Gleði í heimsóknarþjónustu

Mál hælisleitenda hafa verið eitt af umræðuefnum í þjóðfélagi okkar undanfarna vikur. Mig langar að fjalla aðeins um málefnið frá öðru sjónarhorni en venjulega er gert.

Við vinir mínir byrjuðum að fara í heimsókn til hælisleitenda í Reykjanesbæ árið 2005. Skömmu síðar byrjaði Rauði krossinn Íslands (RKÍ) að skipuleggja heimsóknarþjónustu sjálfboðaliða við eldra fólk, hælisleitendur og fleiri.

Heimsókn mín og vina minna sameinaðist síðan við sjálfboðastarfsemi RKÍ og síðan hef ég verið í heimsóknarþjónustu RKÍ við hælisleitendur til dagsins í dag.

(Ég er á þeirri skoðun að við ættum að hætta að nota orðið „hælisleitandi" og nota orðasamband eins og „umsækjandi um alþjóðlega vernd" eða „manneskja á flótta", þar sem það er meira lýsandi auk þess sem hitt orðið hefur fengið á sig neikvæðan blæ en um þetta ætla ég að skrifa aðra grein seinna.)

Að mæta manneskju

Það sem gerist í heimsóknarþjónustu við fólk á flótta er einfaldlega að „mæta manneskju". Oftast er ævisaga hennar og reynsla svo langt í burtu frá hversdagslegum raunveruleika okkar á Íslandi. En það er ekki þannig að fólk byrji á að segja okkur heimsóknarvinum frá sögu sinni samstundist eftir að við hittumst.

Að mæta manneskju er ekki sama og að sjá manneskju eða að heilsa henni. Það krefst ákveðinnar fyrirhafnar og tíma til að mæta manneskju í sannri merkingu. Við þurfum að byggja upp traust.

Í þessu samskiptaferli geta óþægilegar uppákomur átt sér stað. Uppsöfnuð reiði og vonleysi sem hlaðist hefur upp í fólki á flótta getur t.d. bitnað á heimsóknarvinum. Fyrir það geta jafnvel heimsóknarvinir verið hluti af „kerfinu" sem er að hindra það að komast inn í líf í friði og öryggi.

En ef við náum trausti fólksins og það opnar hjarta sitt, þá er fyrirhöfnin þess virði. Í hvert skipti þegar ég hlusta á sögu fólks á flótta, hugsa ég á ný um líf mitt og daglegt umhverfi. „Land mitt", „heimili mitt", „fjölskylda mín", „starf mitt", „frelsi mitt", „friður". Slík atriði sem við teljum jafnvel ómeðvitað sjálfgefna hluti eru alls ekki sameiginleg á mörgum stöðum í heiminum.

Manneskja sem ég mæti í heimsókn var hluti af slíkum raunveruleika heimsins. Með því að mæta henni er ég óhjákvæmilega tengdur við raunveruleika í heiminum sem er gjörólíkur aðstæðum mínum á Íslandi.

Manneskja á „flótta"

En þetta er enn ekki áfangastaður heimsóknar. Ef við sjáum fólk á flótta einungis í tengslum við stríð eða kúgun í heimalandi þess, þá er það ekki rétt viðhorf. Slíkt getur valdið hættulegri aðgreiningu eins og „við og þeir sem eru á flótta". Rétt viðhorf er að horfa á fólkið sem manneskjur, sem sé mennsku fólks og einnig persónuleika. „Að vera á flótta" er staða ákveðins fólks en hvorki hluti af manneskjunni sjálfri né einhverri „tegund" manns.

Áfangastaður heimsóknar er að mæta manneskju sem hefur verið á flótta og bíður á meðan umsókn um alþjóðalega vernd er í meðferð á Íslandi. Því miður getur ferlið tekið langan tíma, eins og eitt ár eða jafnvel meira. En ef ég neyddi mig sjálfan þess að finna jákvætt atriði í þessu erfiða tímabili, þá segi ég að við getum notað tímabilið til þess að verða vinir fólks. Heimsóknarstarfsemin stefnir að því.

Fegurð manneskju

Þetta á ekki einungis við um fólk á flótta, en maður tapar oft ljóma sínum í erfiðleikunum. Fyrir nokkrum árum hitti ég konu á flótta. Hún var ólétt og mjög þreytt. Satt að segja leit konan út fyrir að vera tuttugu árum eldri en aldurinn sagði til um í raun.

Eftir um tvö ár fékk konan dvalarleyfi af mannúðarástæðum og enn tveimur árum síðar hitti ég hana í háskóla af tilviljun. Falleg kona heilsaði mér brosandi en ég þekkti hana ekki þar til hún sagði nafn sitt. Hún hafði fengið ljóma sinn aftur og birti þá fegurð sína sem hún átti innra með sér.

Það er sönn gleði mín að geta orðið vitni að því er manneskja fær sjálfsmynd sína til baka og fegurð eftir erfiðleika, og þessi gleði fylgir einnig því að vera í heimsóknarstarfsemi, þó að það sé ekki endilega alltaf.

Að kynnast nýju fólki og skapa vináttu sem opnar dyr að nýjum heimi, bæði fyrir fólk á flótta og okkur heimsóknarvini. Ég er lánsamur af því að ég hef eignast marga vini sem voru eða eru á flótta. Kynning við þá auðgar vafalaust mitt eigið líf.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband