíma en plútonsprengju á Nagasaki? Nei, væntanlega var verið að gera tilraunir með þessi tvö efni.
* Sprengjan frá hinum kristnu Bandaríkjamönnum (og Bretum líka, ekki gleyma þeirra þætti í málinu) sem féll á Nagasaki lenti því sem næst lóðbeint á dómkirkju kristinna Japana í borg sem löngum hafði verið gluggi þjóðarinnar mót Vesturlöndum. Þar var þá stærsti kristni söfnuður landsins og er kannski enn.
* Í Japan ríkti lengi fréttabann um hvað í raun hafði gerst í þessum tveimur borgum og það orsakaði miklar og langvarandi andlegar hörmungar fyrir íbúana sem voru í raun útskúfaðir af eigin þjóð.
* Það er eiginlega sama frá hvaða hlið litið er á þessar árásir, þær voru algjör níðings- og grimmdarverk. Mér þótti lengi friðaráhugi Japana barnslegur og naív en eftir þessa ferð skil ég betur við hvað er átt og hvers vegna.

Ár & síð, 6.8.2007 kl. 23:30

11 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Af því að mér finnst Íslendingar oft svo borubrattir í sambandi við umræður um stríð, og látum eins og við séum svo allt annarrar gerðar en þessar stríðandi þjóðir; teljum okkur yfir það hafin og allt of gáfuð og vel að okkur til að taka þátt í stríði, þá dettur mér í hug þegar menn eru að tala um að það verði að vera hér þotur, eða annað slíkt, okkur til varnar - núna fyrst ´herinn okkar´, þessi bandaríski, er farinn.

Af hverju viljum við e-ð okkur til varnar? Er það bara ekki mjög eðlilegt? Er það ekki til að verja hagsmuni okkar? En er það ekki akkúrat sú hugsun sem oft er grundvöllur stríðs? Að menn eru að verja hagsmuni sína?
Þá segja kannski sumir að það sé annað að verja sig ef á mann er ráðist, heldur en að ráðast beint á aðra, en er það í rauninni ekki sama grundvallarhugsunin sem liggur oft að baki hjá þeim sem stríða? T.d. með innrásinni í Írak? Var það ekki borið á borð þannig fyrir almenning að verið væri að verja hendur sínar? Koma í veg fyrir yfirvofandi árás?

Ég held að um leið og menn eru búnir að taka sér vopn í hönd og læra að nota það gegn öðrum mönnum þá sé aðeins stigsmunur en ekki eðlis hvort það verður notað til varna eða árása. Það er ekki erfitt að rugla í hausnum á fólki, ef sú staða kemur upp, og láta það halda að það hafi réttinn sín megin. Þannig er það alltaf gert.

Mér þætti gaman að vita hvort Íslendingar brygðust við af sömu stóísku rónni, og sama yfirlætinu, ef fjölskyldur þeirra og ættingjar væru drepin í massavís. Ætli við værum þá ekki meir en tilbúin að grípa til þeirra vopna sem við hefðum, og gjalda líku líkt?
Ég hugsa það.

Ég tel í það minnsta að við ættum að stíga aðeins niður af þessum stalli sem við virðumst svo oft standa á þegar umræður um stríð ber á góma.
Við erum ekkert öðruvísi  en annað fólk.
Og athugið að það eru ekki ómenntaðir menn sem standa fyrir stríðum yfirleitt, né að þeir sem fylla raðir hermanna séu allir án menntunar og illa upplýstir, svo ekki getum við notað hátt menntunarstig sem rök fyrir því að ´við myndum aldrei gera svonalagað´.

En ég játa það að ég hef ekki fylgst vel hvaða umræður eða hugmyndir eru í gangi varðandi varnarmál okkar Íslendinga. Og ekki er ég vel að mér í sögu Íslands og hvernig stendur á því að við höfum ekki átt her og verið í stríði. Dettur í hug að við höfum bara verið blönk. Dettur nú í hug Þorskastríðið, þar sem hinir töldu sig eiga rétt á að veiða fisk, en við vorum nefnilega að stækka landhelgina, var það ekki? Þarna töldu báðir aðilar sig hafa rétt fyrir sér, en auðvitað vorum það við sem höfðum rétt fyrir okkur. Og við unnum. Og það þýðir að við höfðum rétt fyrir okkur allan tímann. Ekki satt?

Í það minnsta sýnist mér við, sem þjóð, ekki hafa mikla glóru um hvað stríð raunverulega er, og held við ættum að miða yfirlýsingar okkar við það og íhuga jafnframt hvort við séum í raun sú friðelskandi þjóð sem við teljum okkur vera.

gerður rósa gunnarsdóttir, 6.8.2007 kl. 23:43

12 Smámynd: Toshiki Toma

Ég vil þakka fyrir öllu góðu og fróðlegu athugasemdirnar.
Mér finnst sjálfum ábendingin hans Alvy vera mjög þörf og nauðsynleg. Þar sem ég er að skrifa mikilvægi að varðveita sögu sem “sögu” án þess að afbaka hana eða fela, ef ég orða ekki um stríðsglæpi/stríðsglæpsamleg gerðir af japönskum hernum (þó að ég geti ekki talið allt fram), væri allt hallærislegt hjá mér. Þessi galli átti sér stað ekki vegna þess að ég vildi ekki snerta stríðsglæpi af japönskum hernum, heldur vegna þess ég misskildi þannig að fólkið vissi um þá vel og ég þyrfti ekki að segja frá þeim sérstaklega.
Í samræmi við aðra hluta hugleiðingarinnar minnar finnst mér nauðsynlegt að koma fram a.m.k.
• fjölmorð og nauðgun (fjöldi fórnalamba virðist að hafa verið fleiri en hundraðþúsund) gagnvart Kínverjum þ.á.m. venjulegum borgaranum í Nanking á árinu 1937,
• svo kallað “military sexual slavery” (konur sem voru kallaðar til hers fyrir vændisþjónustu. Margar konur voru kóreskar og fjöldinn var giskaður á að hafa verið samtals tvö hundraðþúsund)
• eða líffræðileg tilraun á stríðsfanga vegna rannsóknar vírusvopns í Kína (fjöldi fórnalamba virðist að hafa verið fleiri en 3.000).



Toshiki Toma, 7.8.2007 kl. 05:23

13 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Gott innlegg og ekki síður athugasemdirnar. Við erum alltaf að læra.

Edda Agnarsdóttir, 7.8.2007 kl. 08:17

14 Smámynd: Toshiki Toma

Ég bætti línur um stríðsglæpi af japönskum hernum í blogg- færsluna.

Toshiki Toma, 7.8.2007 kl. 23:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband