Aðlögun að íslensku lífi

Er aðlögun að íslensku lífi erfitt verkefni fyrir innflytjendur?„Já": svara ég, sem einn af innflytjendum hérlendis, þrátt fyrir þá staðreynd að ég er búinn að búa hér í 20 ár. Það fer að sjálfsögðu talsvert eftir manni sjálfum en ég held að það séu aðeins örfáir innflytjendur sem myndu segja að aðlögunin væri auðveld.

Ein af ástæðunum sem margir hafa bent á, fyrst og fremst, er tungumálið. Íslenskt tungumál er erfitt mál að læra og ná góðum tökum á. Ég er sammála því að tungumálið er eitt af því sem torveldar aðlögunina. En það eru einnig önnur atriði og mig langar að segja frá þeim en taka um leið fram að ég er ekki að ásaka Íslendinga. Aðlögun á að vera gagnkvæm: innflytjendur sem búa í íslensku samfélagi eiga að huga að því en íslenska samfélagið á líka að huga að innflytjendum. Ég vona að þetta sé efni til umhugsunar.

Þétt samskipti manna

Það sem er sérstakt á Íslandi er sú staðreynd að margir, þó ekki allir, þekkjast. Margir þekkjast síðan úr leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og síðan háskóla. Sumir fara út í nokkur ár og koma til baka aftur og starfa á höfuðborgarsvæðinu, eignast fjölskyldu og halda þannig áfram.

Venjulegur Íslendingur á því yfirleitt marga æskuvini og ættingja í kringum sig. Þetta er alls ekki sjálfsagt mál í öðrum hlutum heimsins. Í heimaborg minni, Tókýó, hitti ég t.d. aldrei bekkjarbróður minn á förnum vegi, aðeins ef ég hyggst gera það og plana.

Nú lýsi ég á frekar ýktan hátt því sem ég vil koma á framfæri. Samskipti fólks eru mikil og þétt, líkt og Íslendingar væru ein stór fjölskylda. Þetta þéttriðna net samskipta gerir innflytjendum erfitt fyrir og mörgum finnst erfitt t.d. að eignast íslenska vini. Oftast upplifir innflytjandi sig einangraðan, eins og í einangrun, á ákveðnu tímabili fyrst eftir að hann kemur hingað. Innflytjendur þarfnast vina en hins vegar þarfnast Íslendingar engra nýrra.

Það eru ekki fáir innflytjendur sem segja:„Ég býð Íslendingum í kaffisopa heim til mín en mér er ekki endilega boðið til þeirra." Þannig að það endar með að innflytjendur verða að vinum annarra innflytjenda.

Hið þéttriðna net samskipta getur einnig haft hagnýt áhrif. Ég ætla að vitna aftur í dæmi sem ég tók fyrir nokkrum árum. Þegar innflytjandi sótti um bankalán, þurfti hann að gera allt samkvæmt reglum. En Íslendingur sem ég þekkti fékk aðra afgreiðslu og lánið raunar mjög fljótlega.„Útibússtjóri þarna er æskuvinur minn", sagði hann.

Sameiginleg reynsla og upplifun

Þéttriðið net samskipta fólks á Íslandi birtist einnig á annan hátt líka. Íslendingar hafa deilt sömu reynslu og upplýsingum saman lengi sem smáþjóð. Því er fátt sem þeir þurfa að útskýra sín milli, hvort sem það er sagan sjálf eða þau málefni sem eru í umræðunni hverju sinni, nú eða slúðrið. Þetta er alveg sérstakt. Í Japan eiga Tókýó-búar ekki svo mikið sameiginlegt með íbúum Osaka, t.d. hvað varðar sögu svæðanna og héraðsmenningu.

Innflytjendur hafa ekki upplifað þessa sameiginlegu reynslu Íslendinga og upplýsingamiðlun. Það er því stundum erfitt að spjalla við Íslendinga og fylgjast með því sem er að gerast.

Ofangreint er ýkt mynd og mikið um alhæfingar en ég nota þau til þess að leggja áherslu á ýmislegt sem hindrar innflytjendur í að komast í samskipti við Íslendinga. Ég er alls ekki að ásaka Íslendinga. Ég held að við, innflytjendur og Íslendingar, verðum sameiginlega að komast yfir þessar hindranir og byggja upp gagnkvæman skilning og aðlögun hvorir að öðrum. Mér þætti mjög vænt um að sem flestir Íslendingar íhuguðu þessi atriði og hugsuðu hvernig þeir gætu nálgast okkur innflytjendur og jafnframt hvernig þeir geti hjálpað okkur að blandast inn í íslenskt samfélag.

- Birtist fyrst á Mbl. 29. ágúst - 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Blessaður Toshiki. Mikið rétt sem þú talar um. Innflytjendur eru innflytjendur og því kannske fjendur og óvelkomnir. Þetta gildir í öllum samfélögum, einníg í því samfélagi, Bandaríkjunum sem ég bý í. Innflytjendur flokka sig saman og reyna að lifa sínu upprunalegu lífi, útaf fyrir sig. Mest áberandi eru kínahverfin, China Town , heilu borgarhverfin td í New York og öðrum stórborgum. Kynntu þér ´innrás kínverja´ í Vancouver Canada, raunaleg saga. Muslimarnir leggja líka undir sig heil hverfi, allstaðar þar sem þeir koma. Menn sjá fram á að þessir innflytjendur koma til með að leggja undir sig viðkomandi land. Enda er það kannske meiningin. Islendingar eru fámenn þjóð með eigin tungu. Ásókn útlendinga er ekki til heilla. Svar íslendinga er og hefur alltaf verið að flýja landið, því miður. Eins og málum er nú háttað á Islandi koma utanaðkomandi menn að yfirtaka landið. Verið er að afhenda landsins gögn og gæði Stórríki Þýskalands. Þeir fáu íslendingar sem eftir verða flýja til fjalla. Islensk tunga og menning mun líða undir lok.

Björn Emilsson, 4.9.2012 kl. 01:12

2 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ég hef búið erlendis síðan 1971 og þá aðallega í Banaríkjunum og var í Yokohama í eitt ár.

Í Japan var ég var við mikinn rasisma gagnvat útlendingum "gaijin", til dæmis sum veitingahús höfðu skilti við dyrnar "if you don't speak japanese, you are not welcome here". Eins og Toshiki Toma veit orðið gaijin er niðrandi svipað og orðið nigger er fyrir fólk sem svart á hörund.

GAIJIN definition.

1.From Japanese, literarily meaning " outsider". A derrogatory and ethnocentric term used to describe a foreigner in Japan that has round eyes. Other East Asians are not referred as " gaijin".

Ég bauð starfsfélögum oft í kvöldmat, en fékk aldrei boð frá þeim. Samt þóttust þeir vera mínir bestu vinir þegar við vorum í vinnuni og út á bar. Toshiki Toma skylur af hverju ég segi í vinnuni og út á bar. Látum hann útskýra það ef hann vill.

Ég var með samning að vera í Japan í 5 ár en fór eftir eins árs veru, mér fannst ég ekki vera velkominn og ákvað að fara aftur til Bandaríkjana, þar bý ég til dagsins í dag líður mér bara vel þó svo að ég sé inflytjandi.

Þessi útlendingahverfi í Bandaríkjunum sem Björn talar um myndast af því að þessir hópar sporna við að aðlagast að nýju umhverfi og nýjum siðum og reynir að breita USA og siðum sem þar eru viðhafðir. Ef að siðir og lífernið voru svona góð þar sem þetta fólk kemur frá, af hverju er það þá að flytja til Bandaríkjana?

Mér hefur alltaf liðið vel í Bandaríkjunum og hef ekki fundið neina fjandsemi í minn garð í Bandaríkjunum enda reini ég að aðlagast umhverfinu, en ekki breita því.

Kveðja frá Las Vegas.

Jóhann Kristinsson, 4.9.2012 kl. 11:03

3 identicon

Íslendingar sem hafa alla tíð búið í eigin landi eiga trúlega erfitt með að skilja stöðu innflytjenda og því er þitt framlag til umræðu um innflyjenda mál mjög jákvætt.

Þú nefnir íslenskukunnáttu sem fyrstu hindrun í "aðlögunar ferli" innfluttra.              Eins og flest okkar, veit ég ekki hvernig íslensku kennslu fyrir innflyjendur er hagað en ég efa ekki að umbóta sé þörf á því sviði og tel að innflyjendur þurfi að koma skoðunum sínum í því sambandi á framfæri.                                                                     

Innflytjendur  gætu líka  stofnað "íslensku klúbba"  eða conversation classes  (undir leiðsögn Islendings) til uppfyllingar eða sem viðbót við þau íslensku námskeið sem í boði eru.

Kannski gætu slíkir klúbbar verið tengdir "mentoring" kerfi  sem myndi reyna að greina og mæta einstaklingsbundnum þörfum  einstakra innflyjenda á tengslum við nýja samfélagið.

Sjálf hef ég tvisvar verið "innflytjandi". Fyrir bragðið veit ég að "aðlögun" tekur sinn tíma og að alltaf verður eitthvað eftir af fyrri reynslu sem nýtist ekki í nýja samfélaginu.                                                                                                       

Lýsing þín á þjóðfélagslegum tengslum á Íslandi kemur mér mjög kunnuglega fyrir sjónir.                                                                                                 Innflytjendur , án íslenskra fjölskyldutengsla, verða  trúlega ekki boðnir í saumaklúbb eða bekkjarafmæli  og þeir geta ekki slegið á þráðinn til gamals bekkjarbróðurs til að flýta fyrir láni.                                                                  Lítið við því að gera en það þýðir ekki að innflytjendur til Íslands séu dæmdir til þjóðfélagslegrar einangrunar.

Ég geri mér grein fyrir því að sameinig innflytjenda er flókin því forsga þeirra er margbreytt.   Mér finnst, engu að síður, að fyrsta skrefið í aðlögun  innflyjenda hljóti að vera að þeir sameinist um að kynna innfæddum sín "aðlögunarvandamál" og næsta skrefið væri kannski að  þeir gæfu innfæddum kost á að kynnast sínum  menningarheimi á aðgengilegan hátt t.d.með námskeiðum, sýnikennslu eða fyrirlestrum tengdum þeirra upprunalega menningarheimi.

Þú spyrð hvernig Íslendingar gætu nálgast innflytjendur. Til að svar þeirri spurningu  þarf  skilgreiningu á hvaða nálgun innflytjendum myndi gagnast best.

Agla (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 13:04

4 identicon

Ágæt grein hjá þér Toshiki. Í Svíþjóð, þar sem ég bjó í mörg ár, voru ákvæði frá ríkisstjórninni, um að innflytjendur yrðu að búa þar sem yfirvöld ákvæðu og var þetta gert til að dreifa innflitjendum um allt land og flýta fyrir aðlögun þeirra að svíum og sænskum siðum. Þessi ákvæði voru tekin af vegna þrysstings frá innflytjendum sjálfum og var eins og við mannin mælt að innflytjendurnir fluttu í þúsundum suður í land og tróðu sér inn á ættingja. Þá mynduðust "getto" Tyrkir hér og Kúrdar þar o.svf.

Þetta fólk aðlagast ekki nýja samfélaginu nema að litlu leiti, enda áhuginn lítill. Margar múslimskar stúlkur hafa verið myrtar af sínu fólki, í Svíþjóð, af því að þær hafa viljað taka upp sænskan lísstíl og umgangast svía. Ég er ekki rasisti, en múslima vil ég ekki umgangast, því þeirra lífstíll er mjög vanþroskaður og til óþurftar, þótt þeir vilji meina annað sjáfir.

Vinur minn, skipaverkfræðingur, fór oft til Japan í eftirlitsferðir og bjó hann frekar hjá Japönunum en Ameríkönunum í skipasmíðastöinni, því Ameríkanarnir voru svo leiðinlegir. Hann sagði að Japanar væru mestu rasistar í heimi, en samt ágætir. Þeir segja að hvítt fólk sé í lagi, en svertigjar eru ekki fólk.

Það er eins og þú segir í greininni. Það verður að vera vilji frá beggja hálfu.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 13:42

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er ellstaðar erfitt að aðlaga sig í öðrum löndum sem innflytjandi ekki bara á Íslandi. Það er erfitt fyrir mann frá norður ríkjum bandaríkja að aælaga sig í suður ríkjunum. Þetta er mjög eðlilegur hlutur og ættu Íslendingar ekkert að skammast sín þegar þeir tala til útlendinga sem vilja fá allt eftir þeirra höfði. Hér borgum við ólöglegum flóttamönnum morð fjár fyrir að smygla sér inn í landið. Ég tel að það eigi að deporta öllum sem koma inn hérna ólöglega og ekki gefa þeim möguleika á að þykjast vera pólítískir flóttamenn. Að mínu mati er í lagi ef fólk kynnist og giftist en það ætti að vera nægilega hröð alþjóðavæðing. 

Valdimar Samúelsson, 4.9.2012 kl. 14:22

6 Smámynd: Björn Emilsson

Svo segir Laxness

En þegar á Íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima." Laxness (Eldur í Kaupinhafn. 13. kafli. Arnas Arnæus

Björn Emilsson, 4.9.2012 kl. 16:37

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Gott innlegg hjá þér Björn ef ég má taka svo til orða hér á þessari síðu. Laxnes kemst vel að orði í þessum efnum. Ég hef ferðast vegna vinnu um nær alla veröld. Menn eru velkomnir á flestum stöðum sem túristar en ekki meir. Takir þú atvinnu af heimamönnum þá ert þú ekki velkomin og yfirleitt undir vernd stjórvalda. í kring um árið 1000AD þá urðu kaupmenn á skipi að fara frá landi vegna þess að þeir voru með útlenska áhöfn og það hefir legið mikið við því þeir silgdu síðla hausts.

Valdimar Samúelsson, 4.9.2012 kl. 18:05

8 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ég var á Íslandi í sjö vikur í sumar og á ferðalagi mínu hitti ég tvær danskar konur. Aðra konuna hitti ég á Hólmavík og hina í Varmahlíð.

Báðar konurnar tjáðu mér að þær hafi átt heima í Danmörku.

Ég spurði hversu lengi þær hafi átt heima í Danmörku?

Þær voru báðar fæddar þar og voru í Danörku þar til rúmlega tvítugt.

Ég trúði þessu varla því að íslenzkan sem þær töluðu var eins og þær væru íslendingar, enginn hreimur.

Ég spurði hvernig þær gátu náð tökum á íslenzkuni eins vel og þær gerðu?

Sama svar kom frá báðum; þær hættu ekki að læra fljótlega eftir að fólk skyldi íslenzkuna þeirra heldur héldu áfram þangað til að þær náðu íslenzkuna fullkomlega.

Þannig að það er hægt að aðlaga sig að hverju sem er, svo framarlega sem viljinn er fyrir hendi.

Kveðja frá Las Vegas.

Jóhann Kristinsson, 4.9.2012 kl. 22:35

9 Smámynd: Toshiki Toma

Kæra fólk.

Þakka ykkur fyrir athugasemdirnar og skoðnarnar. Ég er viðstaddur úti núna og ekki með mikinn tíma til að skrifa hér.

Mig kangar að benda á eitt núna. Ég hef aldrei haft það í huga mínum að gera samanbyrði meðal þjóðanna og hver er best og hver er vond. Ég hef aldrei sagt eða skrigfað hingað til að t.d. Japan er betri þjóð en Ísland, þar sem ég hugsa það ekki.

Það sem ég vil gera að gera fyrirhöfn mína á landi þar sem ég bý núna enda ég á ábyrgð vegna þess.

kær kveðjur,

Toshiki

Toshiki Toma, 5.9.2012 kl. 23:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband