Kertafleyting í kvöld og Opnun sýningar um Hiroshima og Nagasaki

Hin árlega kertafleyting til minningar fórnarlamba kjarnorkusprengjanna í Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945 verður haldin við Tjörnina í Reykjavík fimmtudaginn 9. ágúst kl. 22.30.
Inosuke Hayasaki, 81 árs gamall Japani, flytur ávarp
, en hann lifði af kjarnorkusprenginguna í Nagasaki og var staddur í um kílómeters fjarlægð frá staðnum þar sem sprengjan féll.

Kerti verða seld á staðnum og kosta kr. 500 stykkið eða 3 á kr. 1.200.

Á Akureyri verður kertafleyting til að minnast sprenginganna á Hiroshima og Nagasaki verður við Minjasafnsstjörnina fimmtudaginn 9. ágúst kl 22.00.
Ræðumaður er Þórarinn Hjartarsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga á Norðurlandi. Í ár beinist athyglin að Sýrlandi og Mið-Austurlöndum.

                  *      *    *    *     *

Kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nagasaki árið 1945 og afleiðingar þeirra Ljósmyndir, fræðsluefni, munir


 ,,Sýning"
Fræðslu- og ljósmyndasýning um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki og afleiðingar þeirra verður opnuð í Borgarbókasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu fimmtudaginn 9. ágúst kl. 19.30 og er opin það kvöld til kl. 22.00, en þá geta gestir gengið til Tjarnarinnar þar sem kertafleyting í minningu fórnarlambanna hefst kl. 22.30.

Á sýningunni eru munir frá atburðunum, áhrifamiklar ljósmyndir og fræðsluefni. Við kertafleytinguna við Tjörnina flytur Inosuke Hayasaki, 81 árs gamall Japani, ávarp, en hann lifði af kjarnorkusprenginguna í Nagasaki og var staddur í um kílómeters fjarlægð frá staðnum þar sem sprengjan féll.

Sýningin verður í Borgarbókasafninu til 13. september, í Háskóla Íslands frá 14. september til 9. október og í Hofi  á Akureyri 13.-29. október.

Sýningin fjallar á áhrifamikinn hátt um geigvænleg áhrif kjarnorkusprenginganna á íbúa og mannvirki í Hírósíma og Nagasaki. Alls létust strax eða á fyrstu mánuðunum eftir að sprengjurnar féllu um 214.000 manns og álíka margir hafa fram til ársins 2011 látist af eftirköstum kjarnorkuárásanna. Enn þjást um 227.500 manns sem bjuggu í Hírósíma og Nagasaki árið 1945 vegna sjúkdóma sem raktir eru til sprenginganna. Á sýningunni er m.a. fjallað um skammtíma- og langtímaáhrif kjarnorkusprenginga á líf og heilsu, áhrif tilrauna með kjarnavopn á menn og dýr og um tilraunir til samningagerðar á alþjóðavettvangi um takmörkun og eyðingu kjarnavopna.

,,Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb Victims"
Sýningin kemur hingað frá Nagasaki minningarsafninu, Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb Victims, sem starfar á vegum japanska velferðarráðuneytisins og hefur það hlutverk að varðveita minningu þeirra sem létust vegna kjarnorkuárásanna í Nagasaki og Hírósíma og beita sér fyrir útrýmingu kjarnavopna með fræðslu og upplýsingamiðlun. Samstarfsaðilar á Íslandi eru utanríkisráðuneytið,  Borgarbókasafn Reykjavíkur, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Menningarhúsið Hof  á Akureyri, sendiráð Japans á Íslandi, Íslensk-japanska félagið, Takanawa ehf. og Samstarfshópur friðarhreyfinga.

,,Heimilidarmynd"
Fimmtudagskvöldið 9. ágúst kl. 00.10 sýnir RÚV heimildarmynd um baráttuna gegn kjarnavopnum, In My Lifetime: A Presentation of the Nuclear World Project (http://thenuclearworld.org/about/the-film/).

 ,,Fræðsla við skólabörn"
Í tengslum við sýninguna verða margs konar viðburðir. Þar má nefna nemendaverkefni fyrir 10. bekk grunnskóla sem Halldór Björgvin Ívarsson kennari vann út frá sýningunni og námsskrám 10. bekkjar. Verkefnið verður ásamt leiðbeiningum á heimasíðu sýningarinnar sem opnar þann 9. ágúst (http://www.HirosimaNagasaki.is). Kennurum í samfélags- og náttúrufræðigreinum verður sérstaklega boðið og þeir hvattir til að vinna verkefnið með nemendum, en í Japan ríkir sú hefð að öll skólabörn heimsækja minningarsöfnin um kjarnorkuárásirnar.

,,Menningaratriði í tengslu við sýninguna"
 Japönsk pappírslist (Origami) tengist viðfangsefni sýningarinnar og koma samtökin Origami Ísland að þeim þætti. Sýningin verður framlag Borgarbókasafnsins á Menningarnótt í Reykjavík 18. ágúst og verða viðburðir á sýningarsvæðinu sem tengjast japanskri menningu. Hinn 8. september mun einn fremsti blómaskreytilistamaður (Ikebana) Japans, Yuki Ikenobo, meistari í sínu fagi í 46. ættlið, kynna þessa aldagömlu list Japana. Hún er einnig kjörræðismaður Íslands í Kyoto.

Hinn 4. október verður opinn fundur í Háskóla Íslands um stöðu og horfur varðandi útrýmingu kjarnavopna með sérstökum heiðursgesti, Gareth Evans, rektor Australian National University og fyrrverandi utanríkisráðherra Ástralíu, en hann hefur lengi verið í forystu þeirra sem berjast fyrir útrýmingu kjarnavopna.

Framkvæmd og skipulagningu sýningarinnar fyrir hönd Nagasaki minningarsafnsins annast fyrirtækið Takanawa ehf. Tengiliður fyrir þeirra hönd er Margrét S. Björnsdóttir sími 8677817.

- Úr fréttatilkynningu með smábreytingu - 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Guðmundsson

Las þessa grein, takk, mjög áhugavert að skoða.

Þórður Guðmundsson, 9.8.2012 kl. 11:18

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband