Gegn glæpum... eða útlendingum?


Þegar fólk af erlendum uppruna fremur afbrot á Íslandi virðist sem það sé nær undantekningarlaust greint frá uppruna afbrotamannanna í fréttum.   Nýlegt dæmi er frá páskahelginni þegar nokkrir Pólverjar réðust á samlanda sína í Breiðholtinu.  

Þegar slík tilfelli eiga sér stað þar sem útlendingur er hlutaðeigandi í sakamáli heyrast sterkar raddir í þjóðfélaginu eins og ,,nú er nóg, við skulum loka Íslandi fyrir útlendingum“ eða ,, sjáið hvað er að gerast hérlendis, að vera á móti útlendingum er sjálfsagt viðhorf en alls ekki fordómafullt“. Mér sýnist að umræðan sem skapast um glæpi sem framdir eru af útlendingum leiði til enn frekari neikvæðs viðhorfs í garð útlendinga eða innflytjanda almennt.  Enn á slíkt rétt á sér?
 

Fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi á árinu 2007 var um 21.500 og hafði sú tala næstum tvöfaldast frá árinu 2006.  Fjöldi Pólverja (sem eru ekki búnir að öðlast íslenskan ríkisborgararétt) er núna rúmlega 8.000 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. 72% af þessum útlendingum eru frá EES löndum sem geta ferðast frjálsir innan EES landanna.Ég held að það sé kannski tölfræðilega eðlilegt að glæpum fjölgi eftir því sem fólksfjöldi í landinu eykst.       

Við viljum og eigum ekki að sætta okkur við aukna glæpatíðni en hins vegar verður umræðan að snúast um kjarna málsins.   Það skiptir engu máli hvort það er  Íslendingur eða útlendingur sem fremur glæp,  heldur snýst málið um afbrotið fyrst og fremst.   Við heyrum nær daglega í fréttum af slagsmálum, eiturlyfjaneyslu eða kynferðislegu ofbeldi, glæpum sem framdir eru af Íslendingum. 
En hugsum við þá að allir Íslendingar séu að selja eiturlyf eða að allir Íslendingar séu ofbeldismenn? Auðvitað ekki, af því að lang flestir Íslendingar eru ekki slíkir.  Af hverju byrja þá margir að saka ,,alla innflytjendur“ um afbrot þegar fréttir berast af útlendingum sem staðnir eru að refsiverðu athæfi.  Er slíkt viðhorf rökstutt?
 

Ef maður aðhyllist þá skoðun án þess að hugsa sig vel um, þá er hugsunin farin villu vega. Ef maður heldur meðvitað fram slíku viðhorfi þrátt fyrir skort á rökstuðningi, þá er maður fordómafullur gagnvart útlendingum. Og ef maður heldur áfram í þeirri villu eða fordómafullu leið, getur maður ekki lagt neitt til átaks gegn glæpum og glæpamönnum, þar sem skotmarkið er rangt frá upphafi.


Átak gegn glæpum og glæpamönnum er bæði nauðsynlegt og mikilvægt. En það er alls ekki sama og átak gegn útlendingum og innflytjendum. Við verðum að halda í þá staðreynd og megum ekki missa sjónar af því sem málið snýst um.

- birtist í 24 stundum 29.mars -


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Las einmitt greinina með áfergju í morgun ;) Stórfín og sannarlega mikilvægt innlegg

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 29.3.2008 kl. 11:38

2 identicon

Ég held að Íslendingar vilji ekki þessa viðbót. Maður hefur heyrt fólk segja; Við eigum nóg með okkar glæpamenn, óþarfi að flytja inn fleiri. Það að segja frá þjóðerni glæpamanna er sjálfsagt mál. Það tíðkast í öllum þeim löndum sem við miðum okkur við. Það er mikilvægt fyrir Íslendinginn að fá allar þær upplýsingar um það sem er að
gerast í þjóðfélaginu, slæmar sem góðar. Ég vil vita hvernig þjóðfélagið mitt er að
þróast.

Steingrímur (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 12:02

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er ekki rasismi að vilja eiga sitt land sjálfur og geta boðið gestum og gangandi í heimsókn en að fá slóð 20 til 30 þúsund farandverkamenn og það sem þeim fylgir. Það fylgja allstaðar dópkóngar og gleðikonur og aðrir glæpamenn í kjölfar farandverkamönnum. Eins og svartidauði fylgir Rottum. Þetta er viss formúla. Meðal þessara glæpona eru vinnumiðlarar sem selja mönnum erlendis vinnuumsóknir á dýru verði og jafnvel láta verkamenn skrifa undir contract og fá frýja ferð til íslands. Nái þessir verkamenn vinnu framhjá erlendu vinnumiðlurunum sem búa hér þá fá þeir að kenna á því. OK

Já brotist inn á það og lamdir nær til dauða. Já ég vil eiga mitt land sjálfur. túrista/gestir ok. Eðlilegar giftingar innbyrðis OK aðrir s.s. erlendar gleðikonur og dópkóngar og óforprúttnir vinnumiðlarar, burt!!!Burt. Ég er ekki rasisti. Ég vil engan nema fjöldskyldu og vini á mitt heimili sama gildir með landið mitt. 

Valdimar Samúelsson, 29.3.2008 kl. 12:46

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Aftur Thosiki. No offence. Þetta snýst allt um útlendinga. Þegar útlendingur hagar sér ósæmilega í einhverju landi þá er það mál sem ekki á að blanda saman við heimamenn. Menn sem eru ekki í sínu heimalandi skulu haga sé kurteislega og virða lög og reglur einnig trúarbrögð landsmanna. Þetta er í öllum löndum sem ég hef komið til og hef unnið alla mína tíð erlendis en  þetta sérstaklega kennt í ameríska hernum. Sjálfsagt í öðrum herjum líka. Virða skal heimamenn og þeirra siði. Það á alltaf að tilkynna í fjölmiðlum ef erlendir haga sér illa. Það þyrfti sér dómstól fyrir erlenda og loka þá strax inni í fangelsi, dæma og sekta strax. Síðan burt og aldrei inn aftur. Þetta er bara svona hjá flestum þjóðum.

Valdimar Samúelsson, 29.3.2008 kl. 13:02

5 identicon

Góð færsla takk

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 13:02

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk kærlega fyrir að birta þennan frábæra pistil.  Ég er þér svo hjartanlega sammála. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.3.2008 kl. 13:20

7 Smámynd: Pétur Björgvin

Toshiki: Takk fyrir góðan pistil. Það væri þarft og gott ef að fleiri myndu halda málstað jafnréttis á lofti eins og þú gerir með þínum pistlum.

Valdimar:  Ég er að hluta til sammála þér að mikilvægt sé að upplýsingar komi fram um hver bakgrunnur brotafólks er til að við sem hér búum áttum okkur á samhenginu. En það sem vantar allt of oft í fréttaflutning er að sagt sé frá einhverju góðu sem gerist í hópi útlendinga og er upprunnið í þeirra menningu. Þá þykir mér miður að þú skulir velja samlíkingar eins og ,,svarti dauði" og ,,rottur" í þessari umræðu. Það litar innlegg þitt óneitanlega af neikvæðni.

Pétur Björgvin, 29.3.2008 kl. 14:08

8 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Góð grein Toshiki.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 29.3.2008 kl. 14:23

9 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Herr Djákni. Það má ekki rugla saman útlendingum og útlensku glæpagengi en rottu orðið átti eingöngu við þá. Sérðu ég hef unnið þar sem mikill uppgangur er þ.e. Boom og fólk flykkist í vinnu erlendis frá og ég var útlendingur í þeim löndum. Á eftir þessum farandaverkamönnum kom hyskið. Hér er ekkert sem heitir elsku amma. Þetta eru alvöru glæpamenn. Þeir þurfa engar byssur hér á Íslandi.

Skrítna er að meir en helmingur landsmanna vinnur fyrir útlendinganna með því að skrifa hve vondir við sem þjóð erum við þá sem varnar þess að Íslendingar vinni gegn þeim.Hvort sem það er í pólitík eða öðru. Atkvæði í veði. Lögreglan er kærð fyrir of harkalegar aðferðir og hætta störfum, almenningur er uppnefndur sem rasistar og svo framvegis. 

Því ber fólk svona litla virðingu fyrir eigin landi og þjóð.???  Hér skrifa allir hve illa við förum með útlendinga. Það er sagt að við verðum að gera þetta og hitt fyrir útlendinga. Það eru þrjátíu þúsundir útlendinga á heilbrigðiskerfinu og sér deildir fyrir útlendinga. Skólakerfið okkar er í hálfgerðri rúst út af útlendingum. Allir segja við erum skildug að gera allan skrattann fyrir útlendinga. (FG orðið) Erum við ekki með öllu mjalla. Meira segja fá glæpamenn og gleðikonur frítt þar sem þau eru ekki skráð með tekjur. Ég meina.

Valdimar Samúelsson, 29.3.2008 kl. 15:29

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Mjög góður punktur hjá þér ...innilega sammála!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.3.2008 kl. 16:36

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú allt rétt og satt í pistlinum.

En vandamálið er bara, að jarðvegurinn fyrir fordóma í íslenkri mold er afar góður.  Alveg kjörinn fyrir fordómatré.  Það skýrist af aldalangri einangrun eyjaskeggja í heild og einnig voru þeir einangraðir innbyrgðis alveg langt fram eftir 20.öldinni.

Ef litið er til sögunnar hafa fordómar gagnvart ókunnugum verið mjög sterkir.  Bæði gagnvart einstaklingum utan eyjarinnar og einnig gagnvart svokölluðum utanbæjarmönnum.

Nú, í nútímanum hefur erlendum fjölgað.  Fordómatréð tekur kipp.  Hvað gerist ? Jú, fjölmiðlar koma og vökva það og gefa því næringu dag og nótt og tréð bara vex og vex ! Spurning líka (að mínu áliti) hvort löggan gefi trénu ekki næringu líka.

Þetta stefnir í óefni.  Það verður að grípa til fræðsluráðstafanna.  Annars vex tréð alveg upp til himins...og jafnvel í gegnum hann !  Það verður fræða fólk. Til þess væri tilvalið að nota fjölmiðla.   Vilja fjölmiðlar það ?  Efa það.  Selur ekki nógu vel.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.3.2008 kl. 22:02

12 identicon

Ég er þér hjartanlega sammála í meginatriðum. Ég hef hins vegar verið að kenna fullorðnum útlendingum ísl. og þeir segja sjálfir að það eigi að fylgjast betur með bakgrunni þeirra sem koma til landsins, þeir sem hafa gerst brotlegir í heimalandinu eða gerast brotlegir hér og eru ekki með ísl. ríkisborgararétt eigi að senda aftur til baka til heimalandsins líkt og við gerum nú þegar þegar t.d. erlend mótorhjólasamtök reyna að koma hingað þá  (hafa gerst sekir eða sterklega grunaðir um t.d. ofbeldisglæpi) hafa þau ekki fengið inngöngu og verið snúið til baka á flugvellinum. Þeir erlendu nýju íbúar sem eru hingað komnir til að lifa og starfa eiga að vera velkomnir en hinum á ekki að hleypa inn í landið sem aðeins skemma út frá sér og skemma fyrir þessu friðsama fólki sem hér vill búa og starfa.

Ragnhildur L Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 22:46

13 Smámynd: Toshiki Toma

Kæra fólk.
Þakka ykkur fyrir það að deila einlægri skoðun sinni með okkur öðrum. Ég tek skoðanir ykkar almennilega til umhugsunar.

Toshiki Toma, 30.3.2008 kl. 02:20

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessa umræða er alltaf einhvernvegin svo einhæf. Útlendingar versus Íslendingar.  En þetta er ekki bara svona einfalt.  Aðalmálið í dag er, að það flytjast svo margir erlendis frá inn í landið, að það er ekki hægt að halda utan um þá, og fylgjast með að þeir njóti mannréttinda.  Það eru íslenskar rottur hér víða, sem kalla sjálfa sig atvinnurekendur og eru að leita sér að ódýru vinnuafli, þeir brjóta á fólki, bæði með því að undirborga þeim og leggja þeim til húsnæðí sem er ekki mannabústaðir en láta þá samt greiða fulla leigu.  Það er alltof mikið af svona dæmum. Og ef þar á ofan eru svo þúsundir manns sem eru ekki einu sinni á skrá, hvað þá að einhver viti hvar þeir eru, þá erum við ekki í góðum málum.  Ég segi sama og Ragnhildur hér að framan, ég þekki töluvert af útlendingum, fólk sem hefur flust hingað og vill búa hér, nokkur reyndar í fjölskyldunni minn, þau segja það sama, það á að skoða betur bakgrunn fólks sem hingað kemur.  Það er enginn skömm að því. 

Mér finnst svo margir hér vera barnalegir að halda að það sé á einhvern hátt niðurlægjandi fyrir fólkið.  Og svo er annað, í dag er fólki frá öðrum álfum en Evrópu gert ókleyft að flytja hingað, meira að segja gert eins erfitt og hægt er bara að koma í heimsókn til ættingja sinna.  Er það eitthvað sem við eigum að vera hreykin af ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2008 kl. 14:01

15 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Útlendingar eða ekki. Þessi árás í Breiðholtinu er óhugnarleg áminning um að við erum sennilega of saklaus enn gagnvart skipulagðri glæpastarfssemi. Hvort sem útlendingar eða Íslendingar eiga í hlut. En svona þarf að stoppa í fæðingu og íslenska réttarkerfið virðist ekki hafa þau vopn sem þarf. Samningur dómsmálaráðherra um afplánun litháa í sínu landi er skref fram á við en við þurfum öflugri vopn gegn glæpamönnum hverrar þjóðar sem þeir eru.

Ævar Rafn Kjartansson, 30.3.2008 kl. 20:19

16 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Þetta er vandmeðfarið mál en vissulega umræðunnar virði,og það er vel Toshiki að þessi umræða skuli fram hér sem og annarsstaðar í samfélaginu.

Við sem hér búum viljum auðvitað jafnrétti öllum til handa og að börn okkar búi enn í því landi sem við skópum,og að lögreglumenn okkar þurfi ekki að fara að bera vopn til að gæta okkar,en ef svona heldur áfram sé ekki önnur ráð.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 30.3.2008 kl. 22:56

17 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Mikið er ég sammála þér. Það er eins og sumir hreinlega bíði eftir að ákveðin hópur brjóti af sér svo þeir hafi höggstað og ástæðu fyrir hatri sínum.  Furðulegt.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 11.4.2008 kl. 13:15

18 Smámynd: Þarfagreinir

Valdimar - ég hef aðeins eitt að segja.

Þú segir að Ísland sé 'þitt' land, og það eigi að vera þinn réttur að bjóða hingað þeim sem þú vilt og sía út, rétt eins og þú vilt ráða hverjum þú býður inn á þitt eigið heimili.

Málið er bara að þetta er ömurleg samlíking. Landið er ekkert 'þitt'; og þú ert ekkert einráður um hverjir koma hingað. Þú mátt vel hafa skoðun á því, rétt eins og aðrir, en samlíkingin gengur ekki upp að öðru leyti. Með sömu rökum gæti ég þess vegna sagt að Reykjavík væri 'mín', og mikilvægt væri að engir helvítis dópistar úr Hafnarfirði flyttu þangað; að það mál þyrfti að setja á oddinn ... frekar þá en að gera eitthvað í dópistum sem slíkum. Þú talar síðan um að þú viljir bara 'fjölskyldu og vini' inn á þitt heimili, og að það sama gildi um landið? Eru þá bara Íslendingar vinir þínir? Er það að vera Íslendingur forsenda þess að þú getir verið vinur viðkomandi? Og þetta kallar þú ekki rasisma ...

Heimurinn er ekki svona skiptur í þjóðir, að mínu mati. Við erum öll mannleg, og við eigum að ég held fleira sameiginlegt en hluti sem sundra okkur. Ég ætla alla vega ekki að skrifa upp á það að við 'Íslendingar' séum það gríðarlega sérstakir og merkilegir að einhver últraeinangrunarhyggja sé hér nauðsynleg. Ég á fleira sameiginlegt með fjölmörgum útlendingum en ég á sameiginlegt með mörgum Íslendingnum, því þó að mannkynið sé í raun eitt hvað varðar ýmsa sammannlega þætti, þá er sá mismunur sem er á milli einstaklinga miklu frekar, já, einstaklingsbundinn, en bundinn við þjóðerni.

Það er hið besta mál að ræða það hvort hingað komi erlendir glæpamenn eða glæpagengi, og leiðir til að taka á slíku (jafnvel harkalegar leiðir eins og að vísa erlendum brotamönnum úr landi), en fjandakornið hafi það að ég skrifi upp á það að nota slíkt sem átyllu fyrir því að úthýsa héðan góðu fólki. Mér er líka nákvæmlega sama þó að einhverjir telji að glæpir einhverra útlendinga séu alvarlegri en glæpir Íslendinga - það ber þá bara að taka á þeim sem slíkum, en ekki líta á það sem 'útlendingavandamál'. Slíkt er, og verður, samkvæmt öllum eðlilegum viðmiðum, rasismi. Bara því miður. Hér gildir hið sama um þann vanda að verið sé að brjóta á réttindum erlendra verkamanna og fá þá hingað undir óeðlilegum forsendum - aftur; ekki útlendingavandamál, heldur bara vandamál, punktur.

P.S. Þessir farandverkamenn, og útlendingar almennt, koma hingað oftar en ekki til að vinna störf sem Íslendingar nenna ekki að vinna. Atvinnuleysi er hér sáralítið. Hvað skal gert ef útlendingunum verður úthýst? Skikka fólk til að vinna við nauðsynleg störf, sem fáir Íslendingar nenna að vinna?

P.P.S. Órökstuddar alhæfingar eins og 'Skólakerfið okkar er í hálfgerðri rúst út af útlendingum'. hjálpa líka engum, og eru afskaplega lélegt og skemmandi innlegg í umræðuna.

Þarfagreinir, 11.4.2008 kl. 14:10

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband