Færsluflokkur: Bloggar
17.1.2008 | 10:46
Fækkun í þjóðkirkjunni
Ég held að þessi tilhneiging (fækkun sóknabarna þjóðkirkjunnar í hlutfalli miðað við íbúafjölda) haldi áfram í næsta áratug líka.
Samfélagsleg ástæða er vist til staðar: fjölgun nýrra íbúa frá útlöndum sem eru kaþólskir eða rétttrúnaðir, fjölgun fólks sem kýs að vera utan trúfélaga eða fjölgun fólks sem liður betur í fríkirkjunum... og kannski fleiri ástæða. (Mér finnst það vera jákvætt að fólk ákveður sjálft hverju það tilheyrir)
En... en samtímis finnst mér nauðsynlegt og mikilvægt að við í þjóðkirkjunni veltum málinu fyrir okkur og pælum hvort þjóðkirkjan verði ekki að óheillandi fyrir mörgum mönnum?
Ef þjóðkirkjan er að hætta að vera heillandi að nokkru leyti eða að talsverðu leyti, þá hlýtur það að vera atriði sem kirkjan ber ábyrgð í alvöru eða atriði sem stafar af misskilningi fólks. Hvort sem er, þarf þjóðkirkjan að svara fyrir slíku atriði.
Ég er þjóðkirkjuprestur og mér finnst kirkjan gera ýmislegt sem er gott og mikilvægt fyrir samfélag sem heild, ekki síst fyrir sóknarbörn sín. En að sjálfsögðu er það ýmislegt sem kirkjan er léleg í að framkvæma eða skilja.
Sjálfsgagnrýni er ómissandi essence í kristinni kenningu og við þurfum að halda fast í það. Að fara í verndarstöðu sjálfkrafa þegar við mætum gagnrýni eða óþægilegri staðreynd borgar okkur ekki.
![]() |
Hlutfallsleg fækkun í þjóðkirkjunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2008 | 14:00
24 ára reglan í útlendingalögum fari í ruslpoka!
Samkvæmt fréttagrein 24 stunda í dag, verður 24 ára reglu í núverandi útlendingalögum hentað út á næstunni.
Ég fagna því hjartanlega sem einn af mótmælendum frá upphafi af umræðu um þetta mál, þó að það hafi tekið alltof langan tíma hjá stjórnvöldunum til að komast í þessa skynsamlega niðurstöðu.
Hins vegar virðist dómsmálaráðherra að bæta nokkru ákvæði varðandi málamyndahjúskap í staðinn fyrir 24 ára regluna.
Ég er ekki búinn að sjá breytingatillögu eða nýtt frumvarp um útlendingalög, því ég get ekki sagt neitt meira en þetta núna, en ég vil endilega fylgjast með því sem kemur upp næstu daga.
24 ára reglan í breyttri mynd
24 ára reglan verður felld brott úr útlendingalögum í núverandi mynd ef frumvarp sem dómsmálaráðherra leggur fram og er til umræðu í þingflokkum stjórnarflokkanna verður samþykkt.
Í staðinn verður bætt við ákvæði um að ávallt skuli skoða hvort um málamyndahjúskap sé að ræða ef hjón eru undir 24 ára aldri, að sögn Björns Bjarnarsonar dómsmálaráðherra. (.......)
Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur, -16. janúar 24 stundir bls. 2.-
2.1.2008 | 01:41
Akemashite omedetou!
Kæru bloggvinir,Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýárs og friðar á árinu frá Tokyo.
Mig langar einnig að þakka fyrir öllu samskiptin við ykkur á árinu sem er að baki.
Mér var sagt að veðrið hefði verið hart leiðinlegt þarna, en hér sé ég bláan himinn og glitrandi sólskin. Heppinn!!
Ég þori ekki að skrifa meira hér, þar sem ég á hvorki orðabók á íslesnku nér yfirlestursforrit í tölvunni.
En enn og aftur GLEÐILEGT ÁR fyrir alla á jörðinni.
Akemashite omedetou gozaimasu!!
frá Tokyo kid
18.12.2007 | 20:27
Friðarganga á Þorláksmessu
Mér þykir rosalega vænt um að Friðar- og mannréttindanefnd Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) er komin loksins í samstarfshópinn!!
Kraftur ungs fólks býr til framtíð allra. Og þökkum öllum framkvæmdaaðilum!!
Íslenskir friðarsinnar standa að blysför niður Laugaveginn á Þorláksmessu.
Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og áttunda í röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.
Í lok göngu verður efnt til fundar á Ingólfstorgi þar sem Halla Gunnarsdóttir blaðamaður flytur ávarp en fundarstjóri er Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður.
Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar.
Ráðlegt er fyrir göngufólk að mæta tímanlega því gangan leggur af stað studvíslega.
Friðargöngur verða einnig haldnar á Akureyri og á Ísafirði.
Nánari upplýsingar gefa:
Steinunn Þóra Árnadóttir. Sími: 6902592/5512592
Ingibjörg Haraldsdóttir . Sími: 8495273/5528653
Samstarfshópur friðarhreyfinga:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Friðar- og mannréttindanefnd Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
SGI á Íslandi (Friðarhópur búddista)
Samtök hernaðarandstæðinga
17.12.2007 | 16:34
Styrkjum Ljóð.is!!
Kæru bloggvinir og ljóðaelskufólk.
Brátt hverf ég aftur frá landinu um stundarsakir.

Ég vil tilkynna ykkur það að ef þið viljið eignast ljóðabók mína, Fimmta árstíðin, þá er hægt að panta eintak hjá ljóðakennara mínum og vini, Davíð A. Stefánssyni (david@ljod.is).
Verðið er 2.000 kr. með sendingargjaldi. Tekjur úr sölunni verða til styrktar vefsíðunni ljóð.is.
Davíð Stefánsson er skáld sjálfur og hefur stýrt ljóð.is(www.ljod.is) frá upphafi á árinu 2001. Einnig sinnir hann miklu verkefni í skálda- og útgáfufélaginu Nykri (www.nykur.is), sem er jafnframt útgefandi bókarinnar minnar.
Ég hef notað hingað til ljóð.is mjög mikið með því að skoða ljóðagerðir annarra eða með því að senda inn mín eigin ljóð. Vefsíðan gefur mér ávallt ferskt loft úr skáldaheiminum og einnig tækifæri til að kynnast mörgu góðu ljóðaelsku fólki.
Ég vil að sem flest ykkar hafið áhuga á Fimmtu árstíðinni en ef ekki, langar mig til að hvetja ykkur að heimsækja ljóð.is.
Það væri gaman!!

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ár!!

16.12.2007 | 15:38
"Í hjarta mínu"
Í hjarta mínu
er eitt hólf autt
þar sem ég hljóðlega finn
allt sem orð ná ekki yfir
né hlutir að forma
líkt og bil milli ljóðlína
eða tómrúm í japönsku málverki
Ég varðveiti það
ávallt
mitt dýrmæta hjartahólf
- Í hjarta mínu, Eftir Tomihiro Hoshino,
einkaþýðing úr frumtexta á japönsku af Bryndísi Möllu Elídóttur og TT-
Mig langar til að kynna eitt ljóð Tomihiro Hoshino, ljóðaskáld og málara, fyrir ykkur einu sinni enn.
Tomihiro Hoshino er Japani og nú er hann 68 ára gamall. Hann er vel þekktur í Japan og er búinn að gefa út margar ljóðabækur með fallegar myndir (eða myndabækur með falleg ljóð) síðan 1965. Sumar bækur eru þýddar á ensku.
Það er hægt að skoða myndir eftir Tomihiro Hoshino á vefsíðu:
http://www.hoshinotomihirousa.org
Hann er undarlegur maður að vissu leyti, en ef þú vilt vita um það, vinsamlegast heimsóttu ofangreinda vefsíðu.
Ég er enginn umboðsmaður hans og ekki einu sinni með leyfi frá honum til að þýða ljóð eða birta á vefsiðu. Þess vegna getur þetta verið höfundarréttandabrot, en þetta er ekki heldur fyrir viðskipti.
14.12.2007 | 14:52
“ Fimmta árstíðin” fær góðan dóm!!
Ljóðabókin mín Fimmta árstíðin fékk faglegan ritdóm í fyrsta skipti í Mbl. í dag.
Gagnrýnandi var Skafti Þ. Halldórsson hjá Morgunblaðinu.
Til minnar hamingju er dómurinn umburðarlyndismikill og ljúfur.
Takk fyrir þetta!
Það er aðdáunarvert hvernig Toshiki Toma hefur náð að temja sér tungutak okkar Íslendinga ef marka má ljóðabók hans Fimmtu árstíðina. Að sönnu hefur hann fengið aðstoð margra mætra einstaklinga við frágang bókarinnar ef marka má þakkir hans í lok hennar. En margt í henni er með þeim hætti að sérhverju íslensku skáldi væri sómi af. Toshiki Toma er fæddur í Tokýó í Japan og bera ljóð hans upprunanum vitni. En hann tekst einnig á við íslenskan veruleika og kannski ekki síst íslenska náttúru. Trúin er honum mikilvæg og lífið. Bókin hverfist um árstíðirnar og kannski ekki síst þá fimmtu sem hann líkir við blóm innra með sér sem
teygir sig upp
opnar sig til að taka á móti
skini frá sólinni
og bjarma frá jörðinni.
Styrkur Toshiki Toma er mestur í knöppu hæku-líku ljóðformi þar sem andstæðum er teflt fram í þéttu náttúrumyndmáli:
Á titrandi mósaíkmynd
á gárum Tjarnarinnar
hvílir haustdagur
Toshiki Toma er næmur á hina smágervu veröld í kringum okkur en hann spyr líka spurninga og bendir á margt í mannlegri breytni sem verður okkur til umhugsunar eins og í kvæðinu Sannleikur.
Sannleikurinn er
eins og bolti í ruðningsleik
Þeim er hrósað
sem láta boltann ganga á milli sín
Þeim sem vilja halda fast í hann
troðið í svaðið
Ljóðabók Toshiki Toma, Fimmta árstíðin, er fremur hugljúf bók þar sem fegurð lífsins er dásömuð. Ljóðin einkennast þegar best lætur af knappri og markvissri myndbyggingu og útgáfa hennar hlýtur að teljast nokkurt afreksverk.
-Skafti Þ. Halldórsson, Mbl. 14. desember bls.19-
12.12.2007 | 20:47
Hámenntaðir innflytjendur fara fram úr Dönum...og Íslendingum?
Ég veit ekki nánara um þessa skýrslu og get ekki sagt hvernig könnunin var haldin, hvernig könnunin metur menntun fólks og hvort hún sé trúverðug eða ekki.
En það væri áhugavert og athugavert að gera samsvarandi könnun um stöðu á Íslandi.
Danmörk og Ísland á bæði erfitt tungumál fyrir innflytjendur sameiginlega, svo ég er forvitinn hvers konar niðurstaða kemur út úr slíkri könnun.
En mér hefur skilst hingað til að menntun innflytjenda og afkomenda þeirra er ekki metin almennilega í Danmörk... Breytist staðan?
![]() |
Hámenntaðir innflytjendur fara fram úr Dönum á vinnumarkaðnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.12.2007 | 20:41
Málamyndahjónabönd útlendinga
Í forsíðu Fréttablaðsins í dag stendur stórt yfirskrift Grunur um að málamyndahjónaböndum fari fjölgandi.
Samkvæmt fréttagreininni var fjöldi dvalarleyfa fyrir maka Íslendinga sem veitt hafa á þessu ári 552 samtals, en 516 af þeim voru fyrir utan EES útlendinga.
Þetta er ca 99 % af heildarfjölda, en hlutfallið var 50% á árinu 2004, segir blaðamaðurinn.
Ég held það sé öðruvísi útskýring af hverju hlutfall EES útlendinga jókst í heildartali, en það er ekki málið núna.
Málið er það. blaðamaðurinn segir: Tveimur hefur verið synjað um dvalarleyfi vegna gruns um málamyndahjónaband á þessu ári, og að sögn Hildar (forstjóri Útlendingastofnunar) eru fleiri mál í skoðun sem gætu leitt til sömu niðurstöðu.
Sem sagt, meðal 552 útgefna dvalarleyfa á þessu ári, var tveimur umsóknum synjað. Og nokkur eru nú í skoðun en engin hugmynd um hve margar umsóknar eru að ræða.
Og yfirskrift í forsíðu blaðsins er málmyndahjónaböndum hafi fjölgað mjög.
Mig langar til að spyrja aðeins:
Er þetta ekki over reaction??

Grunur um að málamyndahjónaböndum fari fjölgandi
Fjöldi útgefinna makaleyfa til ríkisborgara utan evrópska efnahagssvæðisins hefur þrefaldast síðan 2004. Nær öll makaleyfi, eða dvalarleyfi fyrir maka íslenskra ríkisborgara, eru nú veitt einstaklingum utan EES. Fyrir þremur árum átti þessi hópur um helming allra makaleyfa.
Hildur Dungal, forstjóri Útlendingastofnunar, segir þessar tölur benda til þess að svokölluðum málamyndahjónaböndum sé að fjölga hérlendis. Við sjáum vísbendingar um það þótt sjaldnast sé grunurinn nægilega rökstuddur til að hægt sé að synja fólki um leyfi vegna hans." Haustið 2005 tóku gildi lög þar sem ríkisborgarar EES voru settir í forgang hvað varðar úthlutun dvalarleyfa. Þar af leiðandi var borgurum utan EES gert erfiðara um vik að fá dvalarleyfi. Við sáum í kjölfarið mikla aukningu í hjúskaparleyfunum og einmitt líka mun fleiri tilfelli þar sem grunur vaknaði um málamyndahjónabönd," segir Hildur.
Tveimur hefur verið synjað um dvalarleyfi vegna gruns um málamyndahjónaband á þessu ári, og að sögn Hildar eru fleiri mál í skoðun sem gætu leitt til sömu niðurstöðu.
Þá segir Hildur næsta víst að hér á landi hagnist einhverjir á slíkum hjónaböndum, bæði þeir sem taka greiðslu fyrir að ganga í málamyndahjónaband sem og menn sem hafi milligöngu um að koma slíkum hjónaböndum á. Slíkar greiðslur geti nálgast milljón krónur. Aldrei hafi þó tekist að sanna slíkt brot.
Níutíu og níu prósent makaleyfa sem veitt hafa verið í ár fóru til ríkisborgara utan EES. Árið 2004 var sama hlutfall fimmtíu prósent.
- Fréttablaðið, 03. des. 2007-
1.12.2007 | 17:48
Myrkur og ljós á aðventu
"Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg." (Lk. 1:78-79)
Í samfélagi okkar er til fólk sem situr í myrkri og skugga dauðans. Hvaða fólk er þetta?
Á dögum Jesú voru það t.d. tollheimtumenn, hermenn eða sjúklingar. Af ýmsum ástæðum, stóð þetta fólk fyrir utan venjulegt borgaralegt samfélag. Það var einangrað og missti næstum alla von og gleði til þess að lifa lífi sínu.
Þá kom Jóhannes skírari. Hann var ekki sjálfur ljósið, en hann benti á ljósið sem skín í fjarska. Jóhannes kom og sagði; "þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?" Þrátt fyrir slík orð sneri fólkið sér ekki frá honum. Af hverju? Af því að hann mismunaði ekki fólki. Jóhannes ávarpaði þetta yfirgefna fólk alvarlega og einlæglega. Á meðal margra trúarleiðtoga, var það aðeins Jóhannes sem leit á þetta fólk sem mannneskjur sem ættu að teljast til Guðs lýðs. Hvert og eitt okkar er jafnt fyrir augum Guðs. Hörð orð hans voru ekkert annað en tjáning þess.
Síðan kom Jesús. Hann var sjálfur ljósið. Hann var með fólki sem hafði setið í myrkri, og varð síðan það fólk sem bar ljós Guðs í samfélaginu. Guð valdi þau til að sýna dýrð sína.
Nú virðist sem margir sitji enn í myrkri í kringum okkur. Af hverju? Kemst ljós Guðs ekki til þessa fólks? Ber enginn ljósið til þess? En fyrst og fremst, hverjir sitja í myrkri núna?
Í fyrsta lagi nefni ég sjúklinga, fátæka, atvinnulausa, fanga, flóttamenn o.fl. Það er að segja fólk sem á í ýmsum erfiðleikum í félagskerfinu. Að sjálfsögðu eru ekki allir sjúklingar eða allt flóttafólk í myrkri. Samt er viss tilhneiging í samfélagi okkar, sem reynir að útiloka fólk sem frábrugðið er "meðaljóninum".
Í öðru lagi getur það verið fólk sem er sorgmætt eða einmana, t.d. vegna fráfalls einhvers í fjölskyldu sinni.
En í þriðja lagi, hverjir fleiri?
Ég er prestur en einu sinni var ég atvinnulaus hér á Íslandi. Ég var að hlaupa úr einu í annað til þess að ég kæmist aftur í þjónustu. Dag nokkurn var ég beðinn um að heimsækja sjómann frá Indónesíu á spítala. Hann slasaðist alvarlega á skipi sínu og varð að dvelja hérlendis til að fá meðferð. Hann talaði aðeins japönsku sæmilega fyrir utan móðurmál sitt, og hann var múhameðstrúar. Hann var ólíkur öllum öðrum þar.
Við hittumst nokkrum sinnum, en í byrjun var hann eðlilega mjög einangraður, hræddur og dapur. Hann var mikið meiddur og missti vinnuna á skipinu. Hann var skilinn einn eftir langt í burtu að heiman. Seinna byrjaði maðurinn að tala um sjálfan sig, t.d. um heimili sitt í Djakarta og um konuna sína og fjögurra ára dóttur. Draumur hans var að opna eigin bókaverslun, en til að gera það yrði hann að spara peninga; o.fl.
Stig af stigi tók ég eftir því að hann var ekki bara "sjómaður frá Indónesíu", heldur maður sem bar sitt eigið nafn, átti sína ævisögu og skyldur. Þegar hann loksins lagði af stað til síns heimalands, var hann mjög glaður á svipinn og sagði mér hve mikið hann hlakkaði til þess að hitta fjölskyldu sína. Ég bað Guð innilega fyrir honum og fjölskyldu hans.
Fyrst hélt ég að þessi maður væri einhver vesalingur og ætlaði að hugga hann. Það má segja að hann hafi setið í myrkri hér á landi. Ég reyndi að bera ljós til hans. Það er eitt, en hér er annað atriði til. Það er að ég var sjálfur huggaður með því að fá að hitta þennan mann.
Spjallið við hann rifjaði mikið upp fyrir mér. Það er að hver maður er dýrmætur og einstakur. Hve þakkarvert er að eiga fjölskyldu sem bíður alltaf eftir manni og hve ómetanleg gleði er að fá að þjóna náunga okkar, sérstaklega einhverjum sem á í erfiðleikum. Ég hafði gleymt þessu og glatað á meðan ég var upptekinn af eigin vandkvæðum mínum, sem var atvinnuleysið. "Maðurinn frá Indónesíu" vakti mig til umhugsunar.
Hver sat þá í myrkri þegar allt kom til alls? Jú, maðurinn frá Indónesíu. Og ég líka. Ég sat í myrkri, en ég vissi það ekki. Þegar ég gleymdi gleðinni að elska og þjóna náunga mínum var ég kominn í það myrkur. Myrkur er ekki aðeins staða þar sem okkur skortir að vera elskuð, heldur líka sú staða þar sem við getum ekki elskað nóg, þar sem við lítum ekki með kærleika og virðingu til annarra sem jafningja okkar. Við gleymun þessu svo oft og föllum ómeðvitað í myrkur.
Guð gerir þann jafnan sem býst við því að vera elskaður og þann sem á að elska. Ég hélt að ég gæfi manninum frá Indónesíu ljós. Hvílíkt yfirlæti. Ljósið kom yfir hann, og yfir mig frá Jesú. "Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors." Hvert og eitt okkar er jafnt fyrir augum Guðs.
Við erum ekki sjálf ljósið. Samt er okkur heimilt að benda náunga okkar á ljós Jesú, sem lýsir okkur sjálfum líka samtímis.
Hverjir sitja í myrkri? Megi ljós Jesú berast til þeirra núna á aðventu.
(Fyrst birt í Mbl. á aðventu 1998)