Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.5.2008 | 15:32
Lítil hugleiðing um geðheilsu innflytjenda
Í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdeginum í fyrra (10 október) var haldin ráðstefna sem bar yfirskriftina ,,Innflytjendur og geðheilbrigði. Ráðstefnan var haldin að frumkvæði Geðhjálpar auk ýmissa samstarfsaðila. Í kjörfar hennar mótaðist hópur áhugafólks, bæði á vegum samtaka og eins einstaklingar í kringum Geðhjálp. Hópurinn fundar reglulega til þess að skipuleggja fræðslustundi, búa til fræðsluefni og móta raunhæfar tillögur sem hægt er að leggja fram um málefni geðsjúkra, bæði til heilbrigðisyfirvalda og almennings.
Ég tek þátt í samstarfhópnum og hef skoðað sérstaklega þann málaflokk er lýtur að geðheilsu innflytjenda, sem er raunar afskaplega stórt málefni. Mig langar til þess að deila hugmyndum mínum með lesendum, en hún er skoðun mín sem einstaklings en ekki sem fulltrúa ofangreinds samstarfshóps.
Þegar manni liður illa, er með kvíði eða ofsóknakennd, er nauðsynlegt að geta talað við einhvern annan um það. Að tala um vanlíðan sína virkar mjög vel inn í daglegt líf okkar.
En venjulega getur maður ekki dæmt um það sjálfur hvort maður sé með andlegan sjúkdóm eða manni líði illa án þess að vera alvarlega veikur. Ef vanlíðan er mikil og viðvarandi, er nauðsynlegt að leita sér aðstoðar hjá lækni eða sérfræðingi fljótlega. Þetta á við um alla óháð því hvort um Íslending sé að ræða eða innflytjanda.
Hins vegar getur þetta verið bæði flókið og erfitt sérstaklega þegar innflytjandi á í hlut. Af hverju? Það má telja strax fram atriði eins og: A) tungumálaerfiðleika viðkomandi, B) vanþekkingu viðkomandi á heilsugæslukerfinu, C) menningarlega hindrun þess að tala um eigin vandamál við annað fólk, D) erfiðleikar við að viðurkenna andlegan sjúkdóm sinn. Þannig virðist stundum ákveðin fjarlægð vera til staðar milli einstaklings af erlendum uppruna og fagfólks í heilsugæslukerfinu.
Til þess að brjóta þennan vegg niður langar mig að skoða málið með því að skoða þrjá hlutaðeigendur, þ.e.a.s. heilsugæslukerfið, innflytjendur sjálfa og fólkið í kringum innflytjendur.
Mér sýnist að heilsugæslukerfið hafi staðið vel að því að undanförnu að taka á móti innflytjendum. Að sjálfsögðu er ýmislegt sem enn mætti bæta þar sem það virðist sem kerfið fylgi ekki þróun málefnisins, samt er sýnilegt að heilbriðgiskerfið batnar stig af stigi þegar innflytjendur eiga í hlut. Varðandi geðheilsumál, þá væri það til bóta ef heilsugæslan gæti búið til einfaldan bækling sem sýnir fram á það hverjir geti sótt um hvers konar þjónustu í heilsugæslukerfinu og hvar. Einnig er það mikilvægt að draga fram nokkur dæmigerð einkenni þunglyndis eða kvíða svo að innflytjendur og aðstandendur þeirra öðlist betri þekkingu á sjúkdóminum.
Þó að heilsugæslan bjóði upp á góða þjónustu, er að sjálfsögðu ekki hægt að neyða innflytjendur til þess að nota þjónustuna. Innflytjandi, eins og hver annar, ber ávallt endanlega ábyrgð á geðheilsu sinni, nema í sérstökum tilfellum. En hvað gerist þá ef innflytjanda sem líður illa getur alls ekki skilið íslensku og þekkir ekki heilsugæslukerfið hérlendis? Eða hvað ef hann er með eins konar fordóma gagnvart geðsjúkdómum og við að fá aðstoð út af þeim?
Ég tel að lykilaðilarnir í þessu máli séu það fólk sem er í kringum innflytjendur. Það er t.d. fjölskyldur þeirra sem geta verið einnig innflytjendur, samlandar þeirra sem tala íslensku og þekkja kerfið vel, íslenskir vinir eða samstarfsfólk í vinnu og svo framvegis, m.ö.o. það fólk sem hefur bein og dagleg samskipti við innflytjendur. Það er nefnilega fólk sem getur útskýrt kerfið fyrir innflytjendum, þýtt upplýsingar á móðumál viðkomandi, sannfært um nauðsyn þess að fara til læknis, hvatt til þess að það sé gert og jafnvel hjálpað einstaklingum við að panta tíma hjá réttum lækni.
Þegar ég dreg upp mynd þar sem heilsugæslan er vinstra megin og nýkomnir innflytjendur hægra megin, þá vantar þarna aðila sem hefur milligöngu þess að báðar hliðar tengist. Sá aðili er í raun og veru að mínu mati, sá sem fær heildarkerfið til að virka fyrir innflytjendur.
Þess vegna finnst mér nauðsynlegt og mikilvægt að starfsemi fyrir bættri geðheilsu innflytjenda taki mið af því fólki sem er í kringum innflytjendur. Fræðsla um einkenni geðsjúkdóma, kynning á geðheilsuþjónustu eða fundir þar sem málefnið er kynnt og rætt eru leiðir sem hægt er að fara. En allt þetta verður að vera hannað jafnt fyrir þá sem eru í samskiptum við innflytjendur og fyrir innflytjendur sjálfa.
En til þess að forðast misskilning þá er ég ekki að segja að bein starfsemi við innflytjendur sé ekki mikilvæg. Ég vil einfaldlega leyfa mér að benda á að starfsemi við fólkið í kringum þá er einnig jafn mikilvægt.
Það sem hér hefur verið reifað er hugleiðing mín um geðheilsu innflytjenda. Mig langar vekja þá sem standa nærri innflytendum til vitundar um mikilvægi þeirra, einnig þegar kemur að geðheilsu innflytjenda. Málefnið er jú mjög persónulegs eðlis en samt mun betri árangur nást með aukinni vitund og skilningi umhverfisins.
- Stýttari útgáfa hugleiðingarinnar birtist í 24 stundum 9. maí -
27.4.2008 | 13:10
Mannréttindi og kirkjan
,,Mannréttindi og kirkja er mikilvægt efni til umhugsunar en það hefur varla nokkuð verið til umfjöllunar sem slíkt t.d. á málþingi eða ráðstefnum. En loksins þorir Reykjavíkurprófastsdæmi eystra að halda málþing með yfirskriftinni ,,Mannréttindi í heimi trúarinnar þann 28. apríl kl 16:15 í Hjallakirkju.
Augljóst er að umfangsefni sem eitt málþing getur fjallað um er afmarkað, en ég fagna þessari tilraun. Ég óska þess að fleiri tækifæri fylgi í kjörfari og jafnframt langar mig að skrifa nokkrar línur sjálfur að þessu tilefni.
Að hugsa um mannréttindi felur það ekki aðeins í sér að opna lögfræði bækur, lesa dóma eða alþjóðlega sáttmála. Slíkt er ómissandi hluti til að dýpka skilning okkar á mannréttindum og mannréttinda hugtakinu.
Hins vegar ber áhersla okkar fyrst og fremst að vera sú sem felur það í sér að við hlustum og lítum til þeirra staða þar sem mannréttindamálin fæðast. ,,Fæðingarstaður mannréttindamál hlýtur að vera í þeim aðstæður þar sem mönnum er mismunað og þeir eru kúgaðir, þar sem menn heyra aðra æpa og gráta án þess jafnvel að átta sig á að um mannréttindabrot er að ræða. Þegar t.d. Rosa McCauley neitaði að standa upp úr sæti sínu fyrir hvítan mann í strætó í Alabama árið 1955, hafði hún án efa enga hugmynd um að mótmæli hennar yrðu kveikjan að einu af stærri mannréttindamálum sögunnar.
Mannréttindi berast hins vegar engum líkt og pakki í pósti. Því það er ekki nógt að viðurkenna þau mannréttindamál sem þannig eru kynnt fyrir okkur, heldur þurfum við að greina sjálf hvaða mál varða mannréttindi og hvað ekki. En allt þetta hefst með því að líta og hlusta.
Mér finnst það afar mikilvægt fyrir okkur í kirkjunni að við gleymum ekki að hlusta eftir neyð náungans. Mannkynið hefur oft verið duglegt við að breiða yfir þá staði þar sem mismunun er í gangi og láta þar með eins og allt sé í lagi.
Ef ég má halda áfram að skrifa út frá minni persónulegu trú sem kristinn maður, þá hættir kirkjan að vera kirkja þegar hún hlustar ekki á fólk sem hrópar á hjálp í neyð sinni. Kristur hættir aldrei að hlusta. Jesús sýndi okkur, með því að eiga í samskiptum við jaðarfólk síns tíma, sem var útskúfað og kúgað með trúarlegum röksemdum, að sérhver manneskja er sköpuð svo að dýrð Guðs birtist í henni og því er hún ómetanleg.
Manneskja verður ómetanleg ekki vegna trúar sinnar og verka hér á jörðinni, heldur er hún dýrmæt alveg frá upphafi sem. sköpunarverk Guðs. Að mínu mati er þetta inngangur mannréttindamála fyrir þá sem játast kristna trú og ástæða þess að kirkjan hugsar um mannréttindi óháð trúarlegum bakgrunni hvers einstaklings.
Mannréttindabaráttunni getur oftar en ekki verið ógnað með illsku manna og ofbeldi. Í fréttum frá Burma eða Tibet að undanförnu sá ég tilvist margra búddha munka. Í miðri baráttu fyrir lýðræði og frelsi hlusta þeir enn eftir angistarópum og hrópi fólks, þeir eru sjálfir orðnir rödd fólksins.
Kannski eru engin samsvarandi vandamál núna á Íslandi og t.d. í Burma eða Tibet. En samt eigum við í kirkjunni að rifja upp mikilvægi þess að líta til upphafsins til ,,fæðingarstaða mannréttindamála þegar við byrjum að hugsa um mannréttindi og kirkju.
Ef við gleymum að hlusta eftir neyð fólks sem hrópar á hjálp, mun umræða um mannréttindi eiga það á hættu að verða aðeins að fræðslustund.
- birtist í 24 stundum 26. apríl -
Mannréttindi í heimi trúarinnar
Mánudaginn 28. apríl stendur Reykjavíkurprófastsdæmi eystra fyrir málþingi í Hjallakirkju í Kópavogi undir yfirskriftinni Mannréttindi í heimi trúarinnar.
Dagskrá
Kl. 16:15 Setning - sr. Gísli Jónasson prófastur
Kl. 16:30 Íslensk lög um mannréttindi
Margrét Steinsdóttir, lögfræðingur hjá Alþjóðahúsi
Kl. 17:15 Mannréttindakerfið
Jóhanna Katrín Eyjólfsdóttir, mannfræðingur,
framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International
Kl. 18:00 Guðsmyndin og mannréttindi
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, verkefnastjóri á Biskupsstofu
Kl. 18:45 Veitingar
Kl. 19:15 Mannréttindi og guðfræðin
Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur
Kl. 20:00 Umræður og fyrirspurnir
Málþingið er öllum opið. Skráning í síma 567 4810 eða á profaust@centrum.is
- úr fréttatillynningu á kirkjan.is -
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook
29.3.2008 | 11:25
Gegn glæpum... eða útlendingum?
Þegar fólk af erlendum uppruna fremur afbrot á Íslandi virðist sem það sé nær undantekningarlaust greint frá uppruna afbrotamannanna í fréttum. Nýlegt dæmi er frá páskahelginni þegar nokkrir Pólverjar réðust á samlanda sína í Breiðholtinu.
Þegar slík tilfelli eiga sér stað þar sem útlendingur er hlutaðeigandi í sakamáli heyrast sterkar raddir í þjóðfélaginu eins og ,,nú er nóg, við skulum loka Íslandi fyrir útlendingum eða ,, sjáið hvað er að gerast hérlendis, að vera á móti útlendingum er sjálfsagt viðhorf en alls ekki fordómafullt. Mér sýnist að umræðan sem skapast um glæpi sem framdir eru af útlendingum leiði til enn frekari neikvæðs viðhorfs í garð útlendinga eða innflytjanda almennt. Enn á slíkt rétt á sér?
Fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi á árinu 2007 var um 21.500 og hafði sú tala næstum tvöfaldast frá árinu 2006. Fjöldi Pólverja (sem eru ekki búnir að öðlast íslenskan ríkisborgararétt) er núna rúmlega 8.000 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. 72% af þessum útlendingum eru frá EES löndum sem geta ferðast frjálsir innan EES landanna.Ég held að það sé kannski tölfræðilega eðlilegt að glæpum fjölgi eftir því sem fólksfjöldi í landinu eykst.
Við viljum og eigum ekki að sætta okkur við aukna glæpatíðni en hins vegar verður umræðan að snúast um kjarna málsins. Það skiptir engu máli hvort það er Íslendingur eða útlendingur sem fremur glæp, heldur snýst málið um afbrotið fyrst og fremst. Við heyrum nær daglega í fréttum af slagsmálum, eiturlyfjaneyslu eða kynferðislegu ofbeldi, glæpum sem framdir eru af Íslendingum.
En hugsum við þá að allir Íslendingar séu að selja eiturlyf eða að allir Íslendingar séu ofbeldismenn? Auðvitað ekki, af því að lang flestir Íslendingar eru ekki slíkir. Af hverju byrja þá margir að saka ,,alla innflytjendur um afbrot þegar fréttir berast af útlendingum sem staðnir eru að refsiverðu athæfi. Er slíkt viðhorf rökstutt?
Ef maður aðhyllist þá skoðun án þess að hugsa sig vel um, þá er hugsunin farin villu vega. Ef maður heldur meðvitað fram slíku viðhorfi þrátt fyrir skort á rökstuðningi, þá er maður fordómafullur gagnvart útlendingum. Og ef maður heldur áfram í þeirri villu eða fordómafullu leið, getur maður ekki lagt neitt til átaks gegn glæpum og glæpamönnum, þar sem skotmarkið er rangt frá upphafi.
Átak gegn glæpum og glæpamönnum er bæði nauðsynlegt og mikilvægt. En það er alls ekki sama og átak gegn útlendingum og innflytjendum. Við verðum að halda í þá staðreynd og megum ekki missa sjónar af því sem málið snýst um.
- birtist í 24 stundum 29.mars -
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook
20.3.2008 | 10:31
Nágranni
Flest þekkjum við dæmisöguna um miskunnsama Samverjann nokkuð vel. Þetta er dæmisaga sem Jesús notaði til þess að kenna okkur hver sé náungi okkar, en stundum sýnist mér að sagan sé misskilin þannig að við höldum að Jesús sé að segja að við skulum veita fólki í erfiðleikum hjálparhönd. Sönn áminning dæmisögunnar er hins vegar þessi: ,,Þegar við skilgreinum nágranna okkar á einhvern hátt t.d. eftir stéttaskiptingu í samfélaginu, þjóðerni eða siðvenju, þá föllum við í fordóma og mismunun, þar sem skilgreining um nágranna okkar er sjálfkrafa skilgreining um það hverjir séu ekki nágrannar okkar. Því við eigum að vera nágrannar sjálf fremur en að velja okkur nágranna.
Fordómar og mismunun, hvort sem um er að ræða kynþáttamisrétti eða annars konar mismunun, fylgir röksemd sem stendur á rangri forsendu eða illum huga. Gallupkönnun á Íslandi fyrir nokkrum árum sýndi að töluverður hópur í þjóðfélaginu vill ekki hafa múslima og geðsjúklinga í nágrenni sínum og einnig sjást fjölmörg dæmi um neikvæða umfjöllun um múslima eða útlendinga í fjölmiðlum og í netheimi. Hver sem ástæðan er sem liggur að baki þess viðhorfs, má segja að slíkt er einmitt tilraun til þess að skilgreina það ,,hverjir eru nágrannar okkar og hverjir ekki eða hitt að menn vilja ,,velja nágranna sína.
Ég ætla ekki að neita því að það gerist stundum í lífi okkar að við mætum einstaklingi með sérstök vandamál, eins og neyslu eiturlyfja eða ofbeldisfulla framkomu, og við viljum því ekki eiga í miklum samskiptum við hann. En það er stór munur milli þessa tveggja, annars vegar að bregðast við áþreifanlegum vandamálum sem eru til staðar í raun og hins vegar að alhæfa svo um hóp manna í þjóðfélaginu að við afþökkum öll samskipti við einstaklinga úr þeim hópi. Síðar nefnda eru bókstaflegir fordómar sem ekki er hægt að fela undir forsendum forvarna. Forvarnarstarf leiðir okkur í meira öryggi og uppbyggingu betra samfélags, en fordómar skapa aðeins hatur meðal manna og aukið misrétti.
Fordómar og mismunun eru oftast hugsuð frá sjónarhorni þolenda þeirra. En í þessari smágrein langar mig líka að benda á hina hlið málsins, sem er það að ef haldið er fast í fordóma og mismunun þá skaðar það mannkosti þess sem ber slíkt með sér. Ef maður lætur fordóma sína vera, munu þeir stjórna manni algjörlega með tímanum og búa til sjálfsréttlæti og sjálfsánægju, eins og fræðimennirnir eða farísearnir sem Jesús gagnrýnir oft í Biblíunni. Að lifa í sjálfsréttlæti og sjálfsánægju er langt frá hinu eftirsóknarverða lífi kristinna manna og þeirra sem virða dýrmæti mannlífsins.
Nú stendur yfir átak sem er Evrópuvika gegn kynþáttafordómum og misrétti og lýkur henni þann 23. mars, á páskadegi. Ég óska að sérhvert okkar hugsi um eigin fordóma og meti mikilvægi þess að verða nágranni þeirra sem búa í sama samfélagi.
-Birtist í Fréttablaði 20. mars-
18.3.2008 | 10:07
Unglingar mótmæla kynþáttafordómum og fræða okkur!
Í dag, þriðjudaginn 18.mars, Kl. 16 munu Hara-systur og Smáralind taka höndum saman við eftirfarandi samtök og standa að viðburði í Smáralind gegn kynþáttamisrétti. Hara-systur troða upp og ungt fólk býður upp á fjölmenningarsspjall, sælgæti, boli með lógó og barmmerki.
Unglingar mála sig á skemmtilegan hátt og dreifa gestum fræðsluefni!!
Tilefnið er Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti sem hófst 15. mars sl. og hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti, 21. mars.
Til að vinna gegn misrétti og fordómum í garð fólks af erlendum uppruna á Íslandi taka eftirfarandi samtök þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti með ýmsum hætti.
Mannréttindaskrifstofa Íslands, Þjóðkirkjan (m.a. ÆSKÞ, ÆSKR, miðborgarprestur og prestur innflytjenda), Rauði krossinn (m.a. URKÍ og URKÍR), Ísland Panorama, Soka Gakkai, Alþjóðahús, Amnesty International Íslandi og Samtök Rætur í Ísafirði.
Allir hjartanlega velkomnir!!
16.3.2008 | 13:46
Eyðum kynþáttafordómum áður en þeim vex fiskur um hrygg!
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti stendur frá og með 15. mars til 23. páskadagsins. Hér á Íslandi verður sérstök uppákoma gegn rasisma haldin þann 18. mars í Reykjavík, Ísafirði og á Akureyri. Þarna munu margir unglingar frá ýmsum samtökum koma saman til þess að mótmæla kynþáttafordómum. Í tilefni þess langar mig aðeins að hugleiða hvernig við berjumst við fordóma í daglegu lífi okkar.
Finna má margs konar fordóma í samfélaginu. Kynþáttafordómar eru aðeins ein tegund fordóma en það er erfitt að draga upp skýra mynd af því hverjir eru helst haldnir fordómum og hverjir verða aðallega fyrir þeim. Stundum er manneskja sem er afar víðsýn á einu sviði fordómafull á öðru og þolandi ákveðinna fordóma ber sjálfur fordóma í brjósti gagnvart öðrum hópi en hann tilheyrir sjálfur. Þetta hef ég sjálfur séð nokkrum sinnum, t.d. er eitt dæmið um mann af afrískum uppruna sem hafði flúið kynþáttafordóma í heimalandi sínu en reyndist afar fordómafullur gagnvart samkynhneigðu fólki annað er fyrirmyndarprestur sem síðan er að mörgu leiti mjög fordómafullur gagnvart konum og kvenfrelsi.
Í raun má segja að ekkert okkar sé algerlega fordómalaust; við höfum öll fordóma sem við verðum að reyna að uppræta. Fordómar eru því alls ekki mál ákveðins hóps í samfélaginu, heldur eru þeir mál okkar allra, hvers og eins. Við verðum að líta í eigin barm, greina fordómana og losa okkur við þá og stuðla að því að fólkið í kringum okkur geri það líka.
Ég hef oft tækifæri til að tala og skrifa um kynþáttafordóma eða fordóma gagnvart útlendingum á Íslandi. Og ég hef fengið sérkennileg viðbrögð frá nokkrum Íslendingum. Þeir eru í afneitun og vilja ekki viðurkenna fordóma gagnvart útlendingum á Íslandi og segja til dæmis: ,,Það sem hann bendir á er ekki fordómar heldur bara hefðbundin sterk hegðun Íslendinga, ,,Ísland er fordómaminnsta þjóð í heimi eða ,, Það eru meiri fordómar í Japan .
Þegar við bæði útlendingar og Íslendingar sem eru á móti kynþáttafordómum - tölum um fordóma á Íslandi, tölum við um raunverleika sem við mætum í daglegu lífi okkar í þeirri von að flestir Íslendingar vilja kynnast málinu og breyta því. Við erum ekki að skapa samkeppni um fordómaleysi meðal þjóðanna. Engu að síður hefur mér stundum fundist það vera talin ófyrirleitni gagnvart íslensku þjóðinni, í augum sumra Íslendinga, að benda á fordóma og mismunun á Íslandi. Slík afneitun kann ekki góðri lukku að stýra.
Ég held að fordómar séu eins og tölvuvírusar. Fordómavírus er nærri okkur í daglegu lífi og reynir í sífellu að hafa áhrif á hugsanir okkar. Því við þurfum að virkja vírusvörnina reglulega. Þetta er dagleg barátta gegn fordómum. Því miður brjótast kynþáttafordómar stundum út í ofbeldi, eins og árás á innflytjanda í miðbæ Reykjavíkur um daginn ber sorglegt vitni. Sem betur fer eru hatursglæpir sjaldgæfir á Íslandi en við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að atburðir af þessu tagi endurtaki sig.
Til þess er nauðsynlegt að losna við fordómavírusinn áður en honum tekst að taka yfir kerfið og skemma harða diskinn. Hatursglæpir eru aðeins framdir þar sem fordómavírusinn fær að leika lausum hala; þar sem samfélagið er lætur fordómafull viðhorf sér í léttu rúmi liggja skapast grundvöllur fyrir fordóma sem brjótast út í ofbeldi.
Mig langar til að benda á fordómavírusinn hefur náð einhverri fótfestu hjá fjölmiðlum. Umfjöllun sem gengur út á æsifréttir með fyrirsögnum eins og ,,Fæestir útlendingar gifta sig til að fá dvalarleyfi eða ,,útlendingar flytja inn glæpi veitir samfélaginu ranga sýn og lætur í veðri vaka að ekki sé um fordóma að ræða heldur staðreyndir. En fréttirnar af þessum toga snúast um grófar alhæfingar í stað ígrundaðra frétta sem vinna á af fagmennsku. Nokkrir stjórnmálamenn virðast einnig vilja notfæra sér umfjöllun af þessu tagi í atkvæðaveiðum og til að skapa yfirborðssamstöðu meðal Íslendinga. Þeim væri hollara að velta því fyrir sér hvort það séu raunverulegir hagsmunir Íslendinga - hagsmunir komandi kynslóða - að byggja upp samfélagssýn sem grundvallast á fordómum og misrétti.
Að lokum langar mig til að endurtaka aðalatriðið: við erum öll með fordóma!. Það er brýnt að við horfumst öll í augu við þá staðreynd og gerum allt sem við getum til að eyða fordómavírusnum hjá okkur sjálfum svo hann fái ekki tækifæri til að dreifa sér og vinni samfélaginu óbætanlegan skaða.
(Birtist í Mbl. 15. mars 2008)
12.2.2008 | 14:45
Barátta hennar Allesíu
1.
Fyrir um 68 árum, í kringum árið 1940, komu þýskir hermenn til smábæjar í Rúmeníu. Þar bjuggu meðal annarra nokkrar fjölskyldur Gyðinga. Gyðingarnir voru hræddir við þýsku hermennina og forðuðust að fara út á götu.
Í einni af þessum fjölskyldum var 12 ára stelpa. Hún sagði við foreldra sína: ,,Pabbi, mamma, ég er svöng. En það var ekkert til að borða á hennar heimili frekar en öðrum í bænum. Stelpan spurði: ,,En af hverju förum við ekki til Þjóðverjanna og biðjum um mat? Þeir eru að borða! Pabbi hennar sagði:,,Ertu brjáluð? Þeir skjóta þig!
En stelpan fór út engu að síður, ef til vill skildi hún ekki vel hvers konar áhættu hún var í raun og veru að taka, og hún fór til eins foringja hermannanna. ,,Herra, ég er svöng! Foringinn horfði á hana, hló en benti svo á borð þar sem á lágu diskar og bollar með matarleifum hermannanna. Stelpan gekk að borðinu, tók saman afganginn af matnum og fór með heim.
Næstu daga endurtók stelpan leikinn. Hún gerði smáviðvik fyrir hermennina og fékk í staðinn að borða. Hún tók einnig mat fyrir fjölskylduna sína. Þjóðverjarnir vissu af því en stoppuðu hana ekki.
En síðan runnu upp enn harðari tímar. Þjóðverjarnir fluttu sig smám saman yfir í annan bæ og samtímis byrjuðu þeir að undirbúa flutning Gyðinga í sérstakar búðir. Enginn sagði það upphátt eða beinlínis en fólk gat sér til um hvað væri að gerast. Stelpan fór til foringjans og spurði: ,,Ætlarðu að drepa pabba minn? Hann staraði á stelpuna en hunsaði hana. ,, Ætlarðu að drepa pabba minn!? spurði hún aftur. Foringinn leit út fyrir að vera hissa á þrákelkni stelpunnar og ruglaður. En hún gafst upp ekki. ,, Ætlarðu að drepa pabba minn? Skjóttu mig þá fyrst! Þá tók foringinn báðum höndum um hattinn sinn og sagði lágt, ekki við stelpuna heldur sjálfan sig: ,, Guð, mér var kennt að Gyðingar væru allir huglausir eins og grísir....
Hermennirnir fluttu í annan bæ, en þeir tóku engan Gyðing með sér.
Stelpan lifði af stríðið og varð síðar móðir. Kommúnistar tóku við stjórn Rúmeníu og þar voru börnin frædd og kennt allflest um stríðsglæpi Þjóðverja. Það var eingöngu rætt um allar ljótu sögurnar og neikvæðu um Þjóðverja. En stelpan, sem nú var móðir nokkurra barna, talaði aldrei illa um Þjóðverja. Hún vildi bera vitni um það að á meðal Þjóðverja voru einstaklingar sem hefðu gert góðverk í ljótu og hörmulegu stríði en stjórnin vildi aðeins halda á lofti hinu neikvæða.
Stelpan er í dag 77 ára og býr enn í Rúmeníu. Ég heyrði þessa sögu fyrst, fyrir fjórum árum, þegar ég var á leið í lest á milli Brussel og Amsterdam. Það var sonur konunnar sem sagði mér söguna, en hann er prestur rétttrúnaðarkirkju í Tékklandi og starfar mikið fyrir flóttamenn þar.
2.
Ég er búinn að segja ykkur smásögu sem ég heyrði sjálfur. Ég veit ekki hvort þessi saga sé 100 prósent sönn eða hvort hún sé kannski ofurlítið færð í stílinn. En hvort sem er, þá finnst mér sagan vera mjög góð því hún vekur okkur til umhugsunar um svo margt. Sagan felur í sér nokkur atriði sem ég tel nauðsynlegt og mikilvægt að hafa í huga en hver eru þessi atriði?
Í fyrsta lagi; mannréttindamál eru ekki bara abstrakt hugmyndarfræði, heldur áþreifanleg mál og geta verið mjög persónuleg. Stelpan í smásögunni, sem ég hef kosið að nefna Allesíu-don´t ask me why-, var svöng. Allesía fór til herforingja og bað um mat, ekki til þess að ræða alþjóðleg stjórnmál eða heimspeki. Mannréttindamál eru jú hugmyndarfræðileg og almenn, en jafnframt eru þau hlutstæð og persónuleg. Mannréttindi verða ekki aðskilin frá raunverulegum kröfum okkar og þörfum.
Stundum gleymum við því. Réttindi verða fyrst og síðast að raunverulegum réttindum þegar þegnar heimsins fá raunverulega að njóta þeirra. Þau byggja á ákveðnum sammannlegum grundvallarþörfum sem við manneskjurnar þurfum til þess að vaxa, dafna og þroskast. Þetta er grundvallaratriði í mannréttindamálum yfirlýsingar eða lög sem í raun og veru eru ekki í eða virka ekki í framkvæmd og eru þar með marklaus teljast ekki til réttinda.
Í öðru lagi; Allesía sagði foringjanum að hana vantaði mat. Í sérhverjum aðstæðum verðum við að vera meðvituð um mannréttindi okkar og krefjast þeirra, sérstaklega í lýðræðiskerfinu þar sem málfrelsi er tryggt. Manneskja verður að vera vakin yfir sameiginlegum mannréttindum og má aldrei sofna á verðinum. Þetta er önnur grunnregla.
Að standa upp og gera kröfur til mannréttinda sinna er oftast mjög þreytandi ferli. Samt er staðreyndin sú, að mannréttindin koma ekki sjálfkrafa til okkar og sagan hefur sýnt að ef við gætum þeirra ekki þá er hægt að taka þau frá okkur.
Í þriðja lagi; það getur verið áhættusamt að krefjast mannréttinda sinna í ákveðnum aðstæðum eins og þegar Allesía stóð frammi fyrir byssukjafti hermannsins. Til allrar hamingju þurfum við ekki að óttast byssur á Íslandi en við getum hins vegar ekki horft fram hjá annars konar áhættu eins og að lenda í einelti, að verða fyrir samfélagslegri einangrun, mæta andúð og svo framvegis ef við tölum hátt um réttindi okkar eða krefjumst þeirra.
Í fjórða lagi; Allesía stóð andspænis herforingja, en ekki hverjum sem er í litla bænum sínum, sem sagt hún krafðist þess af manni í valdastöðu að gefa sér mat. Þegar barist er fyrir mannréttindum er nauðsynlegt að fylgjast sífellt með því hvar valdið liggur. Þetta atriði er kannski ekki alveg vel þekkt. Þegar við ræðum t.d. um fordóma og mismunun gagnvart útlendingum á Íslandi, heyrast raddir eins og :
,, það eru líka til fordómar og mismunun á meðal útlendinga. Það er alveg satt og sem prestur ætla ég ekki að segja útlendingar megi halda í fordóma til annarra útlendinga. En hvað mannréttindaumræður varða, þá skiptir það ekki miklu máli, reyndar, hvort það séu fordómar til á meðal útlendinga eða ekki, af því að þeir útlendingar, hverjir þeir sem eru, hafa ekkert vald í samfélaginu. Þeir eru minnihlutahópur(ath: þó að minnihlutahópur geti verið með vald stundum).
Að þessu leyti eigum við að viðurkenna þann mun sem er á milli mannréttindaumræðunnar og siðferðisumræðunnar. Mannréttindamál snúast um, í fáum orðum, um hvernig menn nota vald til að stjórna. Þess vegna eru mannréttindamál alltaf tengd ákveðnum tíma, stað og hagsmunaaðila eða aðilum. Umræðurnar eiga því að taka mið af valdinu og valdhöfum, það er eitt af leiðarljósunum sem geta beint henni í réttan farveg.
Í fimmta lagi; við skulum vera reiðbúinn að skoða og viðurkenna fordóma okkar sjálfra eða vanþekkingu. 99 prósent af þeirri þekkingu sem við höfum við sennilega numið af öðrum mönnum, bókum og í skólum. Það er alltaf möguleiki fyrir hendi, að við byggjum framkomu okkar eða málflutning á röngum forsendum, eins og foringinn í sögu Allesíu. Honum var kennt að allir Gyðingar væru huglausir. Mannkynssagan sýnir okkur að valdhafar, hvenær sem er og hvar sem er, hafa tilhneigingu til að nota menntakerfi samfélagsins til þess að réttlæta ákveðna fordóma og óréttlæti. Líklegast er hvert og eitt okkar hér líka undir áhrifum frá umhverfi okkar. Við eigum að vera vakandi fyrir því.
Í sjötta lagi; Allesía vann sitt litla stríð án ofbeldis. Að sjálfsögðu hafði hún ekki annað val en berjast án ofbeldis, en hefði hún haft möguleika á því og kosið frekar að ráðast á hermanninn með vopni, hefði niðurstaðan þá verið sú sama? Ég held það ekki. John Kenneth Garbleith er vel þekktur hagfræðingur í Bandaríkjunum og demókrati, en hann sagði um ábyrgð Bandaríkjanna á Víetnam-stríðinu: ,, Stríð er alltaf auðvelt að byrja, en ansi erfitt að klára. Mér sýnast orð hans vera sígild þegar ég sé hvernig aðstæður eru núna í Írak og Afganistan. Friðarmál er reyndar samofin mannréttindamálum, þar sem ofbeldi brýtur á mannréttindum og treður á mannlífi.
Síðast en ekki síst ; Þegar Allesía varð fullorðin og móðir, kaus hún að segja frá lífsreynslu sinni, ekki aðeins öllu því hræðilega sem fylgdi hernámi Þjóðverja eins og öll rúmenska þjóðin upplifði heldur líka ljósinu í myrkrinum, hermönnunum sem hjálpuðu henni og fjölskyldu hennar. Hún vildi segja frá því að sumir þeirra höfðu líka mannlegar hliðar og að stundum þyrfti maður líka að fyrirgefa til þess að geta haldið áfram og byggt upp. Nú hugsar Allesía um börnin sín og einnig um aðra í samfélagi sínu. Þaðan breiðist ábyrgðarkennd Allesíu út til samfélagsins.
Ég sagði áðan að mannréttindamál eru persónuleg, en ég á ekki við að mannréttindamál eru einkamál mín eða þín. Ef manneskja hugsar vel um sjálfa sig, þá hugsar hún um börn sín og samfélagið sem þau búa í. Manneskja hugsar til nágranna sinna í bænum og í heiminum, aðstæðna þeirra og framtíðar komandi kynslóðar. Dag eftir dag er allt sem gerist á jörðinni tengt við mitt líf og þitt líf. Við getum ekki flúið jörðina.
3.
Það eru mörg umræðuefni í samfélagi okkar, varðandi mannréttindi og friðarmál, eins og mál samkynhneigðra, geðsjúklinga og útlendinga, heimilisofbeldi, fjölmiðlamál, launamun kynjanna, mál Mannréttindaskrifstofu Íslands og stríðið í Írak.
Tilefnin er því ærin og þið hafið mörg tækifæri til þess að sanna ykkur sem framtíðar Gandhi, Ikeda eða M.L. King í samfélaginu. Ekki hika við að grípa tækifærið. Lífið er ykkar núna - í okkar samfélagi fyrir alla. Mannréttindamál eru áþreifanleg og persónuleg.
- úr ræðu í ráðstefnu sem var haldin af Soka Búddistafélagi -
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.2.2008 kl. 18:07 | Slóð | Facebook
16.1.2008 | 14:00
24 ára reglan í útlendingalögum fari í ruslpoka!
Samkvæmt fréttagrein 24 stunda í dag, verður 24 ára reglu í núverandi útlendingalögum hentað út á næstunni.
Ég fagna því hjartanlega sem einn af mótmælendum frá upphafi af umræðu um þetta mál, þó að það hafi tekið alltof langan tíma hjá stjórnvöldunum til að komast í þessa skynsamlega niðurstöðu.
Hins vegar virðist dómsmálaráðherra að bæta nokkru ákvæði varðandi málamyndahjúskap í staðinn fyrir 24 ára regluna.
Ég er ekki búinn að sjá breytingatillögu eða nýtt frumvarp um útlendingalög, því ég get ekki sagt neitt meira en þetta núna, en ég vil endilega fylgjast með því sem kemur upp næstu daga.
24 ára reglan í breyttri mynd
24 ára reglan verður felld brott úr útlendingalögum í núverandi mynd ef frumvarp sem dómsmálaráðherra leggur fram og er til umræðu í þingflokkum stjórnarflokkanna verður samþykkt.
Í staðinn verður bætt við ákvæði um að ávallt skuli skoða hvort um málamyndahjúskap sé að ræða ef hjón eru undir 24 ára aldri, að sögn Björns Bjarnarsonar dómsmálaráðherra. (.......)
Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur, -16. janúar 24 stundir bls. 2.-
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook
19.10.2007 | 00:18
Það sem Jesús segir okkur í dag
Undanfarna daga hafa birst í blöðum greinargerðir eftir nokkra kraftmikla kirkjuleiðtoga sem hafa andmælt hjónavígslu samkynhneigðra para og hafa áhyggjur af afleiðingum þeirrar gjörðar.
Á meðal presta og guðfræðinga Þjóðkirkjunnar eru einnig miklar og heitar umræður um þetta málefni, miklu meiri en birtast á opinberum vettvangi.
Meginágreiningurinn, á milli þeirra sem er annars vegar jákvæðir í garð hjónavígslu samkynhneigðra para og hinna sem eru neikvæðir, felst í því hvernig við túlkum Biblíuna sem Guðs orð. Þeir sem eru jákvæðir, og meðal þeirra er undirritaður, vilja hlusta á þau skilaboð Guðs sem eru óbreytanleg í tíma og rúmi, eru hafin yfir tíma og menningu, eru nokkurn veginn algild.
Þeir sem eru neikvæðari í afstöðu sinni byrja rökum sínum á forsenda eins og: ,, samkvæmt skýrum orðum Jesú Krists og postula hans er hjónaband á milli karls og konu en ekki tveggja einstaklinga af sama kyni(Friðrik Schram, Mbl. 23. nóv. 2005).
Mér finnst að þeir sem andmæla kirkjulegri hjónavígslu samkynhneigðra þurfi að staldra við um stund og íhuga stöðu sína.
Kennisetningar kirkjunnar og guðfræði byggist nú þegar öll á túlkun Biblíunnar, a.m.k. í lúterskri kirkju. Ólíkt því sem margir trúa, þá kveður Biblían ekki skýrt úr um að hjónaband verði að vera milli karls og konu. Sú hugmynd tilheyrir kennisetningu sem túlkuð er út frá Biblíunni, ekki biblíutextanum sjálfum.
Ef við leitum þá finnum við orð sem Páll postuli segir: ,,Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég. En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd. (1. Kor.6.). Við fyrsta lestur virðist sem Páll postuli sé að segja okkur að það sé best fyrir okkur að giftast alls ekki, en þegar við lærum um og skiljum sögu og menningu þeirra tíma sem Páll var uppi á og þeirra sem Biblían er skrifuð á fá orð hans dýpri merkingu og rétta þýðingu.
En að sjálfssögðu vita andmælendur af atriðum eins og þessum. Þeir eru ekki bókstaflegir trúmenn. Þeir kjósa hins vegar að túlka Biblíuna í samræmi við eigin hugmyndaheim, sem er skiljanlegt en ekki endilega réttlætanlegt.
Kjarni málsins snýst nefnilega ekki um orðalag Biblíunnar heldur er það ímynd andmælendanna um ,,hið góða kristilega siðgæði, sem þeim var kennt og þeir vilja halda á lofti. Og samkynhneigð hjón virðast hjá þeim falla utan við ramma ,,hinna góðu kristilega gilda.
Ég veit að það er erfitt fyrir okkur öll að hreyfa við viðteknum venjum, hefðum og gildum. Það er samt hægt ef við (ég segi það um kristið fólk) trúum á Jesú og setjum æðstu gildi lífsins í hendur Jesú og íhugum hvað hann vill segja við okkur í dag. Við megum ekki láta hefðbundna menningu eða aðrar hefðir villa okkur sýn.
Kraftur Jesús og náð virkar til að frelsa okkur frá sjálfdýrkun, sjálfsgirni, áhugaleysi gagnvart náunganum og kúgun, en aldrei veitir okkur rétt til þess að kúga eða mismuna. Íhugum því hvað frelsarinn segir við okkur í dag.
(Fyrst birtist í Fréttablaðinu 3. desember 2005)
18.10.2007 | 11:03
Einlæg umræða um framtíð þjóðkirkjunnar óskast
Samkynhneigð, vinaleið og aðskilnaður frá ríkinu eru meðal mála sem hafa verið mikið í samfélagsumræðunni um þjóðkirkjuna undanfarna daga. Í henni hafa ýmis viðhorf til kirkjunnar birst. Mér sýnist raddir úr samfélaginu oftast harðar og fullar af gagnrýni í garð þjóðkirkjunnar. Mig langar til að skjóta inn, í tíma, nokkrum línum um framtíðarsýn þjóðkirkjunnar.
Áður en ég tjái skoðun mína, tel ég rétt að segja frá því hvernig ég tengist þjóðkirkjunni. Í fyrsta lagi er ég þjónandi prestur þjóðkirkjunnar, ég fæ laun fyrir störf mín þar og er því beinn hagsmunaaðili. Hins vegar fékk ég köllun mína og hlaut menntun sem prestur í kirkju í Japan og er þess vegna ég ekki svo sterklega bundinn við hugtakið þjóðkirkja. Hvort kirkja sé þjóðkirkja eða ekki, er fyrir mér tæknilegt mál, en hvorki trúmál né hjartans mál.
Það er stundum sagt að glöggt sé gests augað og fyrir mig var ,,þjóðkirkja ekki sjálfsögð eins og fyrir marga Íslendinga þegar ég kom hingað til lands fyrir 15 árum en síðar lærði ég um það stóra hlutverk sem hún lék í sögu Íslands. Mér skilst t.d. að þjóðkirkjan hafi verið ein þeirra stofnana sem stóðu vörð um íslenska tungu þegar þjóðin var undir stjórn Danmerkur. Þá voru engar útvarps- eða sjónvarpsútsendingar eins og í dag og messur voru mikilvægir miðlar sem héldu við og varðveittu íslenska tungu á meðal Íslendinga.
Margir prestar færðu einnig sögu Íslands í letur fyrir almenning, ortu ljóð um landið og sáu um kennslu ungmenna. Þjóðkirkjan hafði einnig frumkvæði þegar þurfti að bregðast við náttúruhamförum eða halda stórviðburði eins og þjóðhátíðir. Þetta eru bara fáein dæmi sem sýna að þjóðkirkjan hefur að vissu leyti verið meira en bara trúfélag í hefðbundinni merkingu þess orðs.
Þegar þjóðin hlaut sjálfstæði árið 1944 þá hlaut það að vera eðlilegt framhald af sögunni að setja þar ákvæði um ,,þjóðkirkju. Núna í dag starfar þjóðkirkja og þjónar samkvæmt þessu ákveðna stjórnsýslukerfi og ég tel til þess að umræðan um framhaldið og framtíðarsýnina verði markviss verðum við að viðurkenna þetta atriði.
Þegar ég fylgist með umræðum sem varðar þjóðkirkjuna þessa dagana, þykir mér leitt að í gagnrýninni er oftast blandað saman ábendingum um kerfisgalla og einstaklingsbundinni tilfinningalegri andúð.
Mér finnst t.d. alveg rétt að benda á mál, eins og og í hvaða málefni eigi að verja skatttekjum, ef viðkomandi finnst þar ríkja einhvers konar óréttlæti. Það er sjálfsagt mál að taka málið upp, kanna og ræða. Hins vegar finnst mér ekki réttlætanlegt að ræða málin eins og starfsmenn kirkjunnar séu að svíkja fé af almenningi og því glæpamenn. Það gæti verið gott tækifæri fyrir suma til þess að fá útrás fyrir andúð sína gagnvart kirkjunni en það er alls ekki réttmætt. Slík viðhorf er ein af ástæðum þess að erfiðara er að halda upp málefnalegri umræðu fyrir alla.
En hvað um framtíðarsýn þjóðkirkjunnar? Ég held það sé alveg sjálfsagt að við endurskoðum gamla kerfið og gerum það að betra kerfi sem passar núverandi og verðandi aðstæðum samfélagsins. Þjóðkirkjukerfið er ekki undantekning frá því og það getur ekki gengið á sama hátt og áður aðeins vegna framlags síns í fortíðinni.
Persónulega sýnist mér skýrt í hvaða átt þjóðkirkjan verður að fara í framtíðinni. Það stríðir að mörgu leyti gegn þróun mannréttindahugmynda að stjórnskráin skuli gefa einu ákveðnu trúfélagi sérstöðu sem ,,þjóðartrú (Ég er samt ekki sammála því áliti að aðskilnaður kirkjunnar frá ríkinu yki beint trúfrelsi hérlendis og ég bíð eftir næsta tækifæri til að tjá mig um það atriði).
Eins og ég sagði hér að ofan, þá tel ég að þjóðkirkjukerfið snúist ekki trúmál heldur hvort hún sé hluti af samfélagskerfi. Að mínu mati þarf það ekki að vera neikvætt þótt þjóðkirkjan fari út úr þessu samfélagskerfi eða afsali sér sérstöðu sinni í stjórnarskránni en að sjálfssögðu munu því fylgja ýmis vandkvæði.
Mér finnst löngu tímabært að setja sérnefnd í stjórnvöldum til þess að fjalla um ,,aðskilnað kirkjunnar frá ríkinu á málefnalegan hátt og kanna kosti þess og galla.
Það er fordæmi fyrir því að þjóðkirkja hætti að vera þjóðkirkja, eins og t.d. sænska kirkjan sem steig það skref árið 2000. Af hverju eigum við ekki að skoða þetta dæmi málefnislega og safna upplýsingum og álitum? Síðan mun verða hægt að setja áþreifanlega tímaáætlun til þess að framkvæma aðskilnaðinn, ef það er vilji Íslendinga.
Að lokum langar mig til að ítreka að mál um þjóðkirkjukerfið er ekki trúmál, heldur er það mál um samfélagskerfi sem varðar hagsmuni allra. Og því er þetta alls ekki mál eins og hvort kirkjan sé góð eða vond, eða hvort kirkjan sigrar eða tapar. Ég óska innilega þess að málið komist í almennilega umræðubraut.
(Fyrst birtist í Mbl. 30. september 2007)