Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Múrar beggja vegna

Um daginn tók ég þátt í málþingi um móðurmál á Íslandi. Í umræðutíma tjáðu sig sex unglingar sem eiga annað móðurmál en íslensku. Þeir töluðu um reynslu sína af því læra móðurmál sitt á Íslandi og um erfiðleika í íslenskunámi. Meðal annars sögðu þeir: ,,Ég vil ekki nota móðurmál mitt (sem er ekki íslenska) á opinberum vettvangi. Þegar fólk í kringum mig tekur eftir því, starir það alltaf á mig, á neikvæðan hátt".

Þar heyrðist einnig þessi rödd: ,,Kennarinn minn í grunnskóla sagði mér að nota ekki móðurmál mitt, heldur alltaf að nota íslensku, ef ég vildi ná framförum í íslensku". Reynslusaga unglinganna bendir á það andrúmsloft sem er til staðar í samfélaginu, sem reynir að stöðva það að innflytjendur noti móðumál sitt hérlendis.  

Talsvert hefur verið rætt um auglýsingu Stöðvar 2 þar sem ,,Tong Monitor" sem er gerviasíubúi talar ensku með hreim. Þetta er dæmigerð staðalímynd af asíubúa en mér finnst þetta geta haft slæm áhrif á stöðu innflytjenda, ekki aðeins asískra innflytjenda heldur allra innflytjenda. Það er vegna þess að grín gert að ,,framburði á ensku með hreim" verður fljótt að gríni að ,,framburði á íslensku með hreim". Ef fólki finnst gaman að heyra ensku með hreim, þá mun því finnast gaman að heyra íslensku með hreim líka. Þetta er svo auðséð.    

Raunar finnst mér framburður á íslensku vera erfiðari en á ensku. Á íslensku kemur að mínu mati hreimur jafnvel skýrar fram en þegar enska er töluð og það er ekki auðvellt að bæta. Margir innflytjendur þurfa að þola að tala íslensku með hreim. Ef við megum búast við að mæta gríni á okkar kostnað út af framburði og hreim, hvernig líður okkur þá með það?

Annarsvegar búum við við andrúmsloft sem hindrar innflytjendur í að tala eigið móðurmál og hinsvegar býr ákveðinn kraftur fjölmiðlanna til aðstæður þar sem innflytjendur hika við að tala íslensku, ekki síður en ensku. Ef það er veruleikinn sem innflytjendur búa við, standa þeir fastir með múra beggja vegna. Er slík staða eftirsóknarverð?

Ýmislegt í samfélaginu sem lítur út fyrir að vera sjálfstætt getur samt haft áhrif á aðra þætti í stóru samhengi. Auglýsing Stöðvar 2 er ekki undantekning á því. Hún gæti orðið hluti múrsins sem kemur í veg fyrir samþættingu innflytjenda, þó að slíkt sé ekki tilgangur hennar.

Við skulum skoða málið aðeins í stærra samhengi, sem er viðhorf Íslendinga til erlendra tungumála í samféginu og framandi íslensks máls. Umræða um ,,Tong" gæti orðið tækifæri til þess að hugleiða það. Von mín er umræða verði leidd á skapandi og uppbyggjandi átt. 


-Fyrst birt í Mbl. 20. nóvember 2012-

 

 


Grín eða einelti?

Ég hef spáð mikið í auglýsingu Stöðvar 2, þar sem Pétur Jóhann Sigfússon leikur ,,Tong Monitor", mann sem á að vera af asískum uppruna og talar framandi ensku með hreim.

Auglýsingin vakti athygli fólks og margir telja hana vera særandi í garð asísk fólks á Íslandi en aðrir bara saklaust grín. Sjálfum finnst mér auglýsingin (eða leikur Péturs) ekki vera fyndin og hafa vond áhrif á íslenskt þjóðafélag. Af hverju?

Ég vil þó benda á eitt fyrirfram, að þó "Tong" tali ensku, en ekki íslensku, skiptir það ekki máli þar sem málið hér er að taka upp "framburð með hreim" og grínast með hann. Eftirherma á ensku verður fljótt að eftirhermu á íslensku í huga manns.

Í fyrsta lagi, er framburður hins íslenska tungumál fólki af asískum uppruna mjög erfiður. Hreimurinn stafar ekki af vanrækslu við íslenskunámið heldur er framburðurinn okkur einfaldlega erfiður. Við erum, og nú tala ég ef til vill fyrst og fremst fyrir sjálfan mig, ekki stolt af það að tala íslensku með hreim. Starfs míns vegna býðst mér oft að koma í útvarpsþætti og tala en ég skammast mín alltaf hve lélega íslensku ég tala.

Samt tala ég í útvarpi sé mér boðið það vegna þess að það er hluti af starfi mínu. Ég myndi þó verða dapur ef einhver gerði grín að framburðinum mínum. Grín líkt og með „Tong Monitor" er því ógn fyrir fólk sem talar og verður, t.d. starfs síns vegna eða bara almennra samskipta, að tala íslensku með hreim.

Í öðru lagi,  þá eru í  áhorfendahópi Stöðvar 2 börn og unglingar. Hvað hugsa þau þegar auglýsingin er sýnd?  Skilaboðin frá hinum íslenska fjölmiðli eru skýr: ,,Ah, við megum gera grín að innflytjendum með því að herma eftir ensku eða íslenskunni þeirra". Þetta er vondur boðskapur.

Ég tel að í þjóðfélaginu séu einhver siðferðisleg viðmið. Varðandi grín í fjölmiðlum þá vil ég segja þetta: Gerið grín að þeim sem geta svarað fyrir sig. Að gera grín að fólki sem getur ekki svarað fyrir sér er í mínum huga það sama og einelti. Hvernig getur sérhver manneskja af asískum uppruna svarað fyrir ,,hið opinbera grín" Stöðvar 2.

Ég er undrandi á að Stöð 2 skuli ekki hafa séð fyrir hvaða áhrif auglýsingin myndi hafa. Ég óska þess að fjölmiðlafólk læri af þessari reynslu. 


- Fyrst birti í Fréttablaðinu 15. nóv. 2012-  

 

 


,,Meir´en að segja það"

Málþing um móðurmál minnihlutahópa á Íslandi ,,Meir´en að segja það" verður haldið í Gerðubergi þann 9. nóvember kl. 13:00 - 17:00.

Á þinginu verða fjölbreytt sjónarmið hlutaðeigenda móðumálsmenntunar til umfjöllunar af hálfu menntamálayfirvalda, kennara og foreldra tví- og fjöltyngdra barna. Þá munu börn og ungmenni með annað móðurmál en íslensku þ.m.t. táknmál fjalla um sína reynslu og skoðun. Í lok þingsins gefst þátttakendum tækifæri til að kynnast lifandi tungumálum. Boðið verður upp á táknmálstúlkun á þinginu.

Málþingið er skipulagt í tengslum við Hringþing um menntun innflytjenda sem haldið var af Innflytjendaráði o.fl. í september sl. Tilgangur málþingsins er að varpa ljósi á stöðu móðurmálsmenntunar á Íslandi og huga að næstu skrefum í móðurmálsmenntun tví- og fjöltyngdra barna sem er eftirsóknarvert fyrir samfélagið í heild.  

,,Meir´en að segja það" er haldið á vegum Rannsóknastofu Háskóla Íslands í fjölmenningarfræðum, í samvinnu við Samtökin Móðurmál, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Tungumálatorg og Menningarmiðstöðin Gerðuberg.

Málþingið er öllum opið og þátttökugjald er 1.000kr. Skráning fer fram á síðunni  http://tungumalatorg.is/modurmal

 

Dagskrá

 

Fundarstjóri Einar Skúlason (MBA og BA í stjórnmálafræði)

13:00 

Setning 
Katrín Jakobsdóttir (Mennta- og menningarmálaráðherra)

13:10 

Ljóðaupplestur A 
Tvítyngt barn

13:15-

Um stöðu móðurmálskennslu á Íslandi 
,,Hvað er að gerast í kennslu og vinnu með fjölbreytt  móðurmál á Íslandi í dag?"
Fríða Bjarney Jónsdóttir (Verkefnastjóri/ráðgjafi í fjölmenningu á skóla- og frí
stundasviði Reykjavíkurborgar) 

13:35-

Sjónarmið menntamálayfirvalda
Guðni Ólgeirsson
(Sérfræðingur í Mennta- og menningarmálaráðuneyti)

13:55-

Sjónarmið táknmálsnotenda
,,Íslensk táknmál og þungmiðja þess í lífi fólks"

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir (Formaður félags heyrnarlausra)
Hjördís Anna Haraldsdóttir (Kennari og verkefnastjóri táknmálssviðs Hlíðaskóla)

14:15-

Ljóðaupplestur B
Tvítyngt barn

14:20-

Sjónarmið foreldra tvítyngdra barna
Cinzia Fjóla Fiorini, María Sastre, Renata Emilsson Peskova (Samtökin Móðurmál)

14:40-

Kaffi

15:00-

Sjónarmið grunnskólakennara
Kristín Hjörleifsdótti
r (Kennari í Fellaskóla)

15:20-

Innlegg frá tvítyngdum börnum 
Skólabörn með Kriselle Lou Suson Cagatin
(Samtökin Móðurmál) og Karen Rut Gísladóttur (Lektor á Menntavísindasviði HÍ) til aðstoðar

16:00-

Samantekt
Óttarr Proppé (Borgarfulltrúi og formaður starfshóps um börn og fjölmenningu hjá skóla- og frístundasvíði Reykjavíkur)

16.10-

Lifandi tungumál 
í umsjón Kristínar R. Vilhjálmsdótttur (Verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafni)

Táknamálstúlkur verður með á málþingi 


Sanngjörn meðhöndlun óskast

Fréttir herma að Útlendingastofnun hafi breytt reglugerðum svo að hælisleitandi megi ekki sækja um tímabundið atvinnuleyfi ef hann hefur áður sótt um hæli í landi þar sem Dyflinnarsáttmálinn ríkir. Hælisleitandi skal vera sendur sem fyrst til baka til þess lands sem hann kom frá ef ekki er hægt að sýna fram á að málið þarfnist sérstakrar skoðunar. 

Ef til vill skiptir þessi breyting ekki miklu þegar brottvísunin á sér samstundis eða fljótt stað. En þegar hælisleitandi bíður hér á landi á milli vonar og ótta, þegar ástæða þykir að kanna sérstakar aðstæður, getur það valdið honum tilfinningum eins og pirringi og vonleysi um framtíðina, því það getur tekið yfirvöld marga mánuði að komast að niðurstöðu. 

Mér skilst á þeim hælisleitendum sem ég þekki að sérstakar ástæður séu fjölmargar. Það getur verið ofbeldisárás (rasismi) í því landi sem hælisleitandi sótti fyrst um, ósanngjörn afgreiðsla máls, órökstuddur þrýstingur brottvísunar o.fl. Að mínu mati krefjast slík dæmi endurskoðunar á grundvelli Dyflinnarsáttmálans. 

Í fréttum RÚV í maí sl. kom fram að það kostaði 7.000 kr. á hverjum degi að framfæra hvern hælisleitanda. Ef hælisleitandi finnur atvinnu, þarfnast hann ekki þessarar opinberu framfærslu. Margir hælisleitendur vilja vinna. Með því geta þeir a.m.k. staðfest að tilvist þeirra er ekki til einskis. Jafnframt sparast opinbert fé. Hvers vegna er þá svona erfitt fyrir þá að fá tímabundið atvinnuleyfi? 

Ég óska þess að meðhöndlun hælisleitenda sé sanngjörn og afgreiðsla mála þeirra sé gagnsæ með öllu.


-Fyrst birt í FrB. 25. okt.-

  


Starfstengd íslenska

Í Morgunblaðinu 19. september sl. birtist frétt um atvinnuleysi Pólverja hérlendis. Atvinnuleysi erlendra ríkiborgara mælist rúm 8% en 60% af þeim hópi eru Pólverjar. Í greininni var bent á að ein helsta hindrunin fyrir Pólverja (og aðra útlendinga) á vinnumarkaði væri ónóg kunnátta í íslensku.

Margir vinnuveitendur setja nú stífari skilyrði varðandi íslenskukunnáttu en áður. Í greininni segir Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri vinnumiðlunar- og ráðgjafarsviðs hjá Vinnumálastofnun: „Við erum að leggja mat á þörf fyrir íslenskunám, hvort það þurfi að skipuleggja með öðrum hætti en við höfum gert. Það virðist ekki hafa skilað þeim árangri sem vænta mætti."

Síðan benti hún á hugsanlega nauðsyn þess að kenna íslensku tengda starfsgreinum.

Sú ábending að íslenskukunnátta sé mikilvæg fyrir innflytjendur er alls ekki ný af nálinni en umræðan snýst þó sjaldan um hvers konar íslensku innflytjendur eigi að læra og að því leyti fagna ég orðum Hrafnhildar.

Hún bendir raunar einnig á það að, réttilega, að fyrir hrun höfðu margir útlendingar lært íslensku samhliða vinnu sinni, en eftir það virðist íslenskukennsla útlendinga hafa farið fyrir ofan garð og neðan og er tilviljunarkenndari.

Þá er fólk ekki alltaf meðvitað um hversu umfangsmikið eigið tungumál er, eins og t.d. íslenskan. Fagorð eru til dæmis mjög mismunandi og lögfræðingur notar önnur orð í vinnu sinni en sá sem vinnur í blómaverslun eða leikskóla.

Ég uppgötvaði þetta sjálfur þegar ég hóf íslenskunám fyrir tuttugu árum á námskeiði í Háskóla Íslands og kaus fremur að læra „kirkjulega íslensku", þar sem ég er prestur, frekar en að læra hvaða orð eru notuð yfir eldhúsáhöld á íslensku (sem er dæmigert námsefni í háskóla).
Ég held að ég hafi valið „starfstengda íslensku" án þess að hafa þá skýra meðvitund um slíkt hugtak. En á þeim tíma var brýn nauðsyn á því til að ég gæti starfað sem prestur.

Ég tel því best fyrir innflytjendur sem ætla að vinna hér að læra „starfstengda íslenska" í ákveðinni starfsgrein. Fólk lærir síðan smám saman íslensku á öðrum sviðum.

Það er mjög auðvelt að segja við innflytjendur: „Lærið íslensku", en það er torvelt verkefni fyrir okkur. Sérstaklega þegar innflytjandi er enn að fóta sig í nýju landi og veit ef til vill ekki hvernig á að bera sig að til þess að hefja íslenskunám.

Það er mín skoðun að það sé ekki bráðnauðsynlegt fyrir innflytjanda að byrja á að læra heitin á mat og eldhúsáhöldum á meðan hann vill fá vinnu sem fyrst t.d. í byggingargeiranum eða er ef til vill byrjaður að vinna. Íslenskukennslan ætti að miðast fyrst og fremst við starfsvettvang hans.

Ég óska þess innilega að við tökum enn eitt skrefið til framfara í íslenskunámi fyrir innflytjendur og miðum þá við þarfir þeirra á vinnumarkaði.


-Fyrst birt á Mbl. 26. september 2012- 


Kínverjar sendu herskip til eyjanna

Í dag 18. september er minningardagur um ,,Liutiaohu Incident" í Kína á árinu 1931, sem varð að upphafi innrásar Japana á Kína fyrir heimsstyrjöldinni síðari. 

Í þessu tilefni hafa margar mótmælasamkomur gegn Japan verið haldnar víða í Kína og jafnt sem í mörgum borgum utan Kína. Slík mótmæli voru haldin hér á Íslandi líka fyrirframan sendiráð Japans á Laugarvegi.

Á baki við þessi mótmæli liggur umdeilt mál sem varðar ,,Senkaku-eyjurnar", sem Japan, Kína og Taiwan krefst eiginn eignarréttar. 

Mótmælasamkomur virðast hafa misst stjórn á sér stundum og urðu að óeirðum, sérstaklega í Kína. Æst fólk brjót inn í japanskar veitingarstaði, skemmdi verksmiðju japanskra fyrirtækja eða brann japanska bíla.
 
Nú eru flest japönskum fyrirtækjum í Kína lokað og Japanir dvelja í heimili sínu. Nokkur ofbeldistilfelli gegn japönskum einstaklingum hafa einnig verið tilkynnt og ferðamenn frá Japan óttast að vera þekktir sem Japanir. 

Ég tel ,,Senkaku-eyjurnar" tilheyra Japan miðað við sögu okkar og þær hafa ekkert samband við nýlendastefnu Japans í fyrri hálfum 20. aldarinnar. En hvað sem maður álítur málið um eyjurnar, réttlætist ekki ofbeldisfull framkoma gagnvart fólki eða einstaklingi sem ber ekki neina beina ábyrgð á málinu. 

Það sem stjórnvöldin Kína eiga að gera núna er ekki að senda landahelgigæsla til ,,Senkaku", heldur róa fólk sitt og setja samfélagslíf aftur í frið. 

Kínversk þjóð er orðin sterk og rík í efnahagslegu svíði. Verður hún ekki að sanna þá á næstunni að Kína er einnig orðið þjóð þar sem almenn siðmenning og réttlætiskennd ríkur?  
Annars álit þjóða í heiminum á Kína mun ekki bætast.     

 


Aðlögun að íslensku lífi

Er aðlögun að íslensku lífi erfitt verkefni fyrir innflytjendur?„Já": svara ég, sem einn af innflytjendum hérlendis, þrátt fyrir þá staðreynd að ég er búinn að búa hér í 20 ár. Það fer að sjálfsögðu talsvert eftir manni sjálfum en ég held að það séu aðeins örfáir innflytjendur sem myndu segja að aðlögunin væri auðveld.

Ein af ástæðunum sem margir hafa bent á, fyrst og fremst, er tungumálið. Íslenskt tungumál er erfitt mál að læra og ná góðum tökum á. Ég er sammála því að tungumálið er eitt af því sem torveldar aðlögunina. En það eru einnig önnur atriði og mig langar að segja frá þeim en taka um leið fram að ég er ekki að ásaka Íslendinga. Aðlögun á að vera gagnkvæm: innflytjendur sem búa í íslensku samfélagi eiga að huga að því en íslenska samfélagið á líka að huga að innflytjendum. Ég vona að þetta sé efni til umhugsunar.

Þétt samskipti manna

Það sem er sérstakt á Íslandi er sú staðreynd að margir, þó ekki allir, þekkjast. Margir þekkjast síðan úr leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og síðan háskóla. Sumir fara út í nokkur ár og koma til baka aftur og starfa á höfuðborgarsvæðinu, eignast fjölskyldu og halda þannig áfram.

Venjulegur Íslendingur á því yfirleitt marga æskuvini og ættingja í kringum sig. Þetta er alls ekki sjálfsagt mál í öðrum hlutum heimsins. Í heimaborg minni, Tókýó, hitti ég t.d. aldrei bekkjarbróður minn á förnum vegi, aðeins ef ég hyggst gera það og plana.

Nú lýsi ég á frekar ýktan hátt því sem ég vil koma á framfæri. Samskipti fólks eru mikil og þétt, líkt og Íslendingar væru ein stór fjölskylda. Þetta þéttriðna net samskipta gerir innflytjendum erfitt fyrir og mörgum finnst erfitt t.d. að eignast íslenska vini. Oftast upplifir innflytjandi sig einangraðan, eins og í einangrun, á ákveðnu tímabili fyrst eftir að hann kemur hingað. Innflytjendur þarfnast vina en hins vegar þarfnast Íslendingar engra nýrra.

Það eru ekki fáir innflytjendur sem segja:„Ég býð Íslendingum í kaffisopa heim til mín en mér er ekki endilega boðið til þeirra." Þannig að það endar með að innflytjendur verða að vinum annarra innflytjenda.

Hið þéttriðna net samskipta getur einnig haft hagnýt áhrif. Ég ætla að vitna aftur í dæmi sem ég tók fyrir nokkrum árum. Þegar innflytjandi sótti um bankalán, þurfti hann að gera allt samkvæmt reglum. En Íslendingur sem ég þekkti fékk aðra afgreiðslu og lánið raunar mjög fljótlega.„Útibússtjóri þarna er æskuvinur minn", sagði hann.

Sameiginleg reynsla og upplifun

Þéttriðið net samskipta fólks á Íslandi birtist einnig á annan hátt líka. Íslendingar hafa deilt sömu reynslu og upplýsingum saman lengi sem smáþjóð. Því er fátt sem þeir þurfa að útskýra sín milli, hvort sem það er sagan sjálf eða þau málefni sem eru í umræðunni hverju sinni, nú eða slúðrið. Þetta er alveg sérstakt. Í Japan eiga Tókýó-búar ekki svo mikið sameiginlegt með íbúum Osaka, t.d. hvað varðar sögu svæðanna og héraðsmenningu.

Innflytjendur hafa ekki upplifað þessa sameiginlegu reynslu Íslendinga og upplýsingamiðlun. Það er því stundum erfitt að spjalla við Íslendinga og fylgjast með því sem er að gerast.

Ofangreint er ýkt mynd og mikið um alhæfingar en ég nota þau til þess að leggja áherslu á ýmislegt sem hindrar innflytjendur í að komast í samskipti við Íslendinga. Ég er alls ekki að ásaka Íslendinga. Ég held að við, innflytjendur og Íslendingar, verðum sameiginlega að komast yfir þessar hindranir og byggja upp gagnkvæman skilning og aðlögun hvorir að öðrum. Mér þætti mjög vænt um að sem flestir Íslendingar íhuguðu þessi atriði og hugsuðu hvernig þeir gætu nálgast okkur innflytjendur og jafnframt hvernig þeir geti hjálpað okkur að blandast inn í íslenskt samfélag.

- Birtist fyrst á Mbl. 29. ágúst - 

 


Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti tekur til starfa um mánaðamót. Samkvæmt Fréttablaði dagsins: ,,Hið nýja ráðuneyti tekur yfir verkefni sjávarútvegs- og landbúnaðar-, iðnaðar- og efnahags og viðskiptaráðuneytisins að öllu eða hluta".
Og þessi breyting er greing sem viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til að komast yfir veikleika íslenskrar stjórnsyslu. 

Ég sagði sama þegar innanríkisráðuneyti tók yfir störf dóms- og mannréttindamálaráðuneytisins og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins, grunar mig hvort sameining af þessu tagi sé í samræmi við lýðræðislega skipulagningu stjórnvalda.
Ég hef nokkrar áhyggjur af því of mikið af valdi er falið einum valdhafa. Ég tel að það eigi að vera rými fyrir mismunandi álits á sama málefni til þess að halda í jafnvægi jafnvel innan yfirvaldanna ríkisins.  

Einnig verður mikið vinnuálag á eitt ráðuneyti. Forsíða Fréttblaðsins segir frá kvörtun forstjóra Eimskips varðandi afgreiðslu beiðni sína hjá innanríkisráðuneytisins. Forstjórinn bað ráðuneytið um fund vegna laumufarþega (hælisleitenda) 16. júlí en ekkert svar er enn komið frá ráðuneytinu.
Ef slík töf stafar af of mikilli vinnuálagi, borgar sameining sig ekki.

Ég vona að því sem ríkistjónin stefni sé ekki að búa til ,,hið eina- og almáttuga ráðuneyti". 

 


Mótum betri samskiptaleiðir

Reykjavíkurborg heldur fjölmenningarþing í annað skipti nú í nóvember og er undirbúningur þess í gangi. Umræðuefnin sem fjölmenningarþingið á að taka fyrir virðast vera margvísleg, eins og t.d. samræmi milli stefnu sveitafélaga og ríkis, þjónusta ríkisstofnana, upplýsingarmiðlum til og meðal innflytjenda, atvinna og menntun o.fl. Það er svo auðvitað frábært að ræðuefni verða einnig valin eftir óskum innflytjenda sjálfra. En valið er ekki svo auðvelt. 

Það er fyrst og fremst í höndum skipuleggjenda þingins sem sér um að kynna fyrir innflytjendum áætlun þingsins og biðja um þeirra skoðun á ræðuefni.    

Til hverra eiga skipuleggjendur að senda erindi og á hvaða tungumáli? Síðan kemur annað mál sem er erfitt. Hvernig geta innflytjendur komið því til skila sem þeir hafa í huga til skipuleggjenda. Það snýst ekki aðeins um atriði eins og tungumál heldur einnig þau sem lúta að innri hvötum og vilja okkar innflytjenda.
Það virðist vera meiri fjarlægð í samskiptum  milli borgarstjórnar og/eða  ríkisstjórnar en sem nemur raunverulegri fjarlægð innflytenda.  

Mér finnst að við - stjórn í ríkis og sveitafélaga og innflytjendur - eigum að horfast í augu við að við þurfum að móta samskiptaleiðir á milli okkar. Af reynslu minni sem prestur innflytjenda hefur þetta verið vandamál alla tíð undanfarin áratug. Annars vegar getur meirihluti innflytjenda ekki skilið hvað stjórnvöld vilja gera fyrir innflytjendur og hins vegar geta stjórnvöld ekki vitað hvað innflytjendur hugsa og hvers þeir óska. Nú blasir það við að þetta er vandamál sem við komumst ekki yfir án sérstaks átaks. Þá er bara spurningin hvernær og hvernig eigum að finna betri leiðir fyrir samskiptin? 

Mér finnst það vera áríðandi á verkefnaskrá innflytjendamála að stofna fasta leið til þess að samskiptin séu nægileg, sértaklega fyrir innflytjendur. Ég trúi því raunar að mörg vandamál í myndast stundum í kringum innflytjendur myndu leysast með því að tryggja samskiptin á milli stjórnar og innflytjenda. 

Ég get því miður ekki komið með góða tillögu um hvernig við eigum að móta netkerfið en það hlýtur að vera samvinnuverkefni. Eitt sem er ómissandi í verkefninu er virkja innflytendur og stöðuga þáttöku okkar innflytjenda sjálfra enda varðar þetta okkur sjálf.  

- Fyrst birt á Fréttablaði 28.ágúst 2012 - 

 


Þjóðernishyggja á villa leið

Japanska þjóðin er að horfast í augu við tvö aðskilin landamælavandamál þessa daga. Hitt er mál um Takeshima-eyjur (Dokdo á kóreansku) sem eru í miðju milli Japans og Suður-Kóreu, og annað er mál um Senkaku-eyjur (Diaoyudao á kínversku, Diaoyutai lieyu á kínversku í Taiwan) sem eru í miðju Taiwan, Kína og Japans.

Í báðum tilfellum eru eyjurnar mjög litlar og einskis virði sem ,,land". Málið í Senkaku er möguleika um olíu og gas undir sjónum og málið í Takeshima er fiskaveiðaréttindi.

Takeshima varð hluti af Japan árið 1905 og enginn bjó þar. (Ekki hægt að búa þar í raun.) Eyjurnar voru viðurkenndar sem hluti af Japan jafnvel af dómi Bandamannanna eftir heimsstjyrjördin síðari, en Suður-Kórea hefur geymt stjórn eyjanna með hervaldi síðan 1952 til núna.

10. ágúst sl. kom Lee Myuung-bak á eyjurnar í fyrsta skipti sem forseti Suður-Kóreu, en tilgangurinn hans var að sýna fram fullyrðingu Suður-Kóreu að Takeshima væri hluti af sér.

Eftir 5 daga, 15. ágúst sl. komu 14 "activists" frá Kína, Hong-Kong og Makaó á Senkaku-eyjar og þeir voru handteknir af landhelgigæslu Japans. Þeir voru sendir til baka fljótlega frá Japan.

Senkaku-eyjur urðu hluti Japans árið 1895 og þar til bjúggu nokkrir menn frá Ryukyu (Okinawa) á eyjunum. Hvorki Kína né Taiwan hafði krafist eignaréttar eyjanna þar til 1968 þegar möguleiki um olíu og gas kom í ljós. Japan segir annars vegar að það er engin ,,vandamál" til staðar um Senkaku-eyjur formlega, en hins vegar takmarkar Japan aðgang Japana að þeim.
Nýleg tilraun af Tókýó-metropolis til að kaupa upp Senkaku (Það er eigandi eyjanna til, sem er einstaklingur) frá eigandanum hlýtur að hafa örvað Kínverja.

Stjórnvöldin báðum í Suður-Kóreu og Kína virðast tengja málin við innrás Japans í heimsstyrjöldartímabili og tala hátt um mál við fólk sitt. Það hefur tekst vist og núna breiðir ,,Anti-Japan" hreyfing yfir allt Kína og Suður-Kóreu eftir því sem ég get séð í fréttum.

Náttúrlega eykst andúð Japana gegn Kóreum og Kínverjum líka. Nýleg könnun sýnir fram að fleiri en 80% Japana eru með neikvæða tilfinningu gagnvart Kínverjum, á móti um 60% Kinverja eru sama tilfinningu við Japana.

Mér þykir leitt að sjá slíkar aðstæður, þó að undanfarin 10 ár hefi samband meðal Japans, Suður-Kóreu og Kína verið í fínu lagi. Sérstaklega sambandið milli Japana og Kórea var meira en ég gat bjóst við þegar ég var unglingur. Hvers vegna þurfum við að eyðileggja allt í einu það sem við vorum búin að eignast eftir erfiðu söguna?

Mér skilst að hver aðili hefur eitthvað að segja, en þá eigum við segja það á almennilegan, heiðarlegan og rökstuddan hátt. Að æpa og kasta skitu hvert á öðru borgar sig ekki. Reiði og tilfinngarleg viðbrögð sem þjóð eru hættuleg. Hér á ég við okkur Japana líka.

Fjölmiðlarnir og leiðtogar þjóðanna verða að róa fólk sitt og aðstæðurnar. Stríð eða átök, jafnvel þó að það sé í ákveðnu svæði, er auðvelt að byrja en afar erfitt að ljúka. Þá væri betra að forðast að slíkt á sér stað. 
Þjóðernishyggja á villa leið er verri en ekkert.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband