18.10.2007 | 11:03
Einlæg umræða um framtíð þjóðkirkjunnar óskast
Samkynhneigð, vinaleið og aðskilnaður frá ríkinu eru meðal mála sem hafa verið mikið í samfélagsumræðunni um þjóðkirkjuna undanfarna daga. Í henni hafa ýmis viðhorf til kirkjunnar birst. Mér sýnist raddir úr samfélaginu oftast harðar og fullar af gagnrýni í garð þjóðkirkjunnar. Mig langar til að skjóta inn, í tíma, nokkrum línum um framtíðarsýn þjóðkirkjunnar.
Áður en ég tjái skoðun mína, tel ég rétt að segja frá því hvernig ég tengist þjóðkirkjunni. Í fyrsta lagi er ég þjónandi prestur þjóðkirkjunnar, ég fæ laun fyrir störf mín þar og er því beinn hagsmunaaðili. Hins vegar fékk ég köllun mína og hlaut menntun sem prestur í kirkju í Japan og er þess vegna ég ekki svo sterklega bundinn við hugtakið þjóðkirkja. Hvort kirkja sé þjóðkirkja eða ekki, er fyrir mér tæknilegt mál, en hvorki trúmál né hjartans mál.
Það er stundum sagt að glöggt sé gests augað og fyrir mig var ,,þjóðkirkja ekki sjálfsögð eins og fyrir marga Íslendinga þegar ég kom hingað til lands fyrir 15 árum en síðar lærði ég um það stóra hlutverk sem hún lék í sögu Íslands. Mér skilst t.d. að þjóðkirkjan hafi verið ein þeirra stofnana sem stóðu vörð um íslenska tungu þegar þjóðin var undir stjórn Danmerkur. Þá voru engar útvarps- eða sjónvarpsútsendingar eins og í dag og messur voru mikilvægir miðlar sem héldu við og varðveittu íslenska tungu á meðal Íslendinga.
Margir prestar færðu einnig sögu Íslands í letur fyrir almenning, ortu ljóð um landið og sáu um kennslu ungmenna. Þjóðkirkjan hafði einnig frumkvæði þegar þurfti að bregðast við náttúruhamförum eða halda stórviðburði eins og þjóðhátíðir. Þetta eru bara fáein dæmi sem sýna að þjóðkirkjan hefur að vissu leyti verið meira en bara trúfélag í hefðbundinni merkingu þess orðs.
Þegar þjóðin hlaut sjálfstæði árið 1944 þá hlaut það að vera eðlilegt framhald af sögunni að setja þar ákvæði um ,,þjóðkirkju. Núna í dag starfar þjóðkirkja og þjónar samkvæmt þessu ákveðna stjórnsýslukerfi og ég tel til þess að umræðan um framhaldið og framtíðarsýnina verði markviss verðum við að viðurkenna þetta atriði.
Þegar ég fylgist með umræðum sem varðar þjóðkirkjuna þessa dagana, þykir mér leitt að í gagnrýninni er oftast blandað saman ábendingum um kerfisgalla og einstaklingsbundinni tilfinningalegri andúð.
Mér finnst t.d. alveg rétt að benda á mál, eins og og í hvaða málefni eigi að verja skatttekjum, ef viðkomandi finnst þar ríkja einhvers konar óréttlæti. Það er sjálfsagt mál að taka málið upp, kanna og ræða. Hins vegar finnst mér ekki réttlætanlegt að ræða málin eins og starfsmenn kirkjunnar séu að svíkja fé af almenningi og því glæpamenn. Það gæti verið gott tækifæri fyrir suma til þess að fá útrás fyrir andúð sína gagnvart kirkjunni en það er alls ekki réttmætt. Slík viðhorf er ein af ástæðum þess að erfiðara er að halda upp málefnalegri umræðu fyrir alla.
En hvað um framtíðarsýn þjóðkirkjunnar? Ég held það sé alveg sjálfsagt að við endurskoðum gamla kerfið og gerum það að betra kerfi sem passar núverandi og verðandi aðstæðum samfélagsins. Þjóðkirkjukerfið er ekki undantekning frá því og það getur ekki gengið á sama hátt og áður aðeins vegna framlags síns í fortíðinni.
Persónulega sýnist mér skýrt í hvaða átt þjóðkirkjan verður að fara í framtíðinni. Það stríðir að mörgu leyti gegn þróun mannréttindahugmynda að stjórnskráin skuli gefa einu ákveðnu trúfélagi sérstöðu sem ,,þjóðartrú (Ég er samt ekki sammála því áliti að aðskilnaður kirkjunnar frá ríkinu yki beint trúfrelsi hérlendis og ég bíð eftir næsta tækifæri til að tjá mig um það atriði).
Eins og ég sagði hér að ofan, þá tel ég að þjóðkirkjukerfið snúist ekki trúmál heldur hvort hún sé hluti af samfélagskerfi. Að mínu mati þarf það ekki að vera neikvætt þótt þjóðkirkjan fari út úr þessu samfélagskerfi eða afsali sér sérstöðu sinni í stjórnarskránni en að sjálfssögðu munu því fylgja ýmis vandkvæði.
Mér finnst löngu tímabært að setja sérnefnd í stjórnvöldum til þess að fjalla um ,,aðskilnað kirkjunnar frá ríkinu á málefnalegan hátt og kanna kosti þess og galla.
Það er fordæmi fyrir því að þjóðkirkja hætti að vera þjóðkirkja, eins og t.d. sænska kirkjan sem steig það skref árið 2000. Af hverju eigum við ekki að skoða þetta dæmi málefnislega og safna upplýsingum og álitum? Síðan mun verða hægt að setja áþreifanlega tímaáætlun til þess að framkvæma aðskilnaðinn, ef það er vilji Íslendinga.
Að lokum langar mig til að ítreka að mál um þjóðkirkjukerfið er ekki trúmál, heldur er það mál um samfélagskerfi sem varðar hagsmuni allra. Og því er þetta alls ekki mál eins og hvort kirkjan sé góð eða vond, eða hvort kirkjan sigrar eða tapar. Ég óska innilega þess að málið komist í almennilega umræðubraut.
(Fyrst birtist í Mbl. 30. september 2007)
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Fyrir mig getur kirkja ekki verið kirkja á meðan hún er í sama rúmi og ríkið og eða fær peninga frá ríki svo ég tali ekki um að hún+biskup sé að skipta sér af störfum alþingis og annara trúfélaga, það er hneyksli sem á ekki að líðast í nútíma þjóðfélagi...
Ég nenni ekki að telja upp meira en það að vera ríkiskirkja verður banamein hennar, það er algerlega ljóst
Þú er svalur Toshiki!
DoctorE (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 12:46
sæll
Þú talar um "tilfinningalega andúð" þeirra sem andmæla Þjóðkirkjunni. Hefur þú kynnt þér málstað þeirra? Hefur þú t.d. lesið einhverjar greinar á Vantrú.is?
Auðvitað koma tilfinningar inn í myndina, það hefur t.d. áhrif á tilfinningar mínar þegar Þjóðkirkjan stendur fyrir trúboði í leikskóla barna minna. Finnst þér óeðlilegt að slíkt vekji tilfinningar?
En málflutningar okkar sem andmælum Þjóðkirkjunni byggist ekki á tilfinningum heldur rökum. Auðvitað erum við stundum reið, en þú værir það líka ef þú værir í sömu stöðu og við.
Mér finnst óskaplega leiðinlegt þegar málstaður þeirra sem benda á yfirgang Þjóðkirkjunnar er afgreiddur sem tilfinningarleg andúð. Með sömu aðferð má afgreiða málstað allra sem mótmæla einhverju, það segir sig sjáflt að fólk mótmælir ekki nema hafa tilfinningar til málefnisins.
Matthías Ásgeirsson, 18.10.2007 kl. 14:47
Ég tel mig ekki sérstaklega trúaða, mér finnst trúarbrögð mjög falleg og boðskapurinn yfirleitt góður(þó til sé fólk sem nýtir sér trú annarra).
Mér finnst kirkjur fallegar menningarbyggingar og gott að koma inn og finna friðin og tignarleikan sem fylgja slíkum byggingum.
Þegar einhver nákomin mér deyr, finnst mér gott að geta farið í kirkju og kvatt ástvini mína.
Þegar einhver eignast barn, giftir sig eða fermist finnst mér hátíðlegt og gott að geta fagnað á slíkan hátt sem kirkjan bíður upp á.
Kirkjan býður huggunarorð og ráðleggingar varðandi lífið. Mér finnst gott að vita til þess að Kirkjan býður upp á gott starf, s.s. starf með unglingum, hjónabandsráðgjöf, þeim sem minna mega sín, kórar ofl. Uppbyggilegt.
Það er gott að vita að hægt er að leita til presta þegar upp kemur mikil sorg.
Þrátt fyrir að ég samþykki ekki allt sem sagt er og fer sjaldan í krikju, þykir mér vænt um kirkjuna hér á landi og þá starfsemi sem fylgir henni. Þess vegna vil ég halda krikjunni innan ríkisins. Mér þætti miður að sjá þessa starfsemi deyja út.
Það sem mætti bæta er að allir séu velkomnir, líka þeir sem eru samkynhneygðir.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 18.10.2007 kl. 15:04
Ég segi það hreint út og tek undir með Matthíasi, mér finnst alger viðbjóður að trúarstofnanir laumi sér að börnum mímum í leik og grunnskóla, það er alger óhæfa og viðurstyggð og fyrir mér er það eitt grófasta mannréttindabrot sem ég get hugsað mér
DoctorE (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 15:15
Mér finnst sjálfsagt að kenna trúarbragðafræði almennt, þannig börn geti svo valið sína trú, þegar þau hafa lært nóg. En mér finnst kristnifræði eiga heima í krikjum ekki skólum.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 18.10.2007 kl. 15:24
Ég er sammála mörgu sem þú segir og þakka góðan pistil. Mig langar líka að víkja að öðru atriði - það er að oft hef ég setið fundi þar sem fjallað er um aðskilnað ríkis og kirkju - en ekki fundið mig á þeim fundum.
Ástæðan er sú að ég er kristin - iðka mína trú og starfa innan þjóðkirkjunnar - ég er hins vegar algjörlega fylgjandi þessum aðskilnaði. Það er mér erfitt að sitja á fundum um þetta mál þegar margir nota tækifærið og gera lítið úr minni trú og tjá sig um málefni trúarinnar en ekki þjóðkirkjunnar.
Ég vil ræða um stofnunina og ástæður þess að hún er hjá ríkinu en ekki um trúnna á slíkum fundum, ég vil taka þátt í málefnalegum umræðum en ekki sitja undir skotum um "himnadrauginn" og annað í þeim dúr.
Ég er 100% sammála DoktorE hér að ofan að ég held að banamein kirkjunnar sé sú tenging sem hún hefur við ríkið. Það er mín staðfasta trú að kirkjan muni blómstra þegar skorið verður á þau tengsl sem þar eru á milli.
kv. Hjördís
Hjördís (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 18:11
Kæru bloggvinir,
þakka ykkur fyrir góðu athigasemdirnar. Mér finnst eðlilegt að fólk sé með mismunadi skoðun á þetta umræðuefni.
Ég geri bara eina athugasemd frá mér við Matthías. Þegar ég segi "tilfinningarlega andúð" á ég ekki við sérstaklega málfluting hjá Vantrú eða Siment. Ég segi bara almment um andúð sem ég sé í viðbrögðum fólks sem ég sé eða heyri. Ég hef aldrei sagt í pistli mínum eins og að Vantrúfólk talar bara tilefinningarlega án raka.
Toshiki Toma, 18.10.2007 kl. 18:46
Nanna Katrín lýsti því vel hvernig það er að eiga kirkjuna að ég er svo sammála henni. Barnatrúin er gott veganesti að mínu mati. Voðalegt vesen hvað margir trúarbragðafræðingar leiknir og lærðir flækja málin til að vekja deilur og leiðindi. Skil heldur ekki hvernig kennsla í kristinni siðfræði geti verið viðbjóður og mannréttindabrot.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 18.10.2007 kl. 22:07
Þórdís þetta er svona dæmi sem fólk þarf að setja sig í spor annara sem eru ekki sömu trúar og þú, kannski erfitt fyrir suma en eina leiðin til þess að sjá brotið fyrir marga.
Heimspekileg yfirferð á trúarbrögðum er eina rétta leiðin ef þetta á að vera í skólum á annað borð
DoctorE (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 10:37
Tek undir með þeim sem leggja fram rök á móti trúboð, sem er kölluð fræðslu í skólum. Norska ríkið var nýlega sakfellt í Mannréttindadómstólnum ( að mig minnir) fyrir það fyrirkomulag í "kristni- og trúarbragðafræðslu" sem þar er, og er það sennilega ögn fjölmenningarlegri en hér á landi. Þá er það mjög óeðlilegt að ekki lifsskoðunarfélag sem styðja mannréttindasáttmála SÞ fái ekki sóknargjöld. Þetta er gróf mismunun. Ennfremur hefur kristni allt of mikið vægi í hinu opinbera lífi, í Ríkisútvarpinu og fleira.
En ég er ekki viss um að það sé nauðsýnlega það besta að aðskilja ríki og kirkju. Krikjan má allvega njóta verndar sem menningarstofnun og miklivægt athvarf og stofnun við athöfnum í lífi margra. Og eins og greinilega hefur komið fram í umræðunni í Noregi, þá getur verið kostur að kjörnir fulltrúar hafi eitthvert vald yfir stærsta trúarsöfnuninni, á meðan stór meirhluti landsmanna er þarna skráðir og verða óbeint rukkaðir fyrir sóknargjaldi. Það er eðlilegt að alþingismenn hafa eitthvað um það að segja hvernig stór hluti skattpeningana sé varið, og að valdið sem kirkjur og prestar hafa yfir fólki verði ekki misnotað.
En umræður á bloggsíðum ná aldrei sértsaklega djúpt. Ef umræður verða miklar, eiga þeir það til að fara í hringi. Mögulega væri athugandi að bæta við efni um þetta í greininni um þjóðkirkjuna í Wikipedia. Þar er sér bolkur sem heitir "Samband eða aðskilnaður ríkis og kirkju". Fyrir þá sem lesa norsku má benda á að margt hefur verið rætt og frumvarpsskýrslur og aðrar opinberar skýrslur hafa verið unnar. Það má til dæmis byrja á vefsíðum norska stjórnarráðsins. Svíar hafa og rætt þessu vandlega undanfarin ár. Í ölum löndunum hefur komið fram að þetta snýst til dæmis um trú, lýðræði, réttlæti, hefð, völd, peninga, jarðir og nærsamfélög, byggingar og menning.
Morten Lange, 20.10.2007 kl. 00:26
Sæl og blessuð, kæru bloggvinir.
Morten, takk fyrir áþreifanlegu athugasemdina þína. Ég get ekki skoðað siðurnar sem þú bendir á núna strax, en mun gera það á eftir. Takk!
Toshiki Toma, 20.10.2007 kl. 12:49