Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað er trúboð?

Trúfrelsi er mikilvægur hluti mannréttinda í nútímasamfélagi. Þess vegna eru umræður um trúfrelsi að undanförnu hérlendis af hinu góða. Í umræðunum heyrist oft orðið ,,trúboð" og iðulega í því samhengi að allt sem prestar taka sér fyrir hendur sé trúboð. Þetta felur í sér ákveðna staðalmynd sem stenst ekki.

Samkvæmt Íslensku orðabókinni er ,,trúboð" skilgreint sem ,,boðun trúar meðal þeirra sem játa e-a aðra trú". Í orðabókinni segir einnig að ,,boðun" eða ,,að boða" sé að ,,kunngera" eða að ,,reyna að koma e-m á e-a trú eða skoðun". Sem sé, svo má segja að trúboð sé að hvetja einhvern virkilega að snúa til ákveðinnar trúar með orðum og gjörðum.

Í kristinni kirkju er boðun fagnaðarerindisins ekki smáatriði, heldur kjarnastarfsemi. Þess vegna er eðlilegt að að orðið trúboð fái á sig ólíkan blæ og ólíka þýðingu eftir samhenginu. En í samfélagslegri umræðu ætti skilgreining á trúboði að vera eins og ofangreind tilvísun í orðabókina greinir frá.

Þjónusta sem er ekki trúboð

Ef við fylgjum þessari skilgreiningu, kemur það í ljós að ýmis konar þjónusta prests eða kirkjunnar er ekki trúboð í raun. Skýrt dæmi er þjónusta hjá sjúkrahúsprestum. Sjúkrahúsprestur þjónar öllum sjúklingum og aðstandendum eftir ósk, óháð trúarlegum bakgrunni þeirra. Og þjónustan sem er veitt er fyrst og fremst sálgæsla og samfylgd en ekki trúboð. Kona sem fékk sálgæslu hjá sjúkrahúspresti sagði: ,,sjúkrahúspresturinn talar um allt nema trúmál". Að sjálfsögðu talar hann um trúmál ef viðkomandi óskar eftir því, en málið er að hann er þátttakandi í samtali við fólk og leggur sig fram við að veita nærveru, virka hlustun og ráðgjöf, en ekki trúboð.

Hið sama gildir um þjónustu mína sem prests innflytjenda. Frá upphafi þjónustunnar árið 1996 hefur markmið hennar verið að hjálpa innflytjendum að aðlagast íslensku samfélagi en ekki beint kristniboð. Mér skilst að þetta sé ríkjandi stefna einnig meðal innflytjendapresta á hinum Norðurlöndunum. Með því að veita innflytjendum aðstoð við að styrkja sjálfsmynd sína, sem oft býður hnekki í nýju landi, sýnir prestur manneskju, sem er sköpun Guðs, virðingu og samstöðu. Það er grunnhugsunin og þannig afstaða þjónar innflytjendum best á erfíðum tíma og í flóknum aðstæðum.  

Það er hægt að benda á starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar, samtöl milli  trúarbragða eða áfallahjálp sem dæmi um starfsemi presta eða kirkjunnar þar sem andi mannúðar ríkir, og tilgangurinn er ekki trúboð.

Stuðlum að gagnkvæmri virðingu

Sumir myndu svara mér og segja: ,,þó að prestur stundi ekki beint trúboð, hlýtur það að vera undirliggjandi tilgangur að fólk snúist til kristinnar trúar". Það er einstaklingsbundið hvað knýr hvern og einn, þótt erfitt sé að fullyrða að ekkert slíkt búi á bak við. Þó væri réttara að kalla það ,,ósk" frekar en ,,undirliggjandi tilgang".

En samkvæmt skilgreiningunni hér að ofan, er trúboð það að hvetja einhvern virkilega að snúa til ákveðinnar trúar, með orðum og gjörðum. Og það sem maður óskar í brjósti sínu er ekki trúboð. Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Þegar fólk tekur þátt t.d. í friðargöngu, hlýtur sérhver maður að bera í brjósti ósk sem er tengd við trú hans eða lífsskoðun, en við lítum ekki á hana sem falinn tilgang. Ef við færum að kalla það ,,falið trú- eða lífsskoðunarboð" værum við að meta hvað fer fram í huga sérhverrar manneskju. Þar með væri úti um tilraunir til að byggja upp gagnkvæma virðingu meðal fólks.

Það sem við verðum að læra, prestar sem aðrir, er að aðgreina stað, stund og tilefni fyrir trú- eða lífsskoðunarboð. Við þurfum að móta skýra og sameiginlega reglu um þetta og fá þjálfun til að fylgja henni. Ég tel að þetta sé óhjákvæmilegt. Ef prestur byrjar að prédika þar sem það er óviðeigandi, á að vera leið til að kvarta yfir því formlega. En mig langar jafnframt að ítreka það hvort prestur stuðli að trúboði eða ekki á ákveðnum stað og stund á að dæmast eftir orðum og gjörðum prestsins þar, en ekki eftir almennri staðalmynd um presta.

Ef þessi aðgreining er ekki fyrir hendi, verða fordómar og staðalmyndir um trúarbrögðin til þess að ýta prestum og kirkjunni út af opinberum vettvangi. Slíkt er engum í hag.  

-Fyrst birt í Mbl. 25. apríl 2012- 


Þörf á miðstöð innflytjenda í Reykajvík

Reykjavíkurborg bauð okkur innflytjendum í Reykjavík á Fjölmenningarþing í fyrsta skipti í nóvember 2010. Þar ræddu 200 innflytjendur um ýmis atriði í borgarlífinu.

Atriði sem flestir þátttekendur komu fram með er nauðsyn miðstöðvar innflytjenda í Reykjavík eins og Alþjóðahúsið hafði verið áður. Borgin sagði borgin upp samningi við Alþjóðahúsið árið 2009 aðallega vegna fjárhagslegrar óvissu hjá sér og miðstöð innflytjenda í Reykjavík hvarf í kjölfarið.

Síðan hefur hluti af þeirri þjónustu sem Alþjóðahúsið hafði áður sinnt verið skipt á milli ýmissa aðila eins og Alþjóðaseturs, Þjónustumiðstöðvar Hlíða og Miðborgar o.fl. Sérhver aðili hlýtur að gera sitt besta en þetta er samt bót til bráðabirgða, ef litið er á heildar þörf innflytjenda í höfuðborgarsvæðinu. Vandamál eru t.d.:

  • Ekki er hægt að fá þjónustu frá stofnunum borgarinnar ef maður á ekki lögheimili í borginni.
  • Erfitt er fyrir innflytjendur að kynna sér hvers konar þjónusta er í boði og hvar hægt er að nálgast hana.
  • Erfitt er fyrir þjónustuveitendur í málefnum innflytjenda að skiptast á upplýsingum.
  • Erfitt er að skapa umgjörð fyrir virka þátttöku innflytjenda í  menningarstarfsemi án stöðugrar miðstöðvar.
  • Erfitt er að móta sameiginlega stefnu um málefnið meðal sveitafélaga.

Þannig er auðséð að það er eftirsóknarvert að eiga miðstöð innflytjenda á höfuðborgarsvæðinu. En þá vekur spurningin um hæl: hver ber ábyrgð á henni? Ríkið, borgin eða samstarf sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu?
Ríkið er núna að reyna rekstur Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum sem er því formlega ríkisstofnun og stefnt er því að setrið verði áfram á Vestfjörðum. Gott mál, en spyrja má hvort ríkið eigi ekki að leggja meiri fyrirhöfn í höfuðborgarsvæðið.

Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar, greiddu 24.294 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi á árinu 2010 vegna tekna sem þeir öfluðu árið 2009, og 10.785 af þeim voru búsettir í Reykjavík. Við megum hafa þessar tölur til hliðarsjónar okkar þegar við hugsum um málið.

Ísland er enn á ferli endurbyggingar. Margir munu spyrja hvers vegna íslenska þjóðin þarf að leggja fé til þjónustu við innflytjendur. En það blasir við að þegar þjóðin nær velgengni, er þátttaka innflytjenda ómissandi. Er það því ekki snjallara og mikilvægt að reikna hlutverk innflytjenda inn í framtíðarmynd þjóðarinnar frá upphafi? 

- fyrst birt í FrB 19. apr. 2012 -


Eina "Almáttuga"ráðuneytið?

Það virðist að ráðuneytum fækkar enn. Kannski þurfum við bara eina "almáttuga"ráðuneytið.
Þá eiga stjórnmálaflokkar að sameinast líka í eina Hinn Íslenskaflokka? 
Einu sinni gerðist slíkt í Japan í kringum heimsstyrjördin síðari.... Hættuleg leið, finnst mér.
Yfirvald má ekki sameinast of mikið.

Ég er í VG, en ég styð ekki þessa "sameinuð" eða "einræðu" stefnu.


mbl.is Fór hörðum orðum um tillöguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÍSLENSKUR EN EKKI ÍSLENDINGUR...?

ÞJÓÐERNI; franskt. Einkenni; Lítur ekki út fyrir að vera Frakki." Þetta var spaug konu af afrískum uppruna, þegar frönsk stjórnvöld reyndu að breyta lögum um eftirlit útlendinga í strangari átt árið 1993. Þessi orð lýsa vel fjarlægðinni sem er á milli þess að vera íbúi samfélags og að vera virkur meðlimur þess samfélags. 

Eins og sést í innflytjendamálum sérhverrar þjóðar Vestur-Evrópu, þá er langur vegur á milli þess að setja lög sem tryggja réttindi innflytjenda og hins að gera þeim raunverulega kleift að taka jafnmikinn þátt í samfélaginu og aðrir borgarar. Það er enn til veggur sem aðskilur "útlendinga" frá "venjulegum íbúum". Þessi veggur getur verið menningarlegur, tilfinningalegur eða þjóðernislegur. "Ég er ekki útilokaður, en ekki heldur talinn með." Slík reynsla er afar algeng hjá innflytjendum sem eiga heima á Íslandi. Hvað er hægt að gera til þess að brúa þetta bil? Hvað er raunsætt og hvað er hægt að gera beggja megin borðs, svo að Íslendingar og innflytjendur geti nálgast hvor aðra? Mig langar dálítið til að hugleiða þetta mál með því að skoða menningarlega hlið innflytjendamála. 

Þróun þjóðar fram yfir etníska þjóð 

Í upphafi langar mig til að lýsa stuttlega skoðun minni á íslenskri þjóð. Þjóð er nú talin eins konar grunneining í heiminum, en í raun er hún mjög flókið og umdeilt hugtak. Það eru margar þjóðir til í heiminum, fæðast stöðugt að nýju eða liðast í sundur. Einnig eru margs konar þjóðir til. Þjóð eins og Kína, sem býr yfir 55 mismunandi þjóðarbrotum, eða Pólland, sem stendur í miðri Evrópu, er ekki sambærileg við þjóð eins og Ísland, sem er þjóðarbrotlega einsleit og landfræðilega aðskilin frá öðrum löndum. 

Hver þjóð á sín séreinkenni. Þessi einkenni móta sjálfsmynd þjóðarinnar, og öfugt. Hver eru séreinkenni Íslands sem sjálfstæðrar þjóðar? Smæð er vissulega eitt þeirra, en hér langar mig frekar til að taka fram að Ísland hefur hingað til verið einsleit þjóð. Ísland er nefnilega mjög etnísk þjóð. 

Það sem telst til einkenna etnísks hóps (þjóðarbrots) eru yfirleitt þættir eins og goðsögn um forfeður sína, sameiginleg saga, tungumál, trúarbrögð eða jafnvel matarsiðvenjur. Venjulega á ferli þróunar frá etnísku ríki til stærri þjóðar hverfa sum þessara einkenna eða sameinast við önnur. Þegar fleiri en eitt þjóðarbrot eru til í einni þjóð, styrkjast oft borgaraleg einkenni þjóðarinnar, einkenni sem tryggja réttindi allra íbúa landsins. Einnig verður sameiginleg sjálfsvitund um að að byggja land saman til að halda í einingu þjóðarinnar mikilvægari. Þessi vitund eða tilfinning er nátengd sögu þjóðarinnar. Það sem telst til einkenna íslenskrar þjóðar er t.d. goðsögn um að Íslendingar séu harðgerðir afkomendur víkinga, dýrkun á íslensku tungumáli, trú á hreinleika íslenskrar náttúru eða meðvitund um að tilheyra þjóðkirkju. Þessi einkenni sýna okkur að á Íslandi ríkir aðallega etnísk sjálfsmynd, þar sem tungumál, skáldleg dýrkun á náttúru landsins og trú eru einmitt einkenni etnískra þjóðarbrota. Ef ég má taka eitt lítið dæmi úr daglegu lífi okkar, dæmi um þá einsleitni sem gert er ráð fyrir í þjóðfélaginu, bendi ég á auglýsinguna "Íslendingar borða SS pylsur". Þess konar fullyrðing, "Íslendingar gera þetta eða hitt" heyrist oft í þjóðfélaginu og gefur okkur afar sterklegan etnískan tón. Múslímar á Íslandi borða ekki pylsur vegna þess að þeim er bannað að borða svínakjöt í trúarlegum reglum sínum. (Ég ræði hér ekki hvort SS pylsur séu góðar eða ekki!) 

Hins vegar finnur maður tiltölulega sjaldan fyrir borgaralegum einkennum eins og t.d. tilvísun í stjórnarskrá í daglegu lífi fólks eða umburðarlyndi við framandi lífshætti. Notkun erlendrar tungu í þjóðfélaginu fær frekar neikvæð viðbrögð. Á Íslandi sýnist mér að etnísk sjálfsmynd sé líka beinlínis þjóðarsjálfsmynd. Þjóðarsjálfsmynd sem tengd er við borgaralegar hugmyndir hefur enn ekki þróast nóg. Þess vegna er höfuðeinkenni íslenskrar þjóðernisvitundar sprottin af aðeins tveimum þáttum, þ.e. "annaðhvort ertu íslenskur eða útlenskur". Slík þjóðernisvitund styrkir viðhorf Íslendinga til að krefjast einhliða aðlögunar innflytjenda að íslenskum gildum. Á Íslandi virðist því skorta sjálfsmynd borgaralegs þjóðfélags og það er nauðsynlegt að þróa hana ef við horfum á staðreyndir um aukinn fjölda íbúa af erlendum uppruna á Íslandi. Þjóðin er nefnilega að þróast í áttina að því að verða fjölmenningarleg þjóð. Samt er enn ekki gert ráð fyrir "ó-íslenskum" íbúum. 

 Íslenska sem annað mál 

Þegar ég fyrst birti þessa skoðun mína á íslenskri þjóð á málþingi ReykjavíkurAkademíunnar í júní sl. fékk ég strax andsvar eins og að "á Íslandi ríkir jú borgaraleg sjálfsmynd líka eins og í Bandaríkjunum, sjáðu t.d. félagsþjónustukerfið!" Ég viðurkenni það. Lög á Íslandi miðast við að þau gilda jafnt fyrir alla. Það er mjög gott mál. En lítum aftur til smásögunnar frá Frakklandi sem ég kynnti í byrjun. Nú skulum við breyta orðum svolítið. "Þjóðerni: íslenskt. Einkenni: Lítur ekki út fyrir að vera Íslendingur." Gilda þessi orð líka á Íslandi? Orð þessi snúast ekki aðeins um lagamál eða réttindamál innflytjenda, heldur lýsa þau því hvernig innflytjendum líður í viðkomandi þjóðfélagi. M.ö.o. þessi orð spyrja hvort innflytjandi þyki jafn félagi í samfélagi eða ekki. 

Til þess að íhuga þetta atriði verðum við að velta mannlegu og menningarlegu atriði fyrir okkur. Í því sambandi munu allir samþykkja nauðsyn þess að íhuga íslenska tungu. Tungumál er ekki aðeins grunnur fyrir samskipti manna, heldur er það einnig notað í þeim tilgangi að að skilja sig frá öðrum og halda í einingu etnísks hóps. Etnískur hópur gefur sem sagt tungumáli sínu hlutverk og merkingu í sínu etníska umhverfi. Þetta er mikilvægt atriði til íhugunar á Íslandi. Íslendingar eru búnir að fela tungumáli sínu stórt hlutverk sem tákn þjóðernisvitundar sinnar. Það er ekki erfitt að sjá að svona vitund Íslendinga á tungumál sín gerir það erfiðara fyrir innflytjendur að fá viðurkenningu á íslenskukunnáttu sinni. Hin hefðbundna túlkun Íslendinga á menningarlegri þýðingu íslenskrar tungu leiðir óhjákvæmilega til árekstra á milli þjóðernishyggju Íslendinga og þróun þjóðarinnar að fjölmenningarsamfélagi. 

Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur gerir grein fyrir þessu atriði mjög vel og ítarlega í sínum verkum. Það er algeng hugmynd, sérstaklega á meðal hámenntaðs fólks, að leggja áherslu á íslensku sem kjarna menningar sinnar. Í því samhengi er íslenska tungumálið ekki aðeins tæki til að halda samskiptum á milli manna, heldur er það gert að sál, sögu og menningu Íslendinga. Sumir segja að það að læra íslensku sé að læra sögu, bókmenntir og anda Íslendinga. Ég hef ekkert á móti þessari hugmynd og get verið frekar sammála henni svo framarlega sem við tölum um íslenskunám á sérfræðisviði, eins og bókamenntafræði eða sagnfræði. Hins vegar er ég algjörlega ósammála því að nota þessa hugmynd gegn hverjum einasta útlenska manni sem lærir íslensku til þess að búa hérlendis. 

Í borgaralegu samfélagi getur innflytjandinn nýtt sér íslenskuna sem tæki til samskipta, en í etnísku samfélagi er "ófullkomin" íslenskukunnátta hans notað sem tæki útilokunar, tæki sem kemur í veg fyrir uppbyggjandi samskipti við "innfædda".

Hér liggja ákveðin grundvallarmörk á milli borgaralegs og etnísks samfélags. 

Í þessu samhengi nota ég tiltölulega nýtt hugtak, þ.e. "íslenska sem annað mál". Þetta orðalag sést stundum hér og þar og er þá aðallega átt við íslensku sem kennd er börnum sem eiga annað móðurmál en íslensku. En ég vil frekar skilja þetta nýja hugtak í samhengi við ofangreinda "borgaralega sjálfsmynd þjóðarinnar". Ég segi einfaldlega; "íslenska sem annað mál" er íslenska sem útlendingar tala. "Íslenska sem annað mál" er tæki til þess að njóta samskipta við íslenskumælendur. Málfræðilega mun slík íslenska líklega vera ófullkomin og skáldlega mun hún ekki koma til greina. Menningarlega mun hana skorta innsýn og skírskotun til sögu og menningarlífs Íslendinga. "Íslenska sem annað mál" er nefnilega léleg íslenska ef hún er metin á hefðbundinn hátt. Hvað finnst ykkur um slíka íslensku?

Mig langar til að rökstyðja þrjú atriði til stuðnings hugmyndinni um "íslensku sem annað mál". 

Í fyrsta lagi spyr ég einnar spurningar varðandi tungumálakunnáttu og önnur menningaratriði sem eru tengd við tunguna. Mér skilst að flestir Íslendingar tali ensku. Hve margir þeirra eru þá búnir að lesa ljóð eftir Chaucer, Shakespeare eða Whitman og þar með skilja "sál" Breta eða Bandaríkjamanna? Þegar við notum ensku er okkur sama hvort við séum með slíka þekkingu eða ekki. Af hverju? Af því að við erum vön því að nota ensku sem "annað mál". Það að við notum ensku eingöngu sem slíkt samskiptatæki dregur á engan hátt úr gildi enskra bókmennta eða þýðingu þeirra fyrir enska þjóðarvitund. Ástæða þess að fólk tengir strax íslenskt tungumál við menningu Íslendinga er aðallega sú að Íslendingar eru ekki vanir því að hugsa um íslensku sem "annað mál". Fyrir Íslendinga er íslenska ekkert annað en móðurmál. Fólk þekkir ekki notkun íslensku sem annars máls. Þetta þarf að breytast. 

Í öðru lagi vil ég benda á að jafnvel þótt "íslenska sem annað mál" sé léleg íslenska í samanburði við íslensku sem innfætt fólk talar, þá þarf hún ekki að vera slæm. "Íslenska sem annað mál" er ákveðinn farvegur þar sem mismunandi menningarstraumar mætast og færast hingað til landsins. Með innflytjendum myndast möguleiki á því að kynnast jákvæðum hluta ólíkrar menningar sem auðgar íslenskt þjóðfélag. 

Í þriðja lagi er "íslenska sem annað mál" raunverulegt merki um þróun borgaralegrar sjálfsmyndar Íslands. Ef þjóðfélagið viðurkennir framlag og merkingu "íslensku sem annars máls" þá fáum við innflytjendur að njóta okkar eigin íslensku. Ég er ekki að hvetja til þess að tala lélega íslensku, en ég hvet til þess að tala frekar en að þegja. Innflytjendur langar til að tala betri íslensku, en það sem við getum tileinkað okkur er takmarkað. Jafnframt finnst mér mun mikilvægara að hver og einn innflytjandi, sem getur bjargað sér á íslensku, styrki þekkingu sína á eigin sérsviði t.d. í atvinnulífinu til að geta lagt ríkari skerf til samfélagsins, fremur en að lesa Njálssögu til að bæta þekkingu sína á íslenskri menningu.Tillaga mín er að við reynum að þróa hugtak um "íslensku sem annað mál" á jákvæðan hátt og telja þetta nýja fyrirbæri til hluta menningar þjóðarinnar. Raunmynd þessa gæti t.d. verið að útlenskir menn sem tala íslensku hafi umsjón með útvarps- og sjónvarpsþáttum eða að það sé hluti kennsluáætlunar að hlusta á þá. En fyrst og fremst er nauðsynlegt að ákveðin hugmyndarfræðileg breyting eigi sér stað hjá Íslendingum. Ég held að ef "íslenska sem annað mál" fær almenna viðurkenningu á Íslandi, þá muni lífskjör innflytjenda bætast mikið og þeim reynast auðveldara að verða virkir félagar þjóðfélagsins.

Virkari þátttaka innflytjenda í þjóðfélaginu

Hugtakið "íslenska sem annað mál" er hluti af þróun borgaralegrar þjóðarsjálfsmyndar. Það viðurkennir að íslensk tunga verði að vera tungumál og tæki til samskipta, ekki aðeins fyrir Íslendinga heldur líka "ó-íslenska" íbúa Íslands. Þessi þróun sýnir okkur að hefðbundin þjóðarmynd, sem er jafnan: Ísland = Íslendingar = íslenska sem móðurmál, breytist í náinni framtið. Ný þjóðarmynd verður: Ísland = Íslendingar bæði innfæddir og af erlendum uppruna = íslenska sem móðurmál og annað mál. Þessi breyting þjóðarmyndar takmarkar sig ekki við tungumálið, heldur mun breiðast til menningarsvæðisins alls. Þessi breyting er nefnilega þróun til þroskaðrar þjóðar fram yfir etníska þjóð.

Ég vil forðast það að valda misskilningi. Ég segi ekki að Íslendingar þurfi að afsala sér menningu sinni. Ég segi ekki að menningarvernd Íslands sé röng. Þvert á móti finnst mér mjög mikilvægt að halda áfram viðleitni menningarverndar. En þjóðin getur um leið viðurkennt tilvist öðruvísi menningarheima hérlendis og þar með stækkað sjálfsmynd sína. Menningarvernd Íslendinga á að standa á gagnkvæmri virðingu fyrir mismunandi menningarheimum. Annars mun íslensk menning sjálf skaðast í framtíðinni. Ef skortur er á gagnkvæmri virðingu til annarra þýðir það að sú menning eigi ekki skilið virðingu fyrir sjálfri sér. Nú langar mig til að skjóta að öðrum atriðum.

Hvað eigum við að gera á þessu þróunarferli þjóðarinnar? Hvað getum við gert til þess að bæta aðstæður innflytjenda í þjóðfélaginu, t.d. til að berjast við kynþáttafordóma eða mismunun eftir þjóðerni? Að mínu mati er mikilvægasta málið að móta nýja þjóðarvitund sem nær til bæði innfæddra Íslendinga og innflytjenda. Eins og ofangreint sýnir hefur Ísland verið hingað til mjög einsleit þjóð. Á Íslandi er engin hætta á því að breyting eða vanþroski þjóðarvitundar valdi stríði milli mismunandi etnískra hópa eins og hefur gerst í fyrrverandi Sovétríkjunum eða Júgóslavíu.

Þvert á móti getur vanþroski þjóðarvitundar valdið aukningu duldra fordóma, ofbeldi gagnvart íbúum sem eru með öðruvísi útlít en hefðbundin mynd Íslendinga og áhætta sjálfsmyndar fyrir næstu kynslóð innflytjenda. Áhætta sjálfsmyndar innflytjendabarna sést t.d. í Þýskalandi eða Bretlandi. Börn innflytjenda hafna því að tilheyra frum-etnískum hópum sínum og segjast vera bara venjulegir Þjóðverjar eða Bretar. Engu að síður telja "frum-íbúar" þar, þó ekki allir, þau ekki til meðlima sinna. Þannig tapa innflytjendabörn föðurlöndum sínum og síðan sjálfsmyndum. Þau spyrja; "Hverjir erum við? Er þetta ekki okkar land?" Mér finnst að slík vandamál geti gerst á Íslandi í alvöru eða þau gerast nú þegar.

Þess vegna verður þjóðarvitund að þróast saman með þróun þjóðarinnar. Til að svo megi verða eru a.m.k. tvö atriði talin mikilvæg.

Í fyrsta lagi eigum við innflytjendur að taka virkan þátt í þjóðfélaginu með því að tjá skoðun okkar. Stjórnvöld bæði ríkis og sveitafélaga eiga að hvetja til slíks. Innflytjendur eru líka félagar þjóðfélagsins. Nú þegar eru innflytjendur að styðja efnahag þjóðarinnar og halda honum uppi sérstaklega á landsbyggðarsvæðum. Slíkt framlag á að sjást á fleiri sviðum en bara efnahagssviðinu. Sérstaklega finnst mér nauðsynlegt að innflytjendur taki frá byrjun þátt í stefnumótun ríkis og sveitafélaga. Innflytjendur eru ekki aðeins þiggjendur þjónustu. Þeir geta lagt sitt af mörkum með því að sýna fram á öðruvísi sjónarmið og hugsjón til þjóðfélagsins. Það er stór kostur fyrir þjóðfélagið að fá mismunandi hugmyndir sem innflytjendur bera með sér til landsins.

Í öðru lagi verðum við að forðast að móta stétt á milli innfæddra Íslendinga og innflytjenda. Mér finnst gott að á Íslandi eru innflytjendur ekki búnir að móta sérhverfi til að búsetu. Það er ekki til "Múslímastræti" eða "Kínverjargata" eins og oft sést í öðrum löndum. Þessi staðreynd hlýtur að nýtast vel fyrir forvarnarstefnu um fordóma. Ef fólk mótar séríbúahverfi fyrir sig, mun reynast erfiðara að hvetja til fjölmenningarlegra samskipta í samfélaginu. Hins vegar getur fólk af erlendum uppruna verið einangrað ef það á ekki sitt eigið hverfi. En þessi einangrun á að leysast með því að auka samskipti við Íslendinga, ekki með því að móta sérhverfi fyrir sig. Bæði innfæddir Íslendingar og fólk af erlendum uppruna eru að búa saman og byggja land saman.

Við innflytjendur verðum hins vegar einnig að passa okkur á að búa ekki til eins konar stéttir á meðal innflytjenda, hvorki á milli þeirra sem tala góða íslensku og þeirra sem ekki tala, né á milli þeirra sem hafa búið hér lengi og þeirra sem eru nýkomnir. Fordómar og mismunun eru ekki aðeins til í meirihluta, heldur líka í minnihlutahópum.

Lokaorð

Innflytjendamál eru samfélagsfræðileg mál og mannleg mál. Þau varða tvær sjálfsmyndir, sjálfsmynd þjóðar sem tekur á móti innflytjendum og sjálfsmynd hvers einstaks innflytjanda. Fyrir þjóðina snertir málið þjóðernisvitund og fyrir innflytjandann snertir það spurninguna; "hver er ég og hverju tilheyri ég?". Þetta er spurning sem öll trúarbrögð, þ.á m. kristni, reyna að svara og flestar etnískar goðsagnir reyna að útskýra. Með þessari spurningu þróaðist mannkynið hingað til, og svo er líka á Íslandi. Þetta er stóra spurningin um hvar við leggjum undirstöðu tilveru okkar.

EFTIR TOSHIKI TOMA Höfundur er stjórnmálafræðingur og prestur innflytjenda.


Móðurmál barna – fjársjóður allra

,,Móðurmál - félag um móðurmálskennslu tvítyngdra barna" fagnar 10 ára afmæli sínu núna í desember. Móðurmálskennslan er fyrir börn sem eiga sér annað móðurmál en íslensku en er ekki íslenskukennsla fyrir íslensk börn sem búsett hafa verið erlendis. Jafnvel þótt þetta séu í raun tvær hliðar á sama peningi þá virðist móðurmálskennsla barna innflytjenda á Íslandi enn fá litla athygli í samanburði við þá ,,móðurmáls"kennslu sem íslensk börn fá.
Eftirfarandi er persónuleg skoðun mín sem einstaklings tengdur móðurmálskennslu og prests innflytjenda, en ekki álit Félags Móðurmál eða annarra aðila.

Félagið ,,Móðurmál"

Hér verð ég að  afmarka skrif mín um móðurmálskennslu við þá sem tengd er félaginu ,,Móðurmál", en ég vil samt benda á að það fer fram sambærileg móðurmálskennsla utan félagsins á öðrum tungumálum, t.d. pólsku.
Félagið  ,,Móðurmál" var stofnað árið 2001 og var tilgangur þess í fyrsta lagi að leita styrkja til þess að halda áfram móðurmálskennslu eins og ensku, rússnesku og japönsku, sem þegar var hafin og í öðru lagi að boða mikilvægi móðurmálskennslu og styrkja hana í skólakerfinu og almennt í samfélaginu. (Nánara um Móðurmál fæst í www.modurmal.com)

Rétt áður hafði Reykjavíkurborg samþykkt Fjölmenningarstefnu sína en í henni var sagt: ,,Lögð verði áhersla á kennsluhætti sem henta börnum af erlendum uppruna og að koma til móts við þarfir þeirra, m.a. í kennslu á íslensku sem öðru tungumáli. Einnig með kennslu í og á móðurmáli þeirra eftir því sem við verður komið." Þetta var frábær setning en hún hefur æ síðan verið eins og ,,gulrót sem haldið er undan hestsnefi" fyrir þá sem vilja festa móðurmálskennslu í grunnmenntun barna, þar sem stefnunni var ekki hrint í framkvæmd.

Félagið ,,Móðurmál" fékk styrki héðan og þaðan, en þeir dugðu aðeins til að kynna starfsemi félagsins og fyrir námskeiðum kennara. Kennslan var og er enn unnin í sjálfboðastarfi, nema að síðastliðin tvö ár hefur Reykjavíkurborg styrkt félagið með því að lána því kennslustofu í Hagaskóla. 

Ég ætla ekki að segja að ekkert jákvætt hafi gerst í móðurmálskennslu barna sem eiga sér annað móðurmál en íslensku síðan félagið var stofnað en það er heldur ekki allt í góðu. Mér finnst að það vanti enn skilning á mikilvægi móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Því verðum við foreldrar tvítyngdra barna að halda málinu á lofti.

Málið hefur tvær hliðar

Málið hefur tvær hliðar: önnur er hlið sem snertir réttindi barna í menntakerfinu og hin er hliðin sem snýr að fjölskyldulífi þeirra. Að viðurkenna  móðurmálskennslu sem réttindi barna - eins og sást í Fjölmenningarstefnu borgarinnar áður - veldur strax vandamálum fyrir yfirvöld, af því að þá verða þau að tryggja móðurmálskennslu á öllum tungumálum í skólanum, sem eru líklega fleiri en hundrað.

Auðvitað er það ekki hægt núna, og ég krefst þess ekki. Raunar steig lýsingin um móðurmálkennslu aftur á bak í Mannréttindastefnu borgarinnar sem tók yfir Fjölmenningarstefnu árið 2006: ,,... þeim (börnum af erlendum uppruna) gefið tækifæri til að kynna heimamenningu sína og móðurmál."

Hin hliðin er að kenna börnum móðurmál sitt í fjölskyldunni, það er, að láta þau læra móðurmál sitt heima fyrir. Að mínu mati, og í rauninni stendur móðurmálskennslan einhvers staðar þarna á milli - sem viðurkenndra opinberra réttinda barna og þess að vera einkamál innflytjenda, ef til vill nær því síðarnefnda. Það er mín von að vísirinn fari að hreyfast í hina áttina á næstunni. 

Ég krefst þess ekki að móðurmálskennslu á öllum tungumálum verði sinnt í skólanum, a.m.k. ekki núna, en ég óska þess að sú móðurmálskennsla sem nú er í gangi, og vonandi fleiri tungumál á næstunni, fái stöðugri stuðning eins og með fjárveitingu eða kennslustað sem væri hluti af félagslegri viðurkenningu. Félagið ,,Móðurmál" er búið að sanna starfsemi sína og mikilvægi tilvistar tvítyngdra barna. Nú er kominn tími á að samfélagið viðurkenni það. 

Ég tel tilvist tvítyngdra barna vera fjársjóður íslensks samfélags. Börn og ungmenni sem kunna tvö tungumál og menningarheima auðga sannarlega þjóðfélagið,  breikka það og dýpka. En móðurmálskennsla hefur sín örlög sama hvaða mál er að ræða. Hún er alltíð tímabundin.

Ólíkt mörgum verkefnum í samfélagi, getur móðurmálskennsla ekki beðið. Við getum rætt mörg ár um flutning flugvalla. En börn okkar alast upp dag eftir dag og við getum ekki stöðvað þau. Þrjú ár, fimm ár eða tíu ár í móðurmálskennslu þýða bókstaflega þá tímalengd. Ef foreldrar missa af tækifæri til að kenna börnum móðurmál sitt tímanlega, er það rosalega erfitt að fá það aftur til baka.

Ég óska þess innilega að Íslendingar taki þetta sérkenni í móðurmálskennslu til tillitssemi sinnar og tryggi fjársjóð þjóðarinnar í framtíð. 

- Fyrst birt í Mbl. 2. desember 2011- 

 


Gegn einelti

Í dag er "Dagur gegn einelti" og við erum skoruð á að hringja bjöllu í kirkju, skóla eða heimili kl.13:00 til þess að vekja athygli á eineltismálum.

Einelti er alvarleg mál og við þurfum að fylgjast málum vel. Málin sjást víða í heiminum t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörk, Japan o.fl. Í Japan, heimalandi mínu, voru 84.648 tilfelli eineltis skráð formlega á árinu 2007. Fornarlömb voru 6 ára til 18 ára í aldri.

Þessar tölur sýna okkur að 7,1 börn/unglingar í hverjum 1.000 mæta einelti. Engu að síður var fjöldi tilfella sem skólar höfðu viðurkennt sem einelti aðeins 40% af heildinni, enda 136 börn eða unglingar kusu að drepa sjálf. Mjög sorglegar tölur.

Mér skilst að flest okkar séum á móti einelti og sammála því að vinna til að stöðva einelti og losna við það frá samfélagi okkar. Við teljum að við séum gegn einelti.

En er það satt í alvöru? Ef við erum öllu á móti einelti, hvar eru þá gerendur eineltis? Erum við saklaus í málum eineltis og tökum aldrei þátt í einelti?

"Þátttekendur í einelti eru ekki aðeins að virkilegir gerendur, heldur einnig áhorfendur þess" segir fólk sem þekkir málið sameiginlega.

Ég held að við þurfum að fara yfir okkur sjálf fyrst og fremst.   

 


Er fjölmenning málefni fyrir konur?

Ég tók þátt í ráðstefnu "Brjótum múra" sem var haldin á föstudaginn og laugardaginn sl. Rauði krossinn Akranessdeildar og  Akraneskaupastaður héldu ráðstefnuna og hún var um fjölmenningu á Íslandi og innflytjendamál.
Ráðstefnan var mjög skemmtileg en fyrir utan innihaldið sjálft og umræðuna varð ég forvitinn um eitt atriði. Eftir því sem ég taldi gróft, voru meira en 80 prósent þátttekendanna konur.

Satt að segja, tók ég þetta fyrirbæri fyrir næstum tíu árum og skrifaði stutta grein um málið til að spyrja hvort málefni fjölmenningar og innflytjenda þættir kvennamál. 

http://www.toma.is/?p=108

En síðan kom tímabil þegar mikil aukning innflytjenda eftir árið 2005 og hún olli einnig aukningu starfa sem tengdu við málefnið. Og þá héld ég að kynjaójafnvægi kringum áhugafólk um fjölmenningar-og innflytjendamál hefði jafnast aðeins út.

En var staðan komin í sömu aðstæður aftur eftir kreppurnar? Ef það er það, hvers vegna? Ágiskan sem mér hefur dottið í hug er sú að maður getur ekki grætt á þessari málsgrein mikið. Sem sé, getur þetta málefni ekki verið mikið viðskiptatækifæri. Málefnið er í eðli sínu velferðarmál og því kallar það ekki virkan áhuga karlmanna yfirleitt.

Að sjálfsögðu er þetta bara ágiskan mín, en ekki niðurstaða könnunar eða eitthvað slíkt. En er það fleiri túlkun á þessari fyrirbæri eða útskýring?         
Það verður önnur ráðstefna um "integration" innflytjenda hjá HÍ 14. - 15. nóvember. Ég er forvitinn hvernig kynjajafnvægi verður þar! 
Wink


Hjörtu úr gulli

Landsmót Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar sem var haldið um helgina 28. október til 30. tókst rosalega vel með 500 unglingum. Landsmótið var með yfirskriftina„Hjörtu úr gulli", en hvaðan komu þessi orð?

Á mótinu var Japan mikið í fókus. Unglingar tóku þátt í ýmsum hópastarfum sem tengd voru japanskri menningu eins og t.d.„Sushi",„Manga(teiknamyndum)" eða„Japanskri tísku". Markmiðið var söfnun fyrir japönskum börnum sem eiga í erfiðleikum vegna jarðskjálftanna og flóðbylgnanna í mars sl. en unga fólkið safnaði dósum og kallaði eftir samskotum í bænum.

1.120 börn yngri 20 ára misstu annað foreldri eða bæði, og helmingur þeirra eru 7 til 15 ára í aldri. Mikið fleiri þjást af áfallastreituröskun. Tvennt blasir við í aðstæðum barna í hamfarasvæðunum: í fyrsta lagi börnin vantar mannleg samskipti til að komast yfir slæma reynslu sína. Og í öðru lagi vantar það búnað í skóla og skóladót til að skólalíf barna falli í eðlilegt horf.

Mörg samtök í Japan veita aðstoð til hamfarasvæðanna að sjálfsögðu, en þörfin er mikil. Eitt þeirra samtaka heita„Hjörtu úr gulli" og þau hjálpa börnum einmitt í ofangreindum atriðum. Peningar sem unglingar í ÆSKÞ safna eiga að fara til Nobiru-grunnskólanns, sem er í miðju hamfarasvæðanna, gegnum hjálpasamtökin„Hjörtu úr gulli".

Ég tók þátt í hluta landsmótsins ásamt nokkrum samlöndum mínum. Ég var hissa, satt að segja, í fræðslustund í byrjun um hvers vegna við hjálpum öðrum í neyð, þar sem allir hlustuðu á fyrirlesarann virkilega vel án þess að spjalla sín á milli eða vera með læti. Og síðan í frjálsri stund urðu þeir aftur kraftmiklir unglingar með brosandi andlit.

Það er hluti af því að vera almennileg manneskja að hugsa til fólks í neyð. Engu að síður gleymist þetta oft í hversdagslífi okkar, eða það er hunsað virkilega. Því finnst mér stórkostlegt að unglingar í ÆSKÞ sýndu frumkvæði í að taka söfnun til barna í Japan að sér og fræðast um málið.
Ég vona að söfnunin verði tækifæri líka til að móta mannleg samskipti milli unglinga á Íslandi og japanskra barna og eftir mótið þróist þau þannig að japönsk börn komi í heimsókn til Íslands og öfugt.

Sem japanskur einstaklingur hérlendis langar mig að þakka ÆSKÞ og unglingunum fyrir hlýju hugmyndina þeirra og framtakið. Þeir verða leiðtogar íslensku þjóðarinnar í framtíðinni. Ég óska innilega þess að þeir verði leiðtogar með„hjörtu úr gulli". Þá verður framtíð Ísland björt.

-Fyrst birt í Mbl. 5. nóv. 2011-  

 


ÁFRAM AMAL!

Amal Tamimi varð þingkona í dag. Mig langar að senda henni hamingjuósk og hjartanlega stuðning við starf hennar á næstunni.

Við sáumst hvort annað daglega áður, þar sem við vorum bæði tengd við Alþjóðahús. En síðan varð það sjaldan að við hittumst og núna man ég ekki hvenær ég talaði við hana í síðast.

Hún er nefnilega ekki aðeins fyrsta kona í þinginu sem er af erlendum uppruna, heldur líka fyrsta múslimi í þinginu (þó að ég kannaði málið ekki almennilega). Það hlýtur að vera talsvert álag að "axla" að vera múslimi í svo kallaðri "kristinni þjóð" í þessu tímabili. Margir horfa á Amal með forvitin augu. En ég vona að hún eyði ekki of miklum tíma í því að sanna eða réttlæta tilvist sína sem múslima. Ég held að sönnun og réttlæti fylgir góðu strafi.
 
Nú dugar það ekki að vera "innflytjandi" í ýmsum stöðum, heldur verðum við að gera gott starf í eigin grein sinni. Það - að við innflytjendur gerum gott starf- væri líklega einfaldast og best háttur til að svara efasemd við "fjölmenningu".
 
Guð blessi Amal og satrf hennar í þinginu.
 
  

mbl.is Fyrst erlendra kvenna á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smábörn fái að læra móðurmál sitt

Móðurmálskennsla hjá Japönum hér á landi hófst fyrir fimmtán árum og við höfum hist vikulegu laugardagsmorgnum. Síðastiðin tvö ár höfum við fengið að vera í safnaðarheimili Neskirkju. 28 börn yngri en 18 ára eru skráð í námið núna. 
Japanski hópurinn tilheyrir Félagi Móðurmál, sem er samtök tíu móðurmálskennsluhópa með mismunandi tungumál eins og ensku, spænsku og rússnesku, en starfsemin, þ.á.m. kennslan sjálf, byggist á sjálfboðastarfi foreldra barnanna og áhugafólks. 

Hjá japanska hópnum hefur einnig bættist við hópur smábarna (0 – 3 ára) frá og með núverandi hausti og þá taka 4-5 smábörn þátt í tímum með foreldrum sínum. Þau syngja saman barnalög, lesa barnasögur og leika sér saman á japönsku. 
Ég er þeirrar skoðunar að móðurmálskennsla eigi að hefjast við fæðingu barns, jafnvel á meðgöngu og því fagna ég þessari þróun.

Af hverju fyrir smábörn? 

Ástæða þess að ég tel móðurmálskennslu fyrir smábörn vera mikilvæg er þrennum toga. Í fyrsta lagi er eðlilegt að nota móðurmál alveg frá upphafi í uppeldi barns. Það styrkir samband milli foreldri og barns að hafa samskipti á eigin tungu. 
Í öðru lagi hefur það góð áhrif á barn að hitta önnur börn og fullorðna sem tala sama móðurmál og sitt eigið og þekkja tilvist annars fólks sem notar það mál. 
Í þriðja lagi getur kennslan verið hvatning til foreldra barnanna. Með því að hittast reglulega í kennslutímum, geta foreldrarnir skipst á skoðunum sínum og reynslu sem varðar kennslu móðurmáls eða uppeldi barna. 
Ég lærði það af reynslu minni meðal innflytjenda að þegar að þegar foreldri smábarns er sjálft að læra íslensku til þess að aðlagast samfélaginu hér, þá getur það verið of þungt verkefni að kenna barninu móðurmál sitt, enda gefast of margir upp á því verkefni. Slíku væri hægt að komast hjá ef foreldrarnir fengu nægilega hvatningu. 

Hvað er nauðsynlegt? 

Þess vegna held ég það sé eftirsóknarvert að vera með móðurmálskennslu frá því að að barn er enn smábarn. En hvað vantar til að framkvæma kennsluna? Mér finnst tvö atriði vera ómissandi. 

Í fyrsta lag er mikilvægt að foreldrarnir skilji vel mikilvægi móðurmálskennslu og hafi einnig til þess sterkan vilja. Það er jú auka verkefni að mæta í móðurmálskennslu með litla barninu sinni, en málinu er ekki lokið við það. Fyrir smábarn verður foreldri sjálft að vera kennari ásamt öðrum foreldrum. Þetta verkefni er nátengt því að styrkja tengsl á milli barns og foreldra og því er það ekki hægt að láta einhvern annan sjá um kennsluna. 

Í öðru lagi er að fá stað fyrir kennsluna. Ef það er fimm smábörn með einu eða báðum foreldrum sínum koma í kennsluna, þá hittast a.m.k. tíu manneskjur í kennsluna. Það gæti verið aðeins of mikið til að vera í heimahúsi. Einnig verður þetta að vera staður þar sem börn geta skriðið á gólfinu og sest á gólfi. Þannig að um herbergi eins og kennslustofa grunnskóla er ekki hentug þegar um smábörn eru að ræða.
 
Aðstoð kirkjunnar óskast
 
Við í japanska hópnum erum mjög lánsöm af því að við fáum að nota safnaðarheimili án þess að borga leigu. Raunar sýnist mér safnaðarheimili kirkju vera æskilegt umhverfi fyrir móðurmálskennslu fyrir smábörn að mörgu leyti. 

Þetta er persónuleg ósk mín, ef 4-5 foreldrar sem eiga annað móðurmál en íslensku og smábörn vilja að halda móðumálskennslu eins og ég hef lýst hér ofan, að kirkjur í kringum þau opni safnaðaheimili sín og bjóði þeim að nota þau til þess. Ef foreldrar sjá um kennsluna sjálfir þá verður ekkert álag fyrir kirkjuna og ef kennsla er í opnum tíma hennar, þá þarf ekki að kalla kirkjuvörð til þess heldur. Það kostar ekkert fyrir kirkjuna. 

Að sjálfsögðu er kirkjunni ekki skylt að halda samkomur sem hefur í eðli sínu ekki beint samband við kristni. Samt er móðurmálskennsla góð starfsemi í eðli sínu og mjög mikilvægt fyrir uppeldi barns og einnig fyrir fjölskyldusamband viðkomandi foreldri og barns. 
Það verða engin hagsmunaárekstur fyrir kirkju eða önnur félög eða samtök. Þvert á móti er þetta tækifæri fyrir kirkju að nálgast fólk af erlendum uppruna og kynnast því vel.

Ég óska að móðurmálskennsla fyrir smábörn verði haldin á mörgum tungumálum hér á Íslandi og ef kirkjan getur veitt fólki aðstoð með því að leyfa því að vera í safnaðarheimili sínu, væri það frábært!

-Fyrst birt í Mbl. 22. október 2011-



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband