Gleymum ekki hælisleitendum á Íslandi


Í gær 20. júní var alþjóðlegur dagur flóttamanna á vegum Sameinuðu þjóðanna. Undanfarið hefur mikið verið rætt um móttöku flóttamanna frá Palestínu sem væntanlega koma hingað til lands seinnipart sumars, og ég ætla ekki að snerta það hér.
Almennt hefur móttaka flóttamanna gegnum SÞ gengið afar vel og litið er á íslenska mótttökukerfið sem fyrirmynd í öðrum Evrópulöndum. Kerfið byggist upp á því að nýta sjálfsboðaliða til virks stuðnings og að mínu mati tekst það vel og sýnir hvernig nýta má smæð þjóðarinnar til góða.

Á Íslandi er þó einig að finna annan flóttamannahóp. Þetta eru flóttamenn sem ekki eru á vegum SÞ, svonefndir hælisleitendur. Hælisleitendur eru flóttamenn í þeirri merkingu að margir flýja ofsóknir í landi sínu en hafa ekki fengið formlega viðurkenningu SÞ á stöðu sinni sem flóttamenn. Með því að sækja um réttarstöðu flóttamanns óska þeir eftir hæli og vernd hér á landi.
Þeir eru ekki taldir flóttamenn frá upphafi, heldur eru flokkaðir sem hælisteitendur eftir komu sína til landsins. Í samanburði við flóttamenn sem koma hingað fyrir tilstilli SÞ, þá er viðgjörningur við hælisleitendur nokkuð rýr.

Meðferð hælisumsóknar fer fram á nokkrum stigum. Fyrst fer Útlendingastofnun yfir sameiginleg gögn útlendingaeftirlitsstofnana annarra Evrópulanda. Ef í ljós kemur að umsækjandi hefur þegar sótt um hæli í öðru ríki í Vestur-Evrópu , þá er hann fluttur til þess ríkis, þar sem fyrsta ríki ber ábyrgð á viðkomandi umsækjanda. Ísland er eyja og því hafa flestir þeirra sem koma til Íslands leitað hælis hjá annarri Evrópuþjóð. Af þeim sökum fækkar hælisleitendum mjög á þessu stigi umsóknarferlisins.

Ef Ísland er fyrsta landið þar sem umsækjandi sækir um hæli, þá hefst ákveðið rannsóknarferli. Þetta er annað stig umsóknarferlisins. Það tekur Útlendingastofnun að jafnaði langan tíma að úrskurða í máli umsækjandans sem hefur ekkert annað að gera á meðan en að bíða. Á meðan á þeirri bið stendur dvelja flestir hælisleitendana á gistiheimili í Reykjanesbæ. Fjöldi þess fólks sem nú eru í biðstöðu er um þrjátíu manns, þ.á.m. smábörn og unglingar. Biðin getur varað frá einu í þrjú ár. Það er erfiður tími fyrir hælisleitendur bíða milli vonar og ótta um ótiltekinn tíma, með þungar áhyggjur af því hvað framtíðin beri í skauti sér.Segja má að á þessum tíma séu hælisleitendurnir í eins konar andlegri einangrun.

Þó umsækjandi fái endanlega synjun um hæli hér á landi, þá er mögulegt að fresta framkvæmd brottvísunar. Á það við um tilfelli þar sem ekki er hægt að sannreyna hvaða ríki er í raun heimaland umsækjanda eða þegar ættlandið vill ekki taka við honum aftur. Þetta er þriðja stig ferlisins og er eins konar „limbo“ staða. Sem betur fer eru ekki margir í þessari stöðu á Íslandi, en t.d. í búðum í Sandholm í Danmörku, sem ég heimsótti um daginn, voru fjölmargir hælisleitendur sem höfðu neyðst til að vera þar í 7-8 ár. Ég spyr sjálfan mig hvort þetta teljist ekki ómannúðlegar aðstæður sem enginn ætti að þurfa að þola.

Ofangreint er mjög stutt kynning á aðstæðum hælisleitenda á Íslandi. Mér finnst eðlilegt að teflt sé fram ólíkum skoðunum í umræðunni um málefnið. Það hlýtur að vera skoðunarmunur á milli þeirra sem starfa í mannréttindasamtökum og þeirra sem helga sig því að vernda samfélagslegt öryggi. Það skiptir þó máli að umræðan fari fram á opinberum vettvangi og að um málefnið sé fjallað um víðast í þjóðfélaginu og að fólk fái nægar upplýsingar til þess að umræða geti farið fram á málefnalegum grunni.

Málefni hælisleitanda eru enn nokkuð á huldu og hópurinn lifir í skugga hinn s.k. kvótaflóttamanna. Við sinnum flóttafólki sem kemur á vegum SÞ afar vel, hvers vegna sinnum við ekki hælisleitendum ekki á sama hátt? Ég er viss um að Íslendingar myndu allir vilja leggja meira af mörkum ef þeir þekktu betur aðstæður hælisleitenda.

Loks vil ég vekja athygli á því að Mannréttindaskrifstofa Íslands og RKÍ hafa þýtt handbók Flóttamannastofnunar SÞ um réttarstöðu flóttamanna sem var afhent dómsmálaráðherra í tilefni af flóttamannadeginum. Bókin er fyrir þá sem vinna að hælisleitendamálum en nýtist jafnframt áhugafólki um málaflokkinn.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Thosiki

Saga hælisleitenda er oft hörmuleg,jafnvel hér hjá okkur. (Dagblöðin).

Gott hjá þér að vekja máls á þessu.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 07:22

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Takk fyrir að vekja máls á þessu - segi ég einnig. Ég þekki ekki vel til málefna þeirra en veit að í samanburði við hin norðurlöndin höfum við á Íslandi staðið okkur illa gagnvart þessu fólki.

Anna Karlsdóttir, 21.6.2008 kl. 13:59

3 Smámynd: Sema Erla Serdar

Mjög góð skrif hjá þér

Sema Erla Serdar, 21.6.2008 kl. 23:51

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband