Lítil hugleiðing um geðheilsu innflytjenda


Í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdeginum í fyrra (10 október) var haldin ráðstefna sem bar yfirskriftina ,,Innflytjendur og geðheilbrigði“. Ráðstefnan var haldin að frumkvæði Geðhjálpar auk ýmissa samstarfsaðila. Í kjörfar hennar mótaðist hópur áhugafólks, bæði á vegum samtaka og eins einstaklingar í kringum Geðhjálp. Hópurinn fundar reglulega til þess að skipuleggja fræðslustundi, búa til fræðsluefni og móta raunhæfar tillögur sem hægt er að leggja fram um málefni geðsjúkra, bæði til heilbrigðisyfirvalda og almennings.

Ég tek þátt í samstarfhópnum og hef skoðað sérstaklega þann málaflokk er lýtur að geðheilsu innflytjenda, sem er raunar afskaplega stórt málefni. Mig langar til þess að deila hugmyndum mínum með lesendum, en hún er skoðun mín sem einstaklings en ekki sem fulltrúa ofangreinds samstarfshóps.

Þegar manni liður illa, er með kvíði eða ofsóknakennd, er nauðsynlegt að geta talað við einhvern annan um það. Að tala um vanlíðan sína virkar mjög vel inn í daglegt líf okkar.
En venjulega getur maður ekki dæmt um það sjálfur hvort maður sé með andlegan sjúkdóm eða manni líði illa án þess að vera alvarlega veikur. Ef vanlíðan er mikil og viðvarandi, er nauðsynlegt að leita sér aðstoðar hjá lækni eða sérfræðingi fljótlega. Þetta á við um alla óháð því hvort um Íslending sé að ræða eða innflytjanda.

Hins vegar getur þetta verið bæði flókið og erfitt sérstaklega þegar innflytjandi á í hlut. Af hverju? Það má telja strax fram atriði eins og: A) tungumálaerfiðleika viðkomandi, B) vanþekkingu viðkomandi á heilsugæslukerfinu, C) menningarlega hindrun þess að tala um eigin vandamál við annað fólk, D) erfiðleikar við að viðurkenna andlegan sjúkdóm sinn. Þannig virðist stundum ákveðin fjarlægð vera til staðar milli einstaklings af erlendum uppruna og fagfólks í heilsugæslukerfinu.

Til þess að brjóta þennan vegg niður langar mig að skoða málið með því að skoða þrjá hlutaðeigendur, þ.e.a.s. heilsugæslukerfið, innflytjendur sjálfa og fólkið í kringum innflytjendur.

Mér sýnist að heilsugæslukerfið hafi staðið vel að því að undanförnu að taka á móti innflytjendum. Að sjálfsögðu er ýmislegt sem enn mætti bæta þar sem það virðist sem kerfið fylgi ekki þróun málefnisins, samt er sýnilegt að heilbriðgiskerfið batnar stig af stigi þegar innflytjendur eiga í hlut. Varðandi geðheilsumál, þá væri það til bóta ef heilsugæslan gæti búið til einfaldan bækling sem sýnir fram á það hverjir geti sótt um hvers konar þjónustu í heilsugæslukerfinu og hvar. Einnig er það mikilvægt að draga fram nokkur dæmigerð einkenni þunglyndis eða kvíða svo að innflytjendur og aðstandendur þeirra öðlist betri þekkingu á sjúkdóminum.

Þó að heilsugæslan bjóði upp á góða þjónustu, er að sjálfsögðu ekki hægt að neyða innflytjendur til þess að nota þjónustuna. Innflytjandi, eins og hver annar, ber ávallt endanlega ábyrgð á geðheilsu sinni, nema í sérstökum tilfellum. En hvað gerist þá ef innflytjanda sem líður illa getur alls ekki skilið íslensku og þekkir ekki heilsugæslukerfið hérlendis? Eða hvað ef hann er með eins konar fordóma gagnvart geðsjúkdómum og við að fá aðstoð út af þeim?

Ég tel að lykilaðilarnir í þessu máli séu það fólk sem er í kringum innflytjendur. Það er t.d. fjölskyldur þeirra sem geta verið einnig innflytjendur, samlandar þeirra sem tala íslensku og þekkja kerfið vel, íslenskir vinir eða samstarfsfólk í vinnu og svo framvegis, m.ö.o. það fólk sem hefur bein og dagleg samskipti við innflytjendur. Það er nefnilega fólk sem getur útskýrt kerfið fyrir innflytjendum, þýtt upplýsingar á móðumál viðkomandi, sannfært um nauðsyn þess að fara til læknis, hvatt til þess að það sé gert og jafnvel hjálpað einstaklingum við að panta tíma hjá réttum lækni.

Þegar ég dreg upp mynd þar sem heilsugæslan er vinstra megin og nýkomnir innflytjendur hægra megin, þá vantar þarna aðila sem hefur milligöngu þess að báðar hliðar tengist. Sá aðili er í raun og veru að mínu mati, sá sem fær heildarkerfið til að virka fyrir innflytjendur.

Þess vegna finnst mér nauðsynlegt og mikilvægt að starfsemi fyrir bættri geðheilsu innflytjenda taki mið af því fólki sem er í kringum innflytjendur. Fræðsla um einkenni geðsjúkdóma, kynning á geðheilsuþjónustu eða fundir þar sem málefnið er kynnt og rætt eru leiðir sem hægt er að fara. En allt þetta verður að vera hannað jafnt fyrir þá sem eru í samskiptum við innflytjendur og fyrir innflytjendur sjálfa.
En til þess að forðast misskilning þá er ég ekki að segja að bein starfsemi við innflytjendur sé ekki mikilvæg. Ég vil einfaldlega leyfa mér að benda á að starfsemi við fólkið í kringum þá er einnig jafn mikilvægt.

Það sem hér hefur verið reifað er hugleiðing mín um geðheilsu innflytjenda. Mig langar vekja þá sem standa nærri innflytendum til vitundar um mikilvægi þeirra, einnig þegar kemur að geðheilsu innflytjenda. Málefnið er jú mjög persónulegs eðlis en samt mun betri árangur nást með aukinni vitund og skilningi umhverfisins.

- Stýttari útgáfa hugleiðingarinnar birtist í 24 stundum 9. maí -



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

"erfiðleikar við að viðurkenna andlegan sjúkdóm sinn." er nokkuð sem ég efast nú um að eigi frekar við um innflytjendur en aðra.

Púkinn, 13.5.2008 kl. 19:28

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband