24.12.2012 | 12:04
Þrátt fyrir harða raunveruleikann...Gleðileg jól!
,,Gleðileg jól". Við skiptum þessari hátíðarlegu kveðju hvert við aðra. Oftast heilsum við öðrum í hátíðarlegu og skemmtilegu jólaskapi. Jólin eru gleðilegar dagar.
En samt vitum við samtímis að jólin eru ekki endilega gleðilegur tími fyrir alla.
Við vitum að stríð er í gangi í nokkrum löndum og að mörg börn, konur jafnt sem eldra fólk eru orðin að skotmarki. Við vitum að það eru grátandi foreldrar sem misstu börn sín vegna hryllilegs ofbeldis. Við vitum að það er margt fólk sem tapað hefur öllu vegna árásar náttúrhamfara í heiminum.
Við vitum að fólk í fátæki býr í samfélaginu hér. Við vitum að sjúklingar halda áfram í baráttu sína gegn erfiðum sjúkdómum á meðan jólin standa líka. Við vitum að það er alltaf margt fólk meðal okkar, sem liður illa af einhverri eigin ástæðu.
Jólin eru, ef til vill, ekkert gleðilegt tækifæri fyrir marga, marga og marga jarðarbúa.
Þegar við veltum því fyrir okkur, getum við hikað við að segja hátt ,,Gleðileg jól". Er það ekki skortur á tillitssemi að segja ,,Gleðileg jól" við fólk í erfiðleikum eða sorg? Okkur langar að byrja að hvísla kveðjunni aðeins að takmörkuðu fólki sem er í stöðu til að njóta jólanna.
En við megum ekki gera slíkt. Af því að ef við gerum það, þá þýðir það að við reynum að afmarka ,,gleðileg jól" aðeins fyrir menn sem eiga ekki í erfiðleikum.
Og þá verður merking jólanna alveg andstæð sönnu merkingunni.
Ljós aðventunnar er til þess að lýsa þeim sem sitja í myrkri, og gleði jólanna er til þess að frelsa þá sem eru bundnir við örvæntingu, sorg eða þjáningu. Þeir sem eiga í erfiðleikum eða í sorg eiga að standa í kastljósi jólanna.
,,Gleðileg jól" þýðir ekki að jólin séu gleðileg. ,,Gleðileg jól" er viðurkenning okkar um tilvist félaga okkar á jörðinni sem sitja í myrkri enn og ,,Gleðileg jól" er ósk okkar um að gleðin nái til þeirra fyrst og fremst. ,,Gleðileg jól" er staðfestingarkveðja um að Guð hugsar til þeirra sem eiga í erfiðleikum jafnt sem alla aðra jarðarbúa.
Því hikum við ekki við að kveðjast hátt:
,,Guð gefi okkur öllum gleðileg jól"!
-Myndin er eftir hotblack @morguefile.com-
20.12.2012 | 11:06
Tommy Lee Jones og íslensk tunga
Ég hef skrifað eða talað mörgum sinnum hingað til um erfiðleika íslenskrar tungu fyrir okkur innflytjendur. Leiðrétting. Nokkrir innflytjendur eiga ekki bágt með íslenskuna, því á ég að segja ,,erfiðleika fyrir marga innflytjendur" þ.á.m. mig sjálfan.
En samt kemur löngun til mín aftur og aftur í að endurtaka þetta mál eftir tækifæri. Ef til vill er það vegna þess að þetta mál fylgist með mér á hverjum einasta degi, og mun staðan breytist ekki mikið alla ævi mína sem verður eftir.
Ég var 33 ára þegar ég flutti til Íslands. Ég var nýbakaður prestur í Japan (vígður 1990) og mig langaði að vinna mikið og njóta menntunar minnar sem mest. En staðreynd var sú að ég var enginn eða bara ókunnugur maður, sem ég kunni ekki íslenskt mál.
Það væri ekkert gagnlausara í heiminum en prestur sem getur ekki skilið það sem fólk segir eða talað sjáfur! Þetta var ekki grín, heldur raunveruleikinn sem ég mætti.
Á þeim dögum var ,,The Fugitive" (Harrison Ford & Tommy Lee Jones) sýnd og varð mjög vinsæl kvikmynd. Í henni lék Tommy Lee Jones kraftmikinn alríkislögreglumann Deputy Gerard, og hann sagði ýmislegt fyndið og talaði við aðra á mjög ákveðinn hátt.
Að sjálfsögðu talaði hann ensku en ekki íslensku. Engu að síður varð hann ,,til karlmannlegrar fyrirmyndar" og ég vildi tala eins og Deputy Gerard og starfa á sama hátt.
En þá beið raunveruleikinn mín þar sem ég gat talað t.d. í búð bara eins og ,,Góðan daginn....er fiskur til?...piece af white fiskur...??" (Áttu ýsuflök?) Enginn myndi sjá Tommy Lee Jones í mér með þetta...
Aðstæðurnar bættust með tímanum, og ég get bjargað mér að nokkru leyti á íslensku núna. Ég las í íslensku mjög mikið, að sjálfsögðu, sérstaklega í fyrstu fimm árum. Ímynd um Deputy Gerard hvatti mig í raun, þó að ég hafi aldrei náð til stíls hans.
Um daginn fékk ég tækifæri til að fara í ,,Samfélagið í nærmynd" hjá Hrafnhildi Halldórsdóttur í Rási 1. Hún sagði við mig: ,,Þú talar góða íslensku núna og þú ert til í að læra jafnvel meira".
Ég þakkaði fyrir lofsorð hennar á mig, en sátt að segja er íslenskukunnátta mín (ekki bara ,,kunnátta" heldur ,,þjálfun í að tala") enn langt í burtu frá því sem ég þarfnast.
Raunar er ég mjög lélegur í að ,,tala" á íslensku miðað við að skrifa. Það sem ég get tjáð mig á íslensku er líklega bara helmingur af því sem ég get á ensku, eða minna en 20% af því á japönsku.
Það er fólk við, sem ég vil kynnast vel persónulega í kringum mig (OK, í hreinskilni er það konur). Með orð ,,persónulega" á ég við að ýmislegt sem varðar persónuleika sjálfs míns og fólksins. Skoðun um samfélagsmál eða trúmál get ég bent á skrifum mínum ef ég má marka af mér sjálfum.
En til þess að dýpka gagnkvæman skilning milli manna duga skrifin ekki. Menn þurfa að segja mikið víðara atriði í lífinu sinu. Þarna mun innifelast minningarsögur, brandar, umhyggju eða nákvæmleg tjáning tilfinningar.
Íslenskan mín dugar ekki að þessu leyti, og því hefur mér næstum aldrei tekist að byggja upp persónuleg og gagnkvæm samskipti við aðra Íslendinga í einkalífsstigi. (Er þetta bara afsökun mín og sönn ástæða er kannski minn persónuleiki sjálfur..?? Nei, ég held það ekki, af því að það gengur vel í raun þegar samskipti við Japana eru að ræða).
Nú hætti ég að muldra. Það hjálpar mér ekki meira, og þetta er bara útrás til bráðabirgða. Ég held áfram í að tala íslensku með fyrirhöfn til að taka framförum í henni og þolinmæði.
En samt langar mig að biðja ykkur Íslendinga um að gleyma ekki því að ,,sannur persónuleiki" innflytjanda getur falist á bak við lélegu íslenskuna hans. Verið þið svo væn að finna mig/okkur út?!
17.12.2012 | 12:49
Talar þú fallega um maka þinn eða barn?
Ég hef upplifað margs konar menningaráfall(culture shock) á Íslandi hingað til, eins og t.d. börn eða unglingar tala alveg á jafnfætis grundvelli við eldra fólk eða einstaklingur má halda fast fram eigin skoðun eða krefjast mikils fyrir sjálfan sig á móti öðrum í hóp þar sem hann tilheyrir sjálfur.
Slíkt menningaráfall snýst ekki endilega um hvor menningarheimur sé betri en hinn, en oftast varðar það þá staðreynd að menningarheimur er ekki eins.
Nú er ég vanari íslenskri menningu en áður eftir tuttugu ára dvöl hérlendis. Meira að segja mæti ég stundum menningaráfalli í öfugt gagnvart menningu hemalands míns, Japans.
Ef ég má nefna sem dæmi slíkt, í Japan talar maður ekki fallega um fjölskyldumeðlima sinn yfirleitt. T.d. talar eiginmaður vont um eiginkonu sína í almennafæri eða foreldrar lofa ekki barn sitt. Þetta þykir tjáning hógvæðar í Japan.
Aðgreining milli ,,mi-uchi"(insider) og ,,hito-sama"(outsider) er mjög sterk og hún hefur áhrif á framkomu Japana verulega, því getur ofangreint dæmi verið skiljanlegt ef framkoma í almannafæri er að ræða. En stundum á sama viðhorf eða framkoma sér stað jafnvel innan fjölskyldu.
Þetta gæti verið búið að breytast núna, en a.m.k. var það svona þegar ég var ungur. Ég man ekki sjálfur hvenær pabbi minn hafði lofað mig í síðasta skipti. Hið sama má segja um mömmu mína.
Einu sinni reyndi ég að sannfæra foreldra mína að ég var duglegur og virkur í íslensku samfélagi með því að sýna þeim dagblöð eða tímarit þar sem umfjöllun um mig sást. En mamma mín leit á þau bara pínulitið og sagði: ,,Og svo..?"
Viðhorf af þessu tagi þýddi alls ekki að pabbi minn og mamma höfðu litla ást til mín, en ,,tjáningarháttur" þeirra var orðinn talvert öðruvísi en hátturinn sem ég hafði venist hér á Íslandi.
Nú skil ég alls ekki þetta tiltekna atriði í japanskri menningu, eða ég get alls ekki verið sáttur við það. Það er jú mikilvægt og nauðsynlegt fyrir mann að fá gott orð eða hrós stundum, eftir tækifæri, frá eigin manninum eða konunni, og einnig fyrir börn frá foreldrum sínum.
Þetta er eðlilegri framkoma og mun hafa betri áhrif á samskipti meðal fjölskyldu. Og að sjálfsögðu reyni ég að halda í samskiptum við börnin mín á þennan hátt eins og flestir Íslendingar gera.
Þrátt fyrir það að ég hafi haft alltaf gott samband við pabba minn og mömmu, vil ég gjarnan fullyrða að samband milli mín og barnanna minna er mikið betra samt.
Þannig trúi ég því að ,,menningaráfall" er ekki neikvætt í eðli sínu og getur verið tækifæri til að opna leið fyrir víðari heim fyrir okkur. A.m.k. finnst mér það vera betra að fylgja menningu- hvort sem hún sé menning frá heimalandi sínu eða menning nýs lands- sem ég get verið sáttur við sjálfur.
15.12.2012 | 17:37
Trúmennska og illmennska
Shooting Victims: 'Hero' Teacher, Principal, 20 Kids
Ég man eftir því að frétta margar fallegar sögur og hrósverðar eftir hamfararnir slógu Japan í fyrra. Það var (og er ennþá)mikið efni fyrir íhugun.
Núna er ég að pæla í því einnig hvort það séu eins konar lögmál að við vitnum (eða heyra vitni annarra) hugrekki manna og trúmennsku(dedication) í birtingu ofboðslegrar illmennsku manns og grimmdar?
Von á manneskjum er dýrmæt og hún hefur vist kostað líf ungrar konu í þetta skipti. Vonin er svo dýrmæt.
Friður sé með Ms. Soto, skólameistaranum og öllu fórnalömbunum, og rík umhyggja sé með fjölskyldum þeirra.
14.12.2012 | 12:34
Gjöf, framlag og gleði
Jólin eru að koma aftur. Persónulega verða þetta 21. jólin sem ég tek á móti hér á Íslandi. Ég hef tekið eftir því að nokkur breyting hefur átt sér stað um hvernig ég nýti daga aðventunnar á þessum tveimur áratugum.
Fyrstu árin mín hérlendis var ég giftur og börnin mín tvö voru lítil. Ég átti enga ættingja hér en samt voru litlir frændur og litlar frænkur allt í kringum mig og þannig voru aðventan og jólin mikið tengd við gjafir".
Mér fannst sérlega gaman þá þrettán daga þegar íslensku jólasveinarnir heimsóttu börnin mín. Satt að segja bað ég þá aldrei um að færa börnunum mínum kartöflur, heldur um að koma með eitthvað skemmtilegt. Ég held að það hljóti að hafa verið flókið að finna góðar og ódýrar gjafir í skóinn þrettán daga í röð. Aðventan var á vissu tímabili áskorun fyrir mann að brýna sköpunargáfu sína.
Núna eru börnin mín orðin stór og jólasveinarnir hættu heimsóknum til þeirra án þess að ráðfæra sig við mig. Ég þarf ekki að undirbúa jólagjafir fyrir fleiri en fjóra eða fimm. Samtímis fæ ég bara þrjá eða fjóra pakka fyrir sjálfan mig. Það skiptir litlu máli en ég sakna þess að gefa ekki fleiri jólagjafir.
Það gleður mig óneitanlega meira að gefa gjöf en að þiggja hana. Ég er að velta fyrir mér hvers vegna mér finnst það, kannski má ég segja að mér líði eins og ég nái í jákvætt samband við viðtakanda, jafnvel í skamma stund, með því að gefa honum gjöf.
Ég viðurkenni að slík tilfinning gæti verið ekkert annað en sjálfsánægja mín" og því gæti það valdið óþægindum fyrir viðtakanda. Engu að síður get ég ekki heldur neitað þeirri gleði sem það að gefa gjöf" færir mér, eða merkingu þess að gefa" yfirleitt í mannlífi okkar.
Hátíð Guðs og hversdagslíf okkar
Við í kirkjunni segjum að messa sé gleðileg hátíð, þar sem við megum koma saman með hinar ýmsu gáfur okkar. Prestur flytur prédikun, organisti spilar friðsæla tónlist og kórinn syngur fallega. Það gæti einnig verið einkasöngur, leikur barna eða ljóðaupplestur, allt eftir tilefni. Allir mega koma með sitt framlag til að fagna hátíð Guðs.
Stundum gæti maður spurt sig: Hvað um mig? Hef ég hef ekkert fram að færa? Miskunnsemi þóknast mér en ekki sláturfórn og guðsþekking fremur en brennifórn" (Hós. 6:6). Gjafir eða framlög okkar sem skipta Guð máli eru kærleikur okkar og trú, en alls ekki sérhæfni" okkar í einhverri grein. Því þarf ekki að hafa áhyggjur af slíku.
Og þetta varðar ekki eingöngu messuna. Það má segja að hver og einn einasti dagur lífs okkar sé dýrmætur og hátíðardagur. Að gefa getur veitt meiri gleði en við erum meðvituð um. Hve auðvelt er, eftir allt, að gleyma þeirri gleði? Við gætum grátið af því að við höfum ekki nægileg tækifæri til að gefa, við eigum ekki marga æskuvini til að senda gjöf eða við erum ekki með neitt sérstakt til að leggja fram til Guðs.
Ef til vill miskiljum við það að að gefa gjöf" eða að veita framlag" eigi að vera mælanlegt. En það sem skiptir máli eru viðhorf þess sem gefur. Gefum við af því að það varðar lífsgildi okkar og birtist daglega í gjafmildi okkar, eða gefum við af því að það er ætlast til þess af okkur?
Sælla er að gefa en þiggja" (Pos. 20:35) eru orð Jesú. Það er gaman að gefa og þiggja gjafir í kringum jólin. En til þess að njóta hinna sönnu verðgilda gjafmildi, bæði okkar vegna og annarra, eigum við ekki fyrst og fremst að minnast endalausrar náðar sem við þiggjum frá Jesú Kristi, og það sem við getum gefið öðrum á uppsprettu sína í henni?
-Fyrst birt í Mbl. 5. desember sl.-
21.11.2012 | 11:57
Múrar beggja vegna
Um daginn tók ég þátt í málþingi um móðurmál á Íslandi. Í umræðutíma tjáðu sig sex unglingar sem eiga annað móðurmál en íslensku. Þeir töluðu um reynslu sína af því læra móðurmál sitt á Íslandi og um erfiðleika í íslenskunámi. Meðal annars sögðu þeir: ,,Ég vil ekki nota móðurmál mitt (sem er ekki íslenska) á opinberum vettvangi. Þegar fólk í kringum mig tekur eftir því, starir það alltaf á mig, á neikvæðan hátt".
Þar heyrðist einnig þessi rödd: ,,Kennarinn minn í grunnskóla sagði mér að nota ekki móðurmál mitt, heldur alltaf að nota íslensku, ef ég vildi ná framförum í íslensku". Reynslusaga unglinganna bendir á það andrúmsloft sem er til staðar í samfélaginu, sem reynir að stöðva það að innflytjendur noti móðumál sitt hérlendis.
Talsvert hefur verið rætt um auglýsingu Stöðvar 2 þar sem ,,Tong Monitor" sem er gerviasíubúi talar ensku með hreim. Þetta er dæmigerð staðalímynd af asíubúa en mér finnst þetta geta haft slæm áhrif á stöðu innflytjenda, ekki aðeins asískra innflytjenda heldur allra innflytjenda. Það er vegna þess að grín gert að ,,framburði á ensku með hreim" verður fljótt að gríni að ,,framburði á íslensku með hreim". Ef fólki finnst gaman að heyra ensku með hreim, þá mun því finnast gaman að heyra íslensku með hreim líka. Þetta er svo auðséð.
Raunar finnst mér framburður á íslensku vera erfiðari en á ensku. Á íslensku kemur að mínu mati hreimur jafnvel skýrar fram en þegar enska er töluð og það er ekki auðvellt að bæta. Margir innflytjendur þurfa að þola að tala íslensku með hreim. Ef við megum búast við að mæta gríni á okkar kostnað út af framburði og hreim, hvernig líður okkur þá með það?
Annarsvegar búum við við andrúmsloft sem hindrar innflytjendur í að tala eigið móðurmál og hinsvegar býr ákveðinn kraftur fjölmiðlanna til aðstæður þar sem innflytjendur hika við að tala íslensku, ekki síður en ensku. Ef það er veruleikinn sem innflytjendur búa við, standa þeir fastir með múra beggja vegna. Er slík staða eftirsóknarverð?
Ýmislegt í samfélaginu sem lítur út fyrir að vera sjálfstætt getur samt haft áhrif á aðra þætti í stóru samhengi. Auglýsing Stöðvar 2 er ekki undantekning á því. Hún gæti orðið hluti múrsins sem kemur í veg fyrir samþættingu innflytjenda, þó að slíkt sé ekki tilgangur hennar.
Við skulum skoða málið aðeins í stærra samhengi, sem er viðhorf Íslendinga til erlendra tungumála í samféginu og framandi íslensks máls. Umræða um ,,Tong" gæti orðið tækifæri til þess að hugleiða það. Von mín er umræða verði leidd á skapandi og uppbyggjandi átt.
-Fyrst birt í Mbl. 20. nóvember 2012-
19.11.2012 | 22:07
Grín eða einelti?
Ég hef spáð mikið í auglýsingu Stöðvar 2, þar sem Pétur Jóhann Sigfússon leikur ,,Tong Monitor", mann sem á að vera af asískum uppruna og talar framandi ensku með hreim.
Auglýsingin vakti athygli fólks og margir telja hana vera særandi í garð asísk fólks á Íslandi en aðrir bara saklaust grín. Sjálfum finnst mér auglýsingin (eða leikur Péturs) ekki vera fyndin og hafa vond áhrif á íslenskt þjóðafélag. Af hverju?
Ég vil þó benda á eitt fyrirfram, að þó "Tong" tali ensku, en ekki íslensku, skiptir það ekki máli þar sem málið hér er að taka upp "framburð með hreim" og grínast með hann. Eftirherma á ensku verður fljótt að eftirhermu á íslensku í huga manns.
Í fyrsta lagi, er framburður hins íslenska tungumál fólki af asískum uppruna mjög erfiður. Hreimurinn stafar ekki af vanrækslu við íslenskunámið heldur er framburðurinn okkur einfaldlega erfiður. Við erum, og nú tala ég ef til vill fyrst og fremst fyrir sjálfan mig, ekki stolt af það að tala íslensku með hreim. Starfs míns vegna býðst mér oft að koma í útvarpsþætti og tala en ég skammast mín alltaf hve lélega íslensku ég tala.
Samt tala ég í útvarpi sé mér boðið það vegna þess að það er hluti af starfi mínu. Ég myndi þó verða dapur ef einhver gerði grín að framburðinum mínum. Grín líkt og með Tong Monitor" er því ógn fyrir fólk sem talar og verður, t.d. starfs síns vegna eða bara almennra samskipta, að tala íslensku með hreim.
Í öðru lagi, þá eru í áhorfendahópi Stöðvar 2 börn og unglingar. Hvað hugsa þau þegar auglýsingin er sýnd? Skilaboðin frá hinum íslenska fjölmiðli eru skýr: ,,Ah, við megum gera grín að innflytjendum með því að herma eftir ensku eða íslenskunni þeirra". Þetta er vondur boðskapur.
Ég tel að í þjóðfélaginu séu einhver siðferðisleg viðmið. Varðandi grín í fjölmiðlum þá vil ég segja þetta: Gerið grín að þeim sem geta svarað fyrir sig. Að gera grín að fólki sem getur ekki svarað fyrir sér er í mínum huga það sama og einelti. Hvernig getur sérhver manneskja af asískum uppruna svarað fyrir ,,hið opinbera grín" Stöðvar 2.
Ég er undrandi á að Stöð 2 skuli ekki hafa séð fyrir hvaða áhrif auglýsingin myndi hafa. Ég óska þess að fjölmiðlafólk læri af þessari reynslu.
- Fyrst birti í Fréttablaðinu 15. nóv. 2012-
3.11.2012 | 23:56
,,Meir´en að segja það"
Málþing um móðurmál minnihlutahópa á Íslandi ,,Meir´en að segja það" verður haldið í Gerðubergi þann 9. nóvember kl. 13:00 - 17:00.
Á þinginu verða fjölbreytt sjónarmið hlutaðeigenda móðumálsmenntunar til umfjöllunar af hálfu menntamálayfirvalda, kennara og foreldra tví- og fjöltyngdra barna. Þá munu börn og ungmenni með annað móðurmál en íslensku þ.m.t. táknmál fjalla um sína reynslu og skoðun. Í lok þingsins gefst þátttakendum tækifæri til að kynnast lifandi tungumálum. Boðið verður upp á táknmálstúlkun á þinginu.
Málþingið er skipulagt í tengslum við Hringþing um menntun innflytjenda sem haldið var af Innflytjendaráði o.fl. í september sl. Tilgangur málþingsins er að varpa ljósi á stöðu móðurmálsmenntunar á Íslandi og huga að næstu skrefum í móðurmálsmenntun tví- og fjöltyngdra barna sem er eftirsóknarvert fyrir samfélagið í heild.
,,Meir´en að segja það" er haldið á vegum Rannsóknastofu Háskóla Íslands í fjölmenningarfræðum, í samvinnu við Samtökin Móðurmál, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Tungumálatorg og Menningarmiðstöðin Gerðuberg.
Málþingið er öllum opið og þátttökugjald er 1.000kr. Skráning fer fram á síðunni http://tungumalatorg.is/modurmal
Dagskrá
| Fundarstjóri Einar Skúlason (MBA og BA í stjórnmálafræði) |
13:00 | Setning |
13:10 | Ljóðaupplestur A |
13:15- | Um stöðu móðurmálskennslu á Íslandi |
13:35- | Sjónarmið menntamálayfirvalda |
13:55- | Sjónarmið táknmálsnotenda |
14:15- | Ljóðaupplestur B |
14:20- | Sjónarmið foreldra tvítyngdra barna |
14:40- | Kaffi |
15:00- | Sjónarmið grunnskólakennara |
15:20- | Innlegg frá tvítyngdum börnum |
16:00- | Samantekt |
16.10- | Lifandi tungumál |
Menning og listir | Breytt 19.11.2012 kl. 22:01 | Slóð | Facebook
28.10.2012 | 11:56
Tilgangur ,,sér"þjónustu
Þekkið þið ,,sérþjónustuprest"? Sérþjónustuprestur er t.d. fangaprestur, prestur fatlaðra eða sjúkrahússprestur, sem sé, prestur sem starfar fyrir tiltekið málefni eða hjá stofnun eins og spítala eða elliheimili. Þeir eru ekki bundnir við sókn, sem er hefðbundin grunneining í skipulagi kirkjunnar. Að því leyti eru þeir ,,sér". Nú starfa um 18 prestar fyrir fanga, fatlað fólk, innflytjendur, sjúklinga á spítölum o.fl.
En af hverju sérþjónustuprestar? Tvær spurningar munu koma upp. Í fyrsta lagi geta prestar í sóknum ekki sinnt málum sem tilheyra sérþjónustu? Í öðru lagi hvetur ,,sérþjónustan" ekki aðskilnað tiltekins hóps frá öðrum, eins og fatlaðs fólks frá örum, eða innflytjenda frá Íslendingum?
Fyrstu spurningunni er auðsvarað. Oftast krefst ákveðið málefni meiri sérþekkingar en í venjulegu prestsstarfi. T.d. þarf prestur heyrnarlausra að ná tökum á táknamáli og prestur innflytjenda verður að hafa þekkingu á löggjöf o.fl. sem varðar útlendinga. Þjónusta sjúkrahússpresta krefst hærri menntunar í sálgæslu en venjulegur sóknaprestur þarf að hafa.
Og einnig tekur það mikinn tíma að sinna fólki almennilega. Ef maður sér hve mikið sjúkrahúsprestur er upptekinn í sinni þjónustu, mun þessi fyrsta spurning hverfa.
Síðari spurningunni mun ég svara þannig. Tilgangur sérþjónustunnar er ekki að aðskilja ákveðið fólk frá öðru fólki. En það er satt að við þurfum að veita öðruvísi þjónustu við fólk t.d. með fötlun eða fólk í sérstökum aðstæðum eins og fangelsi. En það sem við sérþjónustuprestar sjáum í þjónustu okkar er ekki fötlun, sjúkdómur eða framandi tungumál, heldur mætum við manneskjum. Og manneskjur eru jú í mismunandi lífskjörum.
Ég vil meina að aðgreining milli hefðbundinnar prestsþjónustu og sérþjónustu sé einungis tæknileg. Sérþjónustuprestar nota öðruvísi nálgun en sóknarprestar til að kafa í málin í mismunandi og oft erfiðum aðstæðum, í þeirri viðleitni að mæta fólki í þeim aðstæðum sem það er statt og styðja það. Við þjónum undir kjörorðunum: ,,Öll erum við Guðs börn".
-Fyrst birt á MBL. 25. október 2012-
26.10.2012 | 23:08
Sanngjörn meðhöndlun óskast
Fréttir herma að Útlendingastofnun hafi breytt reglugerðum svo að hælisleitandi megi ekki sækja um tímabundið atvinnuleyfi ef hann hefur áður sótt um hæli í landi þar sem Dyflinnarsáttmálinn ríkir. Hælisleitandi skal vera sendur sem fyrst til baka til þess lands sem hann kom frá ef ekki er hægt að sýna fram á að málið þarfnist sérstakrar skoðunar.
Ef til vill skiptir þessi breyting ekki miklu þegar brottvísunin á sér samstundis eða fljótt stað. En þegar hælisleitandi bíður hér á landi á milli vonar og ótta, þegar ástæða þykir að kanna sérstakar aðstæður, getur það valdið honum tilfinningum eins og pirringi og vonleysi um framtíðina, því það getur tekið yfirvöld marga mánuði að komast að niðurstöðu.
Mér skilst á þeim hælisleitendum sem ég þekki að sérstakar ástæður séu fjölmargar. Það getur verið ofbeldisárás (rasismi) í því landi sem hælisleitandi sótti fyrst um, ósanngjörn afgreiðsla máls, órökstuddur þrýstingur brottvísunar o.fl. Að mínu mati krefjast slík dæmi endurskoðunar á grundvelli Dyflinnarsáttmálans.
Í fréttum RÚV í maí sl. kom fram að það kostaði 7.000 kr. á hverjum degi að framfæra hvern hælisleitanda. Ef hælisleitandi finnur atvinnu, þarfnast hann ekki þessarar opinberu framfærslu. Margir hælisleitendur vilja vinna. Með því geta þeir a.m.k. staðfest að tilvist þeirra er ekki til einskis. Jafnframt sparast opinbert fé. Hvers vegna er þá svona erfitt fyrir þá að fá tímabundið atvinnuleyfi?
Ég óska þess að meðhöndlun hælisleitenda sé sanngjörn og afgreiðsla mála þeirra sé gagnsæ með öllu.
-Fyrst birt í FrB. 25. okt.-